Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

11 August 2012

Nýja herferð SMÁÍS

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 04:31

SMÁÍS er loksins komið með nýtt útlit á vef sinn eftir margra ára bið en um er að ræða svokallaðan placeholder fyrir nýjan vef. Er þetta í tengslum við herferð þeirra. Við skulum samt sjá til hversu lengi þessi placeholder mun vera þarna.

Ein auglýsingin hljómar svo:

YURI DREIFIR STOLNU EFNI TIL ÞÚSUNDA ÍSLENDINGA Í HVERJUM MÁNUÐI.
– ERT ÞÚ Í VIÐSKIPTUM?

Í hverjum mánuði neyta þúsundir Íslendinga efnis þar sem eignarréttur er virtur að vettugi. Niðurhal og áskrift að læstri dagskrá af erlendu efni sem ekki er lögmæt[sic!] hér á landi, t.d. af SKY og Netflix, kostar íslenskt þjóðfélag háar upphæðir. Á Íslandi tapa allir á þessu athæfi, skattgreiðendur, rétthafar efnisins og þeir sem starfa í hinum skapandi greinum.

Metum eignarréttinn að verðleikum og njótum hugverka löglega. Kynntu þér málið á smais.is/hugverk

Þessi auglýsing er að mínu mati röng af ýmsum ástæðum:

Er efninu stolið?
Fyrst er hægt að velta upp þeirri heimspekilegri spurningu hvort efninu hafi í raun og veru stolið. Það er alveg möguleiki en samkvæmt upplýsingunum á smais.is/hugverk fer þetta fram þannig að viðkomandi fær áskriftarkort í gegnum einhvern millilið sem býr í Stóra Bretlandi eða Írlandi. Í slíkum tilfellum er engu stolið þó vissulega sé hægt að segja að notkun kortanna sé ekki í samræmi við skilyrði SKY um að nota kortin ekki utan ákveðins svæðis. SKY fær svo sannarlega greitt fyrir notkun kortanna þó slíkum blekkingum sé beitt.

Annar möguleikinn er að einhver taki það að sér að dreifa áfram sendingum SKY og móttakendur þurfa ekki að greiða neitt til SKY, heldur milliaðilans, ef hann yfir höfuð rukkar fyrir það. Rétthafasamtökin fá þá væntanlega ekkert fyrir sinn snúð vegna útsendingarinnar og þeir aðilar sem hafa greitt fjárhæðir fyrir dreifingarréttinn á því svæði. Það eru þeir aðilar sem SMÁÍS er að vernda. Það eru engir höfundar með beina aðild að samtökunum svo vitað sé til.

Telst það stuldur ef ég kaupi t.d. hamar sem má eingöngu nota í Bretlandi en ég flyt hann til Íslands til þess að nota við húsasmíði? Hvað ef samtök húsasmíðameistara hefðu löglegt markaðseinráð um sölu og notkun hamra og hafa verðskrá ef hamrar keyptir erlendis eru fluttir inn? Væri það stuldur á hamrinum ef ég myndi nota hann á Íslandi án þess að greiða gjaldið? Spurningin er samt hvort slíkt fyrirkomulag væri siðferðislega rétt. Ef tilgangur SMÁÍS með þessari auglýsingu er að vekja athygli almennings á siðferðislegum rétti þeirra til að fá efnið með þessum hætti, þá hefur það mistekist hrikalega.

Tapið
Er tap skattgreiðenda eins mikið og samtökin halda fram? Í gögnum þeim sem SMÁÍS lagði fram við lögbannsbeiðni þeirra gegn Istorrent var útreikningur á áætluðu tapi rétthafa vegna torrent.is og var matið byggt á því að hvert niðurhalað eintak jafngilti tapaðri sölu. Fyrir utan það að mesta tapið sem hægt er að áætla er innkaupaverð vörunnar og annar kostnaður sem aðilinn verður fyrir. Hagnaður sem ekki verður af telst ekki sem tap þegar um er að ræða huglæga vöru, enda er eintakið enn til sölu hjá dreifingaraðilanum. Ef við notum hamarsdæmið aftur felst tap félags húsasmíðameistara eingöngu í leyfisgjöldunum en ekki vegna tapaðrar sölu á hamri.

Annað sem SMÁÍS hugsar varla út í með þessari röksemdarfærslu er að mörgum Íslendingum er sama þótt þeir greiði aðeins hærri skatta til þess að njóta ódýrs eða ókeypis efnis. SMÁÍS þarf að koma með röksemdarfærslu sem hvetur fólk til þess að taka eigingjarna ákvörðun um að fá efnið í gegnum leiðir sem rétthafar vilja í stað þess að koma með slíkar lummur. Fólk er almennt séð eigingjarnt og því þurfa að koma rök sniðin að því.

Ein einföld ástæða fyrir tapinu er samkeppni. Þetta er auðvitað ekki eina ástæðan en af hverju ætti fólk t.d. að fara á kvikmyndahús þegar það getur upplifað fína stemmingu fyrir framan flatskjáinn í stofunni sem það keypti fyrir háar upphæðir og sleppt við óhljóðin sem fylgir öðrum bíógestum og dýrar veitingar og hléin sem þekkjast varla annars staðar en á Íslandi? Auk þess eru kvikmyndir sýndar með tíðara millibili en áður fyrr sem orsakar dreifðari aðsókn að kvikmyndum. Síðan getur fólk horft á marga aðra miðla eins og Blu-Ray, DVD, YouTube, Dailymotion, Hulu og þá er eingöngu búið að nefna löglegu miðlana.

Aðgerðir SMÁÍS varðandi SKY málið
Ein spurningin sem þeir svara með sínum ‚snilldarlega‘ spurningalista á smais.is/hugverk er „Af hverju kæra ekki SMÁÍS eða rétthafar þá sem selja SKY áskrift hér á landi?“. Svarið við þeirri spurningu var að slíkt væri ávallt seinasta úrræði „enda bæði kostnaðarsamt sem og vandmeðfarið þar sem erfitt getur verið að sanna aðild að máli“. Það fyndna er að SMÁÍS fór einmitt í slíkt dómsmál árið 2007 sem endaði fyrir Hæstarétti árið 2008 (mál nr. 146/2008). Seinni hluti tilvitnunarinnar er sérstaklega fyndinn þar sem málinu var vísað frá af eftirfarandi ástæðu:

Þá var talið að heimild S til að hafa uppi kröfur um staðfestingu lögbanns og skaðabætur yrði ekki studd við 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þá yrði heimild þeirrar málsgreinar til að hafa uppi viðurkenningarkröfu ekki beitt til að ná fram afmörkuðum hagsmunum eins félagsmanns. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun málsins því staðfest .

Saga málsins er að 365 miðlar voru á móti þessum áskriftum og ýttu SMÁÍS í að hefja dómsmálið, það er að segja í stað þess að gera það sjálfir. Dómsniðurstaðan var látin standa og 365 miðlar ehf. virðast ekki hafa aðhafst frekar í málinu þrátt fyrir að þeir hefðu getað háð dómsmál sjálfir í framhaldinu. Rétthafar sjálfir hafa ekkert aðhafst í dómsölum gegn SKY en SMÁÍS hefur gert það og virðast vandræðin með aðild varla eiga við handhafa einkaréttar á dreifingu mikils af því efni sem SKY á að vera að dreifa.

Síðan ætti ekki að vera mikið mál fyrir SMÁÍS að koma með herferð sem gengur út á það að fara milli sportbara og sjá hverjir þeirra eru með óleyfilegar útsendingar af SKY. Það ætti að vera ódýrara en dómsmál.

Höfundalög
Löggjöfin í kringum höfundalög eingöngu góð fyrir ákveðinn hóp einstaklinga: þá sem rétthafasamtökin starfa fyrir og þá sem starfa fyrir rétthafasamtökin en sérstaklega fyrir þá síðarnefndu. Vernd neytenda er afleiðing en ekki tilgangur höfundalaga. Verk sem falla undir höfundarétt hverfa aldrei úr honum alveg. Ég sem höfundur gæti til dæmis aldrei afsalað mér höfundarétti til almennings og þökk sé löggjöfinni hefur STEF heimild til þess að heimta greiðslur fyrir mína hönd ef ég nokkurn tímann ákveð að semja lag og birta, og án þess að hafa nokkurn tímann fengið umboð frá mér til þess. Það gildir líka ef ég afþakka öll höfundagjöld sérstaklega þar sem þeir telja sig vita betur hvað sé mér fyrir bestu.

Eru höfundalögin ekki frábær fyrir höfunda?

Lok
Þetta er aðeins hluti af því sem er rangt við þessa herferð og mæli ég með því að fólk lesi fáránleikann sem kemur fram í þessari herferð með eigin gagnrýnum augum.

– Svavar Kjarrval

14 April 2011

smais.is

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 09:45

Þá er komið að afmæli nýjustu fréttarinnar á smais.is en hún var skrifuð 14. apríl 2008. Ástæðan fyrir því að engar uppfærslur hafi átt sér stað vegna þess, að sögn Snæbjarnar Steingrímssonar, var gerð árás á vef þeirra fyrir nokkrum árum. Fáir myndu mótmæla þeirri staðhæfingu að 3 ár er meira en nægur tími til að laga mögulegan skaða eða jafnvel setja upp glænýjan vef. Líklegri ástæða fyrir töfunum er leti.

Þrátt fyrir að Snæbjörn hafi stundað nám í lögfræði í a.m.k. 2 annir eru skilmálar smais.is enn óbreyttir og eru þeir svohljóðandi:

Allar upplýsingar sem fram koma á vef SMÁÍS er eign SMÁÍS, nema annað sé sérstaklega tekið fram eða leiða megi af eðli máls. Óheimilt er að setja krækju (link) á vef SMÁÍS af annarri vefsíðu nema með skriflegu samþykki samtakanna. Skriflegt samþykki SMÁÍS þarf til að endurbirta, afrita eða dreifa upplýsingum sem fram koma á heimasíðu SMÁÍS

Nú hefur greinarhöfundur brotið skilmála vefsins á tvennan hátt og býður eftir lögregluheimsókn fyrir að vísa á vef SMÁÍS og fyrir að dreifa upplýsingum sem fram koma á vef þeirra – án skriflegs samþykkis samtakanna.

– Svavar Kjarrval

3 December 2010

Viðtal á Rás 2

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 08:38

Svavar Kjarrval fór í viðtal í Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun og ræddi um Istorrent málið og húsleitir lögreglu. Þar snertir hann á nokkrum þáttum Istorrent málsins og fer yfir helstu mannréttindabrot lögreglunnar við húsleitirnar.

1 April 2010

Samkomulag við rétthafa

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 01:50

Í kjölfar dóms Hæstaréttar í Istorrent-málinu svokölluðu hófust löng og stíf fundarhöld milli Svavars Kjarrvals og rétthafasamtakanna um eftirmála dómsins. Var í gær komist að þeirri niðurstöðu að í skiptum fyrir niðurfellingu á málskostnaði og annarra bóta myndi Svavar Kjarrval afhenda rétthöfum gagnagrunn vefsins torrent.is eins og hann var þegar lögbannið var sett á. Þar á meðal öll varaafrit sem enn eru til og ná þau til seinni hluta ársins 2006. Munu þessi gögn hjálpa rétthöfum verulega í leit að þeim þjófum sem ollu því tapi sem rétthafar urðu svo sannarlega fyrir. Afhendingin er byggð á heimild laga 53/2006 og er verið að spara ríkinu stórar fjárhæðir með því að leita ekki til dómstóla og sýslumanns.

Einnig hefur Svavar Kjarrval gegnt ráðgjafastarfi um endurbætur á höfundalögum og var frumvarpi þaraðlútandi útbýtt í gær. Er vonin sú að frumvarpið muni koma í veg fyrir frekari lagaflækjur í framtíðinni hvað höfundarétt varðar.

Gögnin munu vera afhend kl. 16:00 í dag á höfuðstöðvum SMÁÍS að Laugavegi 182.

11 February 2010

Dómur Hæstaréttar

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 06:23

Það er óhætt að segja að Hæstiréttur dæmdi í hag STEF í Istorrent-málinu. Fréttatilkynning á íslensku og ensku fylgir þessari færslu.

Vegna fjárskorts mun ekki vera haldið áfram með málið.

Dóm Hæstaréttar má finna hér: http://haestirettur.is/domar?nr=6419.

Fréttatilkynningin.

Niðurstaða síðar í dag

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:53

Hæstiréttur mun opinbera dóm sinn kl. 16:00 í dag. Það er óvíst hvort ég geti mætt á staðinn en bloggfærslan mun vera birt hér fyrir kvöldmat.

Þeir sem vilja tryggja sér eintak af fréttatilkynningu sem send verður í tilefni af niðurstöðunni geta haft samband við media@torrent.is. Þetta boð er opið öllum.

3 February 2010

Málflutningurinn fyrir Hæstarétti

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 02:39

Þann 1. febrúar síðastliðinn klukkan 9 hófst munnlegur flutningur málsins. Fyrst flutti lögmaður Istorrents málið og síðan tók við lögmaður STEF. Eftir það var tekin ein umferð af andsvörum í sömu röð. Tók þetta allt eingöngu um tvær klukkustundir. Málið var síðan lagt í dóm og er búist við niðurstöðu einhverntímann í febrúar.

Í stað þess að koma með nákvæma útlistun á atburðarásinni er betra að stikla á stóru. Tveir nýir lögmenn tóku við flutningi málsins og því tækifæri til að fá nýjar og spennandi hliðar á það. Því miður verð ég að nefna að það tókst frábærlega hjá Istorrent en málstaður STEF virðist ekkert hafa batnað.

Þótt ég sé ekki með hlutlausa skoðun verð ég að nefna að lögmaður Istorrents stóð sig frábærlega og var frammistaða hans til fyrirmyndar. Það var greinilegt á málflutningnum að hann hafði hellt sér í málið og gert það að sínu eigin. Lögmaður STEF sýndist ekki vera sannfærandi og kom varla með neitt nýtt í málflutninginn. Andsvör STEF voru, í meginatriðum, varla skárri. Sum þeirra voru ágæt en tilfinningin var að þau væru endurorðun á „nau-hauts!“ og „víst!“.

Einhverra hluta vegna komu fram haldlaus rök af hálfu lögmanns STEF sem höfðu jafnvel verið skotin á kaf áður. Ekki veit ég hvort þau voru tekin upp aftur í þeirri von að Hæstiréttur myndi taka þau gild eða vegna þess að þau hafi verið krydduð til að hljóma meira sannfærandi. Meðal þeirra helstu eru ákvæðin um hlutdeild í lagabrotum í einkamálum og tilskipanir frá Evrópusambandinu.

Niðurstöður í  dómsmálum reknum á Norðurlöndum voru þuldar upp af hálfu STEF í þeirri von að sannfæra dóminn um að erlendir dómstólar túlkuðu lögin í þeirra hag og því ættu þeir að gera það sama á Íslandi (vegna skyldleika laganna hér og á Norðurlöndunum). Þess bar að geta að þau voru öll rekin í undirrétti fyrir utan Napster-málið í Noregi en lögmaður Istorrents var þegar búinn að vísa það. Einnig var það sérstaklega nefnt í höfundalögum þar að hlutdeild/meðábyrgð er einnig brot á lögum en slíkt er ekki að finna í íslensku höfundalögunum (enn þá). Það var einkar fyndið að STEF vísaði í The Pirate Bay málið sem sönnun um túlkun á sænsku lögunum þegar það mál er einn stór brandari og óvíst hvort að dómarinn hafi verið óhlutdrægur aðili vegna aðildar hans í rétthafasamtökum.

Einnig tók ég eftir í málflutningi STEF að rökleiðslan var eitthvað sem var nokkuð ábótavant. Fyrir héraðsdómi nefndi ég að notendur gætu hafa dreift efni ólöglega (þ.e. að það væri alveg fræðilega mögulegt) en síðan var það túlkað af lögmanni STEF að ég vissi að það væri ólögleg dreifing í gangi. Ef Jón gæti fræðilega séð barið konuna sína, þá barði hann konuna sína. Nokkuð skrítin rökleiðsla.

Verð síðan að nefna tölfræðivitleysuna hjá STEF. Með lögbannsbeiðninni sem þeir sendu til sýslumanns var fylgiskjal sem átti að sýna tap rétthafa á starfsemi Istorrents. Var tapið reiknað sem 2 milljarðar á ári. Persónulega bjóst ég ekki við því að þeir myndu koma með þessa upphæð fyrir Hæstarétti um svokallað tap þeirra en það gerðu þeir. Forsendan var að hvert niðurhal jafngilti tapaðri sölu (sem var gefið óbeint til kynna) og þá er eingöngu miðað við topplistana í hverjum flokki. Nánari útlistun á því hversu röng aðferðin er myndi vera of löng fyrir þessa færslu. Jafngildi niðurhals og tapaðrar sölu er tekið fyrir á mörgum öðrum stöðum á Internetinu en að miða við topplistana er álíka því að finna út meðallaun launahæstu manna landsins og segja að sú tala séu meðallaun allra á landinu.

Jafnvel þótt það sé ekki hægt að segja að málið sé sama og unnið gæti ég vel trúað að það verði niðurstaðan miðað við frammistöðuna við Hæstarétt. Niðurstaðan kemur að sjálfsögðu á Istorrent bloggið.

3 January 2010

Istorrent-málið hjá Hæstarétti

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 01:28

Eftir um hálfs árs bið er Istorrent-málið loksins komið á dagskrá hjá Hæstarétti. Samkvæmt vef Hæstaréttar verður munnlegur málflutningur mánudaginn 1. febrúar næstkomandi klukkan 9:00. Vegna málavaxta munu 5 dómarar dæma í málinu sem gefur til kynna að niðurstaða þess gæti orðið fordæmisgefandi.

23 July 2009

Dómi héraðsdóms áfrýjað

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 06:44

Búið er að áfrýja dómi héraðsdóms sem kveðinn var upp 4. febrúar síðastliðinn í máli STEF gegn Istorrent ehf og Svavari Lútherssyni. Í honum var lögbann á torrent.is staðfest ásamt viðurkenningu á bótaskyldu. Dómurinn er það ósanngjarn að mikið tilefni var til þess að áfrýja honum til Hæstaréttar. Krafist er að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara sýknu. Óvíst er hversu langan tíma það tekur að afgreiða málið hjá Hæstarétti en áætlanir hljóða upp á 6 mánuði í það minnsta. Eru hér taldar nokkrar málsástæður sem hafðar eru uppi í málinu.

Samaðild
Rök fyrir þessu má finna í eldri færslum í blogginu en í stuttu máli fjallar hún um það að STEF eitt og sér á ekki að hafa lagalegan rétt á að standa eitt í lögbannsmáli þegar það fleiri aðilar krefjast lögbannsins. Í fyrstu umferð Istorrent málsins úrskurðaði Hæstiréttur að 3 af þeim fjórum aðilum sem kröfðust lögbannsins höfðu ekki lagalega heimild til þess.

Óljóst um vernd höfundalaga á erlendum verkum
Upp kom sú málsástæða að óljóst er hvort öll erlend verk séu varin af íslenskum höfundalögum. Héraðsdómur ákvað samt sem áður að fjalla ekkert um hana og er því mótmælt.

Skortur á sönnunum um að notendur hafi brotið höfundalög
Það eina sem lagt var fram sem átti að sanna að notendur torrent.is hafi brotið höfundalög eru útprentanir sem eiga að vera af torrent.is. Engar sannanir voru settar fram um að meint brot hefðu verið í raun og veru framin. Engar sannanir voru heldur settar fram að þær lýsingar sem notendur hafi sett fram hafi verið af efninu sem átti að hafa verið sent þeirra á milli. Hin svokölluðu sönnunargögn voru geymd á tölvu Snæbjarnar Steingrímssonar, framkvæmdastjóra SMÁÍS, í um 8 daga þar til þau voru prentuð út. Talið er að héraðsdómur leggi of mikið traust á þessi gögn.

Áfrýjendur brutu ekki höfundalög
Í úrskurðinum er byggt á því að þau verk sem notendur vísuðu í með torrent-skrám sínum hafi verið „í boði“ af hálfu áfrýjenda. Því er harðlega mótmælt þar sem verkunum var ekki dreift af eða geymd á vefsvæði þeirra. Í íslensku höfundalögunum er ekki minnst á að þriðji aðili geti verið sekur um brot á höfundalögum. Þar að auki er ekki einu sinni minnst á það í dómnum nákvæmlega hvaða lög áfrýjendur eiga að hafa brotið. Það er engin lagaheimild til þess að dæma fyrir hlutdeild í brotum á höfundalögum nema í sakamáli.

Lög 30/2002 (rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta)
Sú þjónusta sem torrent.is veitti telst vera rafræn þjónusta í skilningi þeirra laga og veita þessi lög ýmsar takmarkanir á ábyrgð þjónustuveitanda. Lögin segja enn fremur að þjónustuveitanda beri engin skylda til að hafa eftirlit með þeim gögnum sem þeir hýsa né almenna skyldu til að leita uppi ólöglega notkun á þjónustunni. Samtökin sem standa fyrir lögbanninu hefðu með réttu átt að tilkynna þau brot skv. þessum lögum í stað þeirra aðgerða sem þau beittu. Héraðsdómur hafnaði rökum sem tengdust þessum lögum með því að vísa í formálsgrein tilskipunar frá Evrópusambandinu en hún er ekki talin eiga við um starfsemi torrent.is.

Þetta er ekki tæmandi listi af málsástæðum en ætti að gefa einhverja mynd af þeim.

24 April 2009

Ósanngjörn réttarhöld í The Pirate Bay málinu

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 02:56

Torrentfreak.com flytur þær fréttir að The Pirate Bay hópurinn, sem nýlega var dæmdur sekur um að hafa aðstoðað við brot á höfundalögum, hafi beðið um endurupptöku málsins þar sem dómarinn í málinu hafi alls ekki verið hlutlaus.

Tomas Norström, dómarinn sem um ræðir, hafi verið, og er enn, meðlimur í stjórnum félaga sem berjast fyrir strangari höfundalögum og jafnvel í þeim tilgangi að verja hagsmuni iðnaðarins hvað höfundarrétt varðar.

Þessi félög heita (á ensku):
Swedish Association of Copyright (SFU)
Swedish Association for the Protection of Industrial Property (SFIR)

Hann sætir nú gagnrýni ýmissa aðila í Svíþjóð fyrir að hafa ekki vikið sæti og látið annan dómara sjá um málið. Að hans eigin mati fannst honum sín eigin aðild í starfsemi félaganna ekki hafa áhrif á hlutleysi hans. Einnig var það hans hlutverk að sjá til þess að réttarhöldin væru sanngjörn m.a. hvað varðar hlutleysi dómenda.

Rick Falkvinge, formaður Sjóræningjaflokksins í Svíþjóð, segir þetta „spillingu af algjörlega ófyrirgefanlegu stigi“.

Það verður áhugavert að sjá hvort þessi frétt ratar í íslensku miðlana.

Older Posts »

Powered by WordPress