Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

26 September 2008

Dómsmálinu vísað frá að hluta

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 04:11

Fyrr í dag var kveðinn upp úrskurður sem leiðir til þess að hlutar málsins eru á mismunandi stigum. Tveim dómkrafanna í málinu var vísað frá og hinar verða teknir fyrir í efnismeðferð hjá héraðsdómi. Sá hluti málsins sem enn er eftir hjá héraðsdómi mun bíða þar til örlög hins frávísaða hluta eru ljós. STEF hefur möguleika á því að kæra niðurstöðuna til Hæstaréttar og munu þá aðrir hlutar málsins bíða á meðan.

Hér eru dómkröfurnar:

  • Að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is eða aðra sambærilega vefsíðu sem gerir notendum hennar kleift að fá þar aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnenda eiga höfundarrétt að án samþykkis rétthafa. Til vara að stefndu verði bannað með dómi að gera notendum vefsíðunnar www.torrent.is kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem hefur að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnenda eiga höfundarétt að án samþykkis rétthafa.
  • Að lögbann sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði lagði þann 19. nóvember 2007, við því að stefndu starfræki vefsíðuna www.torrent.is sem gerir notendum hennar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundarréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnenda eru rétthafar að verði staðfest með dómi.
  • Að viðurkennd verði bótaskylda stefndu.

Þær kröfur sem eru feitletraðar var vísað frá á meðan hinar verða teknar fyrir í efnismeðferð. Efnismeðferðin tefst samt þar til komið er í ljós hvort STEF kærir frávísunina eða ekki (sem þeir munu líklegast gera). Eftir að Hæstiréttur hefur sagt sitt mun vera haldið áfram með málið eins og það verður eftir afgreiðslu Hæstaréttar.

Fréttatilkynning send út í tilefni úrskurðarins.

Dómurinn sjálfur.

25 September 2008

Uppkvaðning úrskurðar í héraðsdómi

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 02:08

Á morgun kl. 14:10 verður kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjaness um hvort dómsmálinu verði vísað frá héraðsdómi eða ekki. Þeir sem hafa áhuga mega mæta en þetta mun líklegast taka innan við 10 mínútur.

22 September 2008

Staðan í málinu og annað

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 05:32

Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir úrskurður dómara í málinu þótt það séu liðnar nær þrjár vikur frá því málflutningur um frávísun fór fram þann 3. september sl. Það kæmi varla á óvart ef hann yrði birtur í þessari viku svo það er lítið annað hægt að gera en að bíða. Hann verður birtur hér þegar hann hefur verið kveðinn upp.

Málið getur verið flókið í augum þeirra sem hafa ekki fylgst mikið með því og er það efni í heila ritgerð. Útkomur málsins geta verið margar og sömuleiðis margar mismunandi leiðir að hverri þeirra. Ef héraðsdómur samþykkir frávísunarkröfuna yrði málinu vísað frá þar í bæ. STEF hefði þá eina viku til að áfrýja úrskurðinum til Hæstaréttar sem þeir myndu líklegast gera. Ef Hæstiréttur yrði jafnlengi og seinast að kveða upp úrskurð og staðfestir frávísunina er möguleiki að málinu ljúki á næstu 6-8 vikum. Þessi niðurstaða er sú sneggsta sem mér datt í hug fyrir utan þann möguleika að annar hvor aðilinn láti undan fyrir þann tíma. Væntanlegur úrskurður héraðsdóms mun því hafa mikil áhrif á tímalengd lögbannsins.

Til að svara þeim orðrómum um að Istorrent sé að opna aftur eða sé það nú þegar, þá er ekki hægt að staðfesta slíkt. Vefurinn verður áfram lokaður í það minnsta þar til lögbanninu hefur verið aflétt. Hvort hann opni eftir að því lýkur verður ákveðið þegar sú stund kemur upp. Istorrent er ekki að standa í rekstri á öðrum BitTorrent vefum á eigin vegum eða í samstarfi við aðra og er ekki séð fram á að svo verði á meðan lögbannið er í gildi. Starfsemi Istorrents fer fram undir lénunum torrent.is og istorrent.is og yrðu breytingar á því fyrirkomulagi tilkynntar hér. Þessum orðrómum er því hér með hafnað.

Fjárhagsstaða Istorrents er er ekki hin besta þessa stundina og hefur því miður lítið komið inn seinustu mánuðina. Þeir sem eru svo heppnir að hafa efni á að láta fé af hendi rakna til Istorrents á þessum krepputíma eru beðnir um að íhuga það. Lögfræðikostnaðurinn sem liggur fyrir er gríðarlegur eins og kemur fram í fyrri færslu. Upplýsingar um hvernig eigi að millifæra eru á haus bloggsíðunnar. Einnig er hægt að senda féð nafnlaust til:
Istorrent
Pósthólf 125
222 Hafnarfirði

E.S. Þeir sem sjá um Deilt.net eru vinsamlegast beðnir um að hætta að beina fólki á netfangið torrent@torrent.is þar sem Istorrent sér ekki um notendaaðstoð fyrir Deilt.net.

4 September 2008

Málflutningurinn um frávísun í 2. umferð – ágrip

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 10:18

Þeir stefndu í málinu, Svavar Lúthersson og Istorrent ehf., kröfðust þess fyrir héraðsdómi að málinu yrði vísað frá. Í gær var sú beiðni tekin fyrir þar sem lögmenn beggja aðila rökstuddu sína hlið á frávísunarkröfunni. Nú er dómari að íhuga rökin og mun gefa út úrskurð sinn innan fjögurra vikna. Fylgir hér ágrip af því sem gerðist í réttarsalnum en berið það í huga að það er ritað af einum stefndu og því er þessi texti langt frá því að vera hlutlaus. Birt með þeim fyrirvara að textinn er unninn eftir minni og rituðum glósum og gæti innihaldið staðreyndavillur.

Þing var sett miðvikudaginn 3. september kl. 10 af Þorgeiri Inga Njálssyni, héraðsdómara. Hróbjartur Jónatansson hrl. mætti fyrir hönd STEF, Tómas Jónsson hrl. f.h. stefndu, Svavar Lúthersson og síðan áhorfendur.

Tómas Jónsson hrl. hefur mál:
– Fer yfir dómkröfur. Krafist er frávísunar málsins, bóta vegna lögbannsins og málskostnaðar.
– 4 samtök stóðu að lögbannsbeiðninni en eingöngu 1 þeirra tekur skráð sem stefnandi í þessu máli. Ætti að túlkast sem bindandi yfirlýsing um að hin þrjú vilji ekki taka lengur þátt í lögbanninu.
– Fór stuttlega í dóm Hæstaréttar í fyrri umferð.
– Vísar í greinargerð hvað frávísunarástæður varðar.
– Skylda hvílir á öllum þeim sem kröfðust lögbanns að taka þátt í staðfestingarmálinu.
– Stefnendur eru að fara út fyrir málsóknarumboðin.
– STEF fékk meira svigrúm í seinasta hæstaréttardómi en hin samtökin.
– STEF er ekki að heimta gjöld og getur því ekki sótt heimild til höfundalaga til að krefjast lögbanns.
– Haugur af dómskjölum liggur fyrir í málinu, flest þeirra umboð höfunda til STEF. Ekkert lagt fram sem sýnir fram á tengingu hvers höfundar við hvert verk.
– Vísaði í dóm Hæstaréttar nr. 185/1993 þar sem er getið að sakarefni verði að skipta alla félagsmenn máli en ekki bara fyrir suma.
– Stefnandi fékk tækifæri til að bæta viðurkenningarkröfuna frá seinasta dómi en hefur ekki gert það.
– Neitar fyrir hönd stefndu að þeir séu að reka sambærilegan vef. Stefnendur lögðu fram ásakanir um slíkt í stefnu sinni án þess að rökstyðja þær frekar.
– Engin gögn lögð fram um tónlist í tölvuleikjum og sjónvarpsþáttum.
– Vanreifað að varakrafa sé ekki í samræmi við lögbann og eigi því ekki erindi í málið.
– Vísa eigi málinu frá vegna laga 30/2002. Stefnandi nefnir bara að lögin eigi ekki við án þess að setja fram lagaleg rök.
– Gagnkvæmisskilyrði höfundalaga ekki uppfyllt. Óljóst er hvort að verk bandarískra höfunda njóta verndar á Íslandi. Bandaríkin hafa ekki fullgilt Bernarsáttmálann.
– Markmið þessa nýja staðfestingarmáls er að viðhalda ólögmætu lögbanni eins lengi og kostur er.

Hróbjartur Jónatansson hrl. hefur mál:
– Fer yfir dómkröfur. Krefst þess að frávísunarkröfu verði hafnað auk þess að dæmdur verði málskostnaður.
– Málið er í fullu samræmi við 4. kafla seinasta dóm Hæstaréttar. Hæstiréttur var að árétta framkvæmd höfundalaga.
– Stefnandi getur átt aðild að lögbanni og að almennum kröfum félagsmanna.
– Geta gert viðurkenningarkröfur í eigin nafni.
– Dómkrafa um bótaskyldu er einstaklingsbundin krafa.
– Hver og einn þeirra sem stóðu að lögbanninu getur farið sjálfstætt í mál. Engin lagarök fyrir samaðild.
– Kröfur þeirra eru ekki of víðtækar.
– Umboð liggja fyrir frá nánast öllum höfundum. Skýrt er í þeim að hver höfundur veitti STEF víðtæka heimild til að gæta réttinda sinna. Gildi þeirra ætti að vera tekið fyrir í efnismeðferð.
Dómari greip inn í og spurði „Nánast öllum?“. Hróbjartur kom með skýringu en dómarinn sagði honum að snúa ekki út úr. Þetta er svona „You had to be there“-tilvik.
– Málsóknarumboð óþörf því um er að ræða almenna hagsmunagæslu. Dæmi um það er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli STEF gegn Radíó Reykjavík.
– Bandaríkjamenn ekki sömu skoðunar um aðild að Bernarsáttmálanum.
– Viðurkenningarkrafa nær eingöngu til félagsmanna STEF en ekki hinna sem stóðu að lögbanninu.
– Stefndi á aðild að öðrum sambærilegum síðum. Fer nánar í það í efnismeðferð.
– Endalaus málaferli ef stefndi getur stofnað aðra vefi. Auðvelt að stofna netsíður en erfiðara að fá hljóðvarpsleyfi.
– Ekkert sem bannar að komið sé með aðrar efniskröfur í staðfestingarmáli.
– Lýsir yfir undrun á seinasta dómi héraðsdóms varðandi lög 30/2002. Þau lög eiga ekki við í þessu máli.

Tómas Jónsson hrl. gerir athugasemdir:
– Engin umfjöllun um samaðild í dómi Hæstaréttar. Umbjóðendur tóku við máli þriggja samtakanna fyrir Hæstarétti en málinu var vísað frá Hæstarétti hvað varðar þau samtök. Engin samaðild í málinu frá 1995.
– STEF var að innheimta gjöld af Radíó Reykjavík.
– Átti við staðfestingu/fullgildingu Bernarsáttmálans, ekki undirritun. Ekki liggur fyrir í málinu vitneskja um að fullgildingu Bandaríkjanna á téðum sáttmála.

Hróbjartur Jónatansson hrl. gerir athugasemdir:
– STEF er að mæta kröfum Hæstaréttar um þrengri kröfur með því að varpa fram þessari varakröfu. Hún er ígildi viðurkenningarkröfu. Ýmis samskipti milli hans og dómarans um merkingu varakröfunnar því orðalag hennar var afar óskýrt.
– Ekki samaðild þar sem um skipt réttindi er að ræða.
– STEF getur sótt bætur ef engin gjöld eru greitt. STEF getur ekki starfað ef samtökin geta ekki beitt aðgerðum gegn ólögmætum flutningi.
– Mörg mál hafin vegna bandarískra verka og þá meðal annars DC-málið og mörg önnur mál.

Málið tekið fyrir dóm kl. 11:24. Úrskurður ætti að vera opinberaðar innan fjögurra vikna. Dómarinn nefndi þó að hann ætlaði að reyna að vera fljótur að þessu.

2 September 2008

Peter Sunde á landinu

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 10:07

Vildi láta ykkur vita en Peter Sunde, einn forsvari The Pirate Bay, er staddur á Íslandi. Hann er hér í fríi en það er aldrei að vita hvort hann láti sjá sig í réttarsalnum á morgun þegar frávísunarkrafa Istorrents mun vera tekin fyrir.

Aðaltilgangur frísins er þó að slappa af og kanna landið en það hefur verið á óskalistanum hans í lengri tíma. Ég óska honum alls hins besta í ferðalaginu sínu til Íslands.

Uppfært:
Peter Sunde hefur staðfest það að hann ætlar að mæta.

Powered by WordPress