Seinasta föstudag var frávísunarhlutinn fluttur fyrir dómara. Eins og við mátti búast, þá var ekki mikil mæting og voru því nokkrir lausir stólar. Þeir sem ekki mættu misstu því af fjörinu sem átti sér stað. Í stuttu máli fór þetta þannig að við fluttum okkar rök fyrir frávísun og síðan stefnendur. Eftir það tóku aðilarnir til máls í sömu röð tvisvar sinnum í viðbót til að gera athugasemdir við rök hins aðilans. Um 15 mínútum gengnum í 12 ákvað dómari að slíta þinghaldinu og mun boða síðar til þinghalds, væntanlega til þess að tilkynna úrskurð sinn hvað varðar frávísun málsins.
Fyrir þá sem hafa áhuga á nánari atburðalýsingu, þá fylgir hún hér með. Þess ber að geta að jafnvel þótt rituð voru niður minnisatriði á blað, þá get ég ekki borið ábyrgð á því að allt sé rétt munað eða skrifað niður. Auk þess er það sem kemur hér fram birt með þeim fyrirvara að þetta er frá aðila sem er sá ákærði í málinu svo að frásögnin er ekki hlutlaus.
—
Þing hefst um kl. 10:30.
Mættir voru:
Þorgeir Ingi Njálsson, héraðsdómari.
Svavar Lúthersson, einn stefndu.
Tómas Jónsson hrl, lögmaður stefndu.
Hróbjartur Jónatansson hrl, lögmaður stefnenda.
Áhorfendur á bekk.
(Nöfn eru skammstöfuð til að auðvelda lestur)
HJ afhendir skjal sem á að bóka sem fjallar um þeirra rök fyrir núverandi aðild, skráð sem dómskjal 29. Dómari fær eintak ásamt lögmanni stefndu.
HJ nefnir síðan að lýsing stefndu um BitTorrent tæknina sé röng. Ekki er farið út í ástæðu þess að þeim þyki hún röng. Dómari nefnir að slíkur ágreiningur sé best geymdur þar til búið er að afgreiða frávísunarhluta málsins.
TJ hefur málflutning (1. umferð):
Frávísun byggist aðallega á þáttum er varða samaðild stefnenda og vanreifun á málinu sjálfu.
Nefnir að hann hafi í höndum tölvupóst frá stefnendum þar sem þeir óska eftir breytingum á aðild að málinu þar sem skipta á 365 miðla hf. fyrir SMÁÍS. Bréfið var sent 22. janúar síðastliðinn. Þar sem engin mótmæli komu vegna skráningu 365 miðla sem aðila í málinu, þá á að telja þá aðila að málinu en ekki SMÁÍS.
Óheimilt er og ósanngjarnt að tilgreina tiltekna félagsmenn og vísað í dómsfordæmi (náði ekki númeri málsins). Hvað um þá meðlimi sem eru ekki nefndir?
Umboð rétthafa gagnrýnd. Umboðin nefna ekki í orðanna hljómi að stefnendur megi hefja mál í eigin nafni. Einnig veita umboðin ekki heimild til þess að sækja mál með öðrum aðilum. Dómskjal 29 er ekki talið laga málið.
Vanreifun byggist á:
* Orðalaginu “sambærileg vefsíða”. Stefnendur gera ekki tilraun til þess að útskýra merkingu þessa orðalags í stefnunni.
* Vafa um hverra hagsmuni er verið að gæta. Gagnkvæmisskilyrði höfundalaga ekki uppfyllt hvað varðar bandaríska höfunda og því gilda íslensk höfundalög ekki um verk sem eiga uppruna í Bandaríkjunum.
* Skaðabótakröfunni. Vantar algerlega rökstuðning fyrir bótagrundvöll. Vísað í Myndstefsmál.
TJ lýkur máli sínu.
HJ hefur málflutning (1. umferð):
Vilja ekki frávísun og krefjast málskostnaðar. Sakar stefndu um að tefja málið vegna kröfu þeirra um frávísun.
Telur að málflutningur stefndu byggist á mótsögnum og illa grunduðum sjónarmiðum.
Telur SMÁÍS aðila að málinu þar sem aðilaskráningin “f.h.” geri ekki 365 miðla að aðila í málinu.
Sakar stefndu um að gera ekki greinarmun á málflutningsumboðum og málsóknarumboðum.
Skráning 365 miðla voru mistök við skráningu málsins.
Má sleppa tilvísun í félagsmenn eða hluta þeirra og vísar í Myndstefsmál. Vísar einnig í mál 575/2007 rekið fyrir Hæstarétti en málið var skráð sem SMÁÍS gegn Pétri Péturssyni þrátt fyrir að SMÁÍS hafi verið fyrir hönd 365 miðla.
Nefnir að engin breyting hafa átt sér stað á aðild og telur kröfu stefndu fráleita.
Telur ósanngjarnt að vísa frá öllu málinu vegna lögbannsgerðarinnar sjálfrar.
Engin samaðild í málinu því málið byggir ekki á óskiptum réttindum. Málið byggist heldur á samlagsaðild.
Sakar stefndu um að gera ekki grein á dómkröfu og lögbannskröfu.
“Sambærilega vefsíðu”-orðalagið er að finna í dómkröfu og ætti því frekar að takast á við það í efnismeðferð frekar en í frávísunarhluta málsins. Telur að augljóst sé hvað er átt við með orðalaginu og sé meiningin sú að koma í veg fyrir að stefndu stofni aðra síðu á öðru léni og haldi áfram brotastarfseminni.
Gagnrýni stefnenda á gagnkvæmisskilyrði höfundalaga óskiljanleg og ætti frekar heima í efnismeðferð.
Telur skaðabótakröfuna í fínu lagi.
Lýkur máli sínu á kröfu um að stefndu skuli greiða málskostnað.
TJ hefur málflutning (2. umferð):
Gagnrýnir HJ fyrir að reyna að gera lítið úr þekkingu hans á lögfræði.
Vísar í tölvupóstinn sem minnst var á áður og telur upp þau skipti sem að stefnendur höfðu tækifæri til þess að lagfæra “misskráninguna” en gerðu það ekki. Gerðarbeiðendur eiga allir að fara í mál skv. lögum um lögbönn.
Vísar í Myndstefsmál um kröfur.
Lýkur máli sínu.
HJ hefur málflutning (2. umferð):
Nefnir að það hafi ekki verið ætlan hans að móðga TJ.
Tölvupósturinn sem hann sendi 22. janúar hafi verið sendur í þeim tilgangi að koma í veg fyrir deilur um aðild með því að fara fram á formlega breytingu.
HJ lýkur máli.
Báðir aðilar fluttu stuttar athugasemdir í 3. umferð en ekki talið taka því að skrifa það sem fór fram niður sérstaklega.
Dómari slítur þingihaldinu og segist ætla að boða til þings síðar.
—
Samaðild eða samlagsaðild?
Ágreiningur er milli beggja hliða um hvort að samaðild eða samlagsaðild eigi við um aðild stefnenda í málinu. Fyrrnefnda aðildin er sótt í 18. gr. laga um meðferð einkamála en sú seinni í 19. gr. laganna. Stefnendur vilja meina að samlagsaðild eigi við þar sem þeir vilja meina að hver og einn gerðarbeiðenda lögbannsgerðarinnar hefði þess vegna getað sótt málið einn og sér. Stefndu vilja meina að allir gerðarbeiðendur séu skyldugir til þess að sækja málið saman og því eigi 18. gr. laganna við. Þar sem SMÁÍS sé ekki aðili að málinu, þá eigi að vísa málinu frá af þeim ástæðum.
“Sambærilega vefsíðu”.
Stefnendur telja að merking orðalagsins sé augljós og nefndi HJ að tilgangurinn sé að koma í veg fyrir að stefndu komi vefnum aftur upp undir öðru léni. Stefndu mótmæla því að það sé augljóst. Skv. orðalaginu í kröfunni er t.d. hægt að koma í veg fyrir að stefndu sjái um hvers kyns vefi sem sjá um að flytja höfundaréttarvarið efni eins. Í orðsins fyllstu merkingu myndi slík krafa skerða atvinnufrelsi stefndu talsvert sé hún samþykkt óbreytt.
Skaðabótakrafa réttmæt?
Þá er það stóra spurningin. Af hverju ættu rétthafasamtök að hafa rétt á að fá skaðabætur vegna þessa máls? Það er ekkert sem bendir til þess að samtökin sjálf hafi beðið skaða vegna gerningsins sem málið snýst um. Er það annars hlutverk samtaka/félaga að fá skaðabætur fyrir hönd meðlima sinna? Nei og af sömu ástæðum geta þau ekki krafist lögbanns. Annars væri hægt að stofna félag og krefjast lögbanns yfir einhverju. Síðan væri hægt að reka málið fyrir dómi og ef félagið myndi tapa málinu, þá væri hægt að leysa það upp áður í stað þess að greiða skaðabætur til þess sem lögbannið náði yfir. Auk þess eru auðvitað áhyggjur af því að þeir aðilar sem voru á móti lögbanninu þurfi einnig að greiða fyrir rekstur málsins og/eða skaðabæturnar ef málið tapast. Rosalega er það sanngjarnt gagnvart þeim aðilum.
Hvað ef samtökin myndu vinna málið og fá skaðabæturnar? Það væri þá lítið sem kæmi í veg fyrir að meðlimir samtakanna myndu allir fara í sjálfstæð mál til að fá skaðabætur. Ef þeir myndu vinna málið, þá væri verið að margborga skaðabæturnar fyrir sama meinta brotið. Því er það sanngjarnast að eingöngu höfundarnir sjálfir geti heimtað skaðabætur. Félögin geta þó hafið mál til að leita að viðurkenningu á rétti meðlima þess til skaðabóta en ekki til að fá skaðabæturnar sjálfar.
Yfirlýsingar um óleyfilega dreifingu.
Samtökin nefna oft að dreifingin hafi verið óleyfileg og eru merki um það í fjölmiðlum og einnig stefnunni sem var gefin út í þeirra nafni. Það er oftast gefið mál að samtökin hafa ekki spurt hlutaðeigandi höfunda hvort að þeir hafi leyft hana eða ekki. M.v. stefnuna sjálfa, þá myndi slík athugun fela í sér gríðarlega vinnu fyrir samtökin og því freistandi að taka þá leiðarstyttingu að gera bara ráð fyrir því að hún hafi verið með öllu óleyfileg.
Gefum dæmi um að ég sé lagahöfundur og að ég sé meðlimur að STEF. Síðan er hægt að komast yfir plötuna mína, sem ég framleiddi án hjálpar annarra höfunda, með milligöngu torrent.is og það væri jafnvel ég sem setti hana í dreifingu þar. Síðan kæmi STEF með þá yfirlýsingu um að hún væri þarna án leyfis höfundar. Væri það sanngjarnt að samtök – sem ég væri aðili að – gætu komið með slíkar yfirlýsingar að mér óforspurðum? Hvað ef ég væri ekki aðili að STEF? Myndi STEF eiga sama rétt á að koma með slíka yfirlýsingu fyrir hönd höfunda sem eru ekki einu sinni í samtökunum?
Mér finnst það undarlegt að rétthafasamtökin eru almennt svona yfirlýsingarglöð og hika varla við það að nefna álit höfunda sem hafa ekki einu sinni verið spurðir álits. Því miður hef ég ekki einstök dæmi en það má leiða þetta af eðli umræðunnar sem hefur átt sér stað í kringum málið. Get þó nefnt að samtökin gefa oft heimild fyrir notkun laga án samþykkis höfundanna sjálfra, sbr. samninga STEF vegna notkun laga í dagskrárauglýsingum.