Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

27 April 2008

Algengur misskilningur

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 05:26

Undanfarið hef ég verið að rekast á umfjallanir um BitTorrent vefi og stöðu þeirra gagnvart höfundalögum en því miður hef ég rekist á það að margir misskilja hana ásamt ýmsum atriðum varðandi Istorrent-málið. Verð ég því að grípa tækifærið og lista nokkur atriði sem of margir misskilja.

 • Það er bannað að dreifa verkum sem hafa höfundarrétt.
  – Já og nei. Þessi skilgreining er víðtækari en íslensku lögin. Það sem skiptir máli er hvort að leyfi rétthafa liggur fyrir eða ekki á meðan verkið er háð höfundarrétti. Ef leyfi rétthafa liggur fyrir er ekki ólöglegt að dreifa verkinu hvað höfundarrétt varðar. Síðan eru til undanþágur frá því í höfundalögum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
 • Deiliskrár eru ekki varðar höfundarrétti.
  – Rangt. Deiliskrár njóta þeirrar verndar sem höfundalögin veita. Höfundur ‘verksins’ er sá aðili sem bjó skrána til. Það má deila hvort raunveruleg sköpun hafi átt sér stað en þar sem hægt er, samkvæmt BitTorrent staðlinum, að stilla hvernig skráin er gerð þá er ekki hægt að sjá betur en að deiliskrár njóti verndar höfundalaga. Þar til annað er ákveðið af dómstólum er eðlilegt að líta þannig á málið.
 • Ólöglegt er að dreifa höfundarréttarvörðu efni.
  – Eins og áður nefnir fer það eftir því hvort leyfi rétthafa liggur fyrir eða ekki. Margir halda að hugtakið ‘höfundarréttarvarið’ geri dreifinguna ólöglega án tafar. Þetta hugtak skilgreinir ekkert annað en að dreifing og notkun efnisins sé háð vilja rétthafa eftir því sem lög leyfa.
 • Löglegt er að niðurhala höfundarréttarvörðu efni af Internetinu.
  – Því miður þarf svarið að vera óljóst en það fer eftir aðstæðum hverju sinni. Jafnvel lögfræðingar rétthafasamtakanna virðast ekki vera algerlega sammála um þetta atriði. Sé niðurhalið með leyfi rétthafa er þó hægt að nefna með fullri vissu að það sé ekki brot á höfundalögum. Um leið og leyfi rétthafa liggur ekki fyrir er óvissa komin í spilið og byggist á því hvort ‘brotið’ sé framkvæmt af ásetningi eða stórfelldu gáleysi en það síðarnefnda er háð mati dómstóla eftir atvikum. Alveg eins og Istorrent er sakað um svokallaða meðábyrgð vegna meintra lögbrota meðlima þess má einnig setja niðurhalarana undir sama hatt því án þeirra hefði dreifingin ekki átt sér stað (sömu ummæli áttu sér stað um þátt Istorrents í dreifingunni). Ef einhver fer á vef eins og mbl.is eða visir.is og hleður inn skrám sem innihalda fréttamyndir en síðan kemur það í ljós að vera einhverra þeirra er án leyfis höfundar. Í því tilviki var hlaðið niður höfundarréttarvörðu efni án leyfis rétthafa en eingöngu örvæntingafullur aðili myndi höfða mál gegn hverjum og einum sem fletti síðunni en persónulega efast ég um að einhver yrði dæmdur til að greiða skaðabætur vegna svona tilvika.
 • Að dreifa höfundarréttarvörðu verki án leyfis rétthafa jafngildir stuldi úr búð.
  – Slíkur samanburður er ekki eingöngu ósamanburðarhæfur, heldur einnig rangur. Það eru mjög fáar rannsóknir sem gefa til kynna tapaða sölu sem afleiðingu óleyfilegs niðurhals og þær rannsóknir eiga það sameiginlegt að hafa verið ræstar af ýmsum rétthafasamtökum og að vera óljósar. Þær rannsóknir sem ræstar hafa verið af óháðari aðilum eru ekki að styðja þá yrðingu að eitt niðurhal jafngildi tapaðri sölu. Samanburður á heildarsölutölum milli ársfjórðunga eða milli ára er sömuleiðis rangur þar sem hann getur ekki sannað með áreiðanlegum hætti neitt orsakasamhengi milli óleyfilegs niðurhals og mögulegum sveiflum í sölu. Þrátt fyrir að heildarsölutölur geti ekki myndað áreiðanlegt orsakasamhengi er þó hægt að bera slíkt saman við sölutölur einstakra verka að ákveðnu marki. Slík rannsókn hefur verið framkvæmd og niðurstaðan var sú að óleyfilegt niðurhal á höfundarréttarvörðum verkum hefur engin áhrif á sölu. Einnig eru til rannsóknir sem benda til þess að slíkt niðurhal hafi jákvæð áhrif á sölu.
 • Deiliskrár innihalda upplýsingar um þá aðila sem á að tengjast við til að fá efnið.
  – Deiliskrárnar sjálfar hafa ekki þessar upplýsingar. Þær innihalda upplýsingar um hvernig á að tengjast gagnabeininum sem í framhaldi af því útvegar þær upplýsingar sem forritið notar til að tengjast öðrum.
 • Það þurfa alltaf að liggja sérstakir skriflegir samningar að baki hverri dreifingu á höfundarréttarvörðu verki.
  – Kolrangt. Þetta er í raun það sem rétthafasamtökin á Íslandi hafa lengi haldið fram. Sem dæmi um hið andstæða má benda á dreifingarleyfi Creative Commons og GNU til að nefna þau vinsælustu. Í raun eru til tugi leyfa sem veita aðilum mismunandi réttindi til að dreifa og nota efnið án þess að efna til sérstakra samninga við rétthafa í hvert skipti. Höfundur verksins getur ákveðið að verkið sitt sé háð ákveðnu dreifingarleyfi og þá er engin skylda að gera sérstaka samninga við rétthafa verksins á meðan farið er eftir dreifingarleyfinu. Undanþágur frá ákveðnum atriðum dreifingarleyfanna er hægt að sækja um hjá höfundi ef þörf er á.
 • Það voru mistök að stofna Istorrent ehf.
  – Nei, svo er ekki hægt að segja með réttu. Helstu forsendurnar fyrir frávísun málsins voru þeir fjárhagslegu hagsmunir sem Istorrent ehf. hafði á starfsemi vefsvæðisins þar sem þeir spiluðu sterkt inn í túlkun dómenda á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu (lög 30/2002) þótt slíkt sé ekki getið með beinum orðum. Dómendur töldu nógu sterka ástæðu til að halda að fyrrnefnd lög gætu mögulega átt við um starfsemina og vísuðu málinu frá þann 27. mars síðastliðinn. Efasamt er að tengingin við fyrrnefnd lög hefðu verið eins sterk ef vefurinn hefði að nafninu til verið rekinn lagalega séð af einstaklingi en ekki fyrirtæki.
 • SMÁÍS eru þeir einu sem kröfðust lögbannsins.
   -Nei, það eru fjórir aðilar að baki lögbanninu. Ásamt SMÁÍS eru það STEF, Framleiðendafélagið SÍK og Félag Hljómplötuframleiðenda. Því má ekki gleyma að SMÁÍS eru ekki einu samtökin í þessari baráttu þótt opinber umræða í málinu beinist alltaf að SMÁÍS en ekki hinum samtökunum. Hafa ber í huga að SMÁÍS er eingöngu með beint umboð 365 hf. í málinu sem þýðir að allir aðrir meðlimir samtakanna deila kostnaðnum með 365, hvort sem þeim líkar betur eða verr og óháð því hvort þeir hafi einhverra hagsmuna að gæta eða ekki. Einnig sýnist þörf á að nefna að SMÁÍS hefur lítið sem ekkert að gera með réttindamál vegna tónlistar eða íslenskra kvikmynda.
 • Istorrent fær allan lögfræðikostnað greiddan þegar/ef það vinnur málið.
  – Nei, það er ekki satt. Þegar frávísunin var dæmd þann 27. mars sl. var dæmdur málskostnaður eingöngu 500 þúsund og málið var þegar búið að kosta okkur þrjár og hálfa milljón og allur kostnaður fyrir Hæstarétti á enn eftir að vera settur í innheimtu. Ef hlutfallið gefur til kynna dæmdan málskostnað fyrir Hæstarétti er alveg ljóst að Istorrent þarf að bera um 6/7 málskostnaðarins þrátt fyrir sigur í málinu.

Birt með þeim áskildum rétti að bæta við fleiri atriðum síðar og breyta eftir þörfum.

17 April 2008

Greinargerð Istorrents til Hæstaréttar

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:55

Þann 15. apríl var lokið við greinargerð varnaraðila, Svavars Lútherssonar og Istorrents ehf., vegna áfrýjunar rétthafasamtakanna fjögurra í Istorrent-málinu. Í stuttu máli er farið fram á að frávísunardómurinn verði staðfestur. Ásamt þeirri ástæðu sem héraðsdómur taldi fram vegna frávísunar málsins lögðum við fram fleiri atriði sem ættu að varða frávísun. Tómas Jónsson hæstaréttarlögmaður flytur málið fyrir okkar hönd og fær hann kærar þakkir fyrir það.

Eftirfarandi aðalástæður ættu að vera nægjanlegar til að staðfesta frávísun málsins:
I. Aðild sóknaraðila uppfyllir ekki reglur um samaðild.
II. Sóknaraðilar hafa farið út fyrir málsóknarumboð sitt.
III. Málið er vanreifað af hálfu sóknaraðila m.t.t. laga 30/2002.
Fyrri tvær ástæðurnar eru að mati varnaraðila nærtækari fyrir frávísun málsins og ættu því að ganga framar þeirri þriðju við úrlausn málsins.

I. Aðild sóknaraðila uppfyllir ekki reglur um samaðild.
Samaðild skv. lögum er þegar 2 eða fleiri aðilar eru skv. lögum skyldugir til að fara saman í mál vegna sama löggernings (sama atviks) eða af öðrum ástæðum þar sem þeir eru knúnir til að fara saman í mál. Þegar lögbannið var sett á af sýslumanni komst á slík skylda af þeirra hálfu. Í lögbannsmálum verða því allir sem krefjast lögbannsins að hefja mál til staðfestingar á því.

Í greinargerð varnarðila fyrir héraðsdómi er því haldið fram að reglur um samaðild séu ekki uppfylltar þar sem aðildin að lögbannsgerðinni sé önnur en í staðfestingarmálinu. SMÁÍS var aðili að lögbannsgerðinni en í stefnunni voru ekki gerðar dómkröfur fyrir hönd SMÁÍS heldur gerir SMÁÍS kröfur fyrir hönd 365 hf. sem þá var orðinn aðili að dómsmálinu ef stefnan er lesin skv. orðanna hljóðan. Það var skilningur dómara og lögmanna allt þar til 25. janúar að 365. hf. væri aðili að málinu en ekki SMÁÍS. Af þeim ástæðum er ekki hægt að telja SMÁÍS sem aðila að stefnunni.

II. Sóknaraðilar hafa farið út fyrir málsóknarumboð sitt.
Málsóknarumboð byggja á því, gróflega séð, að aðilar geti veitt öðrum aðila heimild til þess að sækja mál fyrir sína hönd. Engin almenn lög eru til um þau þannig að gildi þeirra byggist á lögum eða vegna dómvenju.

Í úrskurði héraðsdóms 11. febrúar virðist réttlætingin á aðild SMÁÍS koma frá svonefndum Myndstefsdómi (hrd. 390/1996) en það er misskilningur. Dómvenjan snýst einvörðungu um svokallað innheimtuumboð rétthafasamtaka sem gengur út á að innheimta höfundarréttargjöld í eigin nafni í þágu félagsmanna. Málsóknarumboð samtakanna var takmarkað við kröfur í eigin nafni um þóknun fyrir notkun mynda og náði ekki til miskabóta.

Þar sem engin heimild er veitt í lögum til handa rétthafasamtakanna til að beita málsóknarumboðum vegna brota á höfundarrétti og í þessu máli er ekki um að ræða innheimtu gjalda fyrir birtingu verka og felst því heimild samtakanna við almennu málsóknarumboðsheimildina (3. mgr. 25. gr. eml.). Í þeirri heimild er félögum og samtökum leyfilegt að höfða mál í eigin nafni vegna viðurkenningar á réttindum félagsmanna sinna eða lausn þeirra undan skyldum ásamt því skilyrði að slík hagsmunagæsla samrýmist tilgangi þeirra.

Þann 13. nóvember 2007 féll dómur í Hæstarétti í máli SMÁÍS gegn Pétri Péturssyni (sk. Sky Digital mál – hrd. 575/2007) þar sem synjun sýslumanns um lögbann var staðfest þar sem með lögbanni var hvorki sóst eftir viðurkenningu á réttindum félagsmanna né lausn undan skyldu. Einnig er vísað í sk. ASÍ-dóm (hrd. 277/2001) þar sem krafa má ekki lúta berum orðum að réttindum og skyldum nafngreindra félagsmanna og síðan í hrd. 185/1993 þar sem kveðið var á að sakarefni málsins verði að skipta alla félagsmenn máli en ekki varða bara hagsmuni sumra.

Í Istorrent-málinu eru gerðar kröfur sem ganga þvert á fyrrnefnda dóma. Sóknaraðilar gera kröfur um viðurkenningu réttinda og þar að auki kröfur um staðfestingu lögbanns og um skaðabætur en síðarnefndu kröfurnar falla ekki undir viðkenningu á réttindum. Einnig eru nefndir tilteknir félagsmenn í tengslum við kröfugerðina og þá sérstaklega fyrirtækið 365 hf. og vísað til annarra sem umbjóðenda stefnenda án frekari skýringa. Orðalagið getur ekki átt við um alla félagsmenn sóknaraðila heldur einungis þá sem hafa gefið til þess málsóknarumboð eða áttu efni sem notendur torrent.is eru sakaðir um að hafa sent sín á milli.

Ekki allir félagsmenn rétthafasamtakanna hafa hagsmuni af kröfugerð sóknaraðila enda er því ekki haldið fram. Mismunurinn stafar aðallega af því að sumir meðlimir samtakanna áttu efni sem notendur vefsins eru sakaðir um að hafa dreift og aðrir ekki. Verður því að skoða réttarstöðu hvers og eins og þarf að skoða rétt hvers og eins þeirra til skaðabóta sbr. dóm Hæstaréttar nr. 377/2005.

Einnig liggur ekki fyrir að kröfur sóknaraðila séu í samræmi við tilgang þeirra sbr. samþykktir þeirra. Ekki er hægt að sjá að tilgangur þeirra sé að gæta hagsmuna erlendra rétthafasamtaka sinna þar sem hann nær einungis til félagsmanna þeirra. Í málinu er ekki skýrt frá því hvort skaðabótakrafan sé sett í þeirra eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sinna. Þá er því ekki haldið fram að rétthafasamtökin hafi sjálf orðið fyrir tjóni en samt sem áður töldu forsvarsmenn þeirra sig hafa fullan ráðstöfunarrétt og jafnvel eignarrétt yfir skaðabótunum ef þær skyldu vera dæmdar. Ekki er hægt að sjá að slíkt sé stutt af málsóknarumboðunum og talið að verið sé að fara langt út fyrir umboð þeirra.

III. Málið er vanreifað af hálfu sóknaraðila m.t.t. laga 30/2002.
Í greinargerð og í málflutningi voru rakin sjónarmið Istorrents ehf. og var starfseminni lýst sem þjónustu við notendur Internetsins og borið saman við þjónustu nafngreindra þjónustufyrirtækja. Þá var tekið fram að varnaraðilar teljist ábyrgðarlausir af meintum lögbrotum notenda og geti ekki verið í hlutverki löggæslu og hafi sinnt öllum tilkynningum um meint lögbrot. Var því verið að lýsa þeim sjónarmiðum sem liggja að baki ákvæðum laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu (lög 30/2002) sem héraðsdómi fannst ekki vera rætt nóg um. Því er hins vegar ekki mótmælt að í greinargerðinni var ekki nefnt berum orðum að fyrrnefnd lög ættu við um starfsemina en það var síðan nánar rökstutt við flutning málsins. Af fyrrgreindum ástæðum fæst það varla skilið að dómurinn hafi kveðið á um að varnaraðilar hafi átt sök á að hafa ekki fjallað nægilega um þýðingu laga 30/2002. Þó er því ekki mótmælt að umfjöllunin hefði mátt vera ítarlegri en þó ekki að því leiti að orsaka vanreifun af hálfu varnaraðila. Sóknaraðilar mótmæltu ekki þessum svokallaða skort á umfjöllun og er því sá þáttur málsins vanreifaður af þeirra hálfu.

Sóknaraðilar gera þá kröfu að frávísun héraðsdóms skuli ógilduð og vísað aftur til héraðsdóms vegna þess að varnaraðilar nefndu ekki gildi laga 30/2002 í greinargerð sinni og beri því að hunsa þau lög við úrlausn málsins. Ofangreindar ástæður eru ítrekaðar og minnst á að umfjöllunin um gildi fyrrnefndra laga hafi ekki verið mótmælt sem of seint fram kominni. Í lögum er kveðið á að dómendum sé rétt að túlka þýðingu á þögn aðila í málum og hafi verið rétt farið að þegar skortur á andsvari við tilvísun varnaraðila til laga 30/2002 hafi verið túlkaður sem samþykki. Af þeim ástæðum væri það rangt að undanskilja þýðingu þessara laga við úrlausn málsins af þeim ástæðum að sóknaraðili hafi ákveðið að gera ekki tilraun til að hrekja þann hluta varnanna.

11 April 2008

Ekki mikill peningur hér

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 02:37

Ég verð því miður að nefna að ég er frekar vonbrugðinn með skort á gjafmildi almennings í þágu málstaðar Istorrents. Held ég að þetta megi rekja til hins íslenska gens þar sem ein manneskja er látin leiða baráttuna en síðan hverfa allir hinir þegar reynir á og fórnin er skilin eftir svo hrægammarnir geti étið hana. Margir eru sammála því hversu fáránlegt þetta lögbann er en því miður er lítið gert til að hjálpa til í baráttunni. Sem betur fer eru þó ekki allir svoleiðis þar sem nokkrar hetjur hafa verið að leggja inn á styrktarreikninginn en því miður eru ekki nógu margir sem eru að styrkja. Sumir hefðu líklegast viljað styrkja málstaðinn en gátu það ekki vegna efnahagslegra vandamála en þær ástæður eru skiljanlegar.

Án þess að vilja hljóma eins og monthani, þá hef ég verið að gera helling fyrir þetta samfélag áhugamanna um frjáls skráarskipti. Nú er staðan þannig að lögfræðikostnaðurinn, bara fyrir vörnina, er kominn upp í um þrjár milljónir króna. Ef málið tapast þarf ég þar að auki að greiða stefnendum málskostnaðinn þeirra og mögulega greiða skaðabætur. Þetta er ekki eitthvað sem ég hef efni á að greiða einn, tveir og þrír og gæti ég jafnvel lent í gjaldþroti ef illa horfir. Nú vona ég að lesendur skilji að þetta er gríðarleg fjárhagsleg áhætta sem ég er að fara út í… fyrir ykkur! Ef ég hefði eingöngu hugsað um sjálfan mig væri ég löngu búinn að fara út í aðgerðir til að losna úr þessu máli á annan hátt eða gera það ódýrara í flutningi. Hins vegar gerði ég það ekki þar sem mér er nógu annt um jafningjanetasamfélagið til að halda áfram á þessari braut og af þeirri staðfestu sem ég hef sýnt. Þetta er ekki eingöngu fyrir mig, heldur samfélagið í heild sinni. Ef málið tapast gætu komið nokkuð slæm fordæmi í dómskerfinu.

Sumir virðast halda að ég sé þegar kominn með þessa hálfu milljón til að bæta upp tapið en svo er ekki. Hvort hún er greidd eða ekki fer eftir því hvernig áfrýjunin fer fyrir Hæstarétti. Sú fjárhæð er felld niður ef úrskurðirinn um frávísun er dæmdur ógildur og þá missi ég af þessari niðurgreiðslu á hinum raunverulega málskostnaði. Í sanni séð hafa eingöngu safnast rétt yfir 100 þúsund krónur frá almenningi. Þessi upphæð er auðvitað há fyrir venjulegan launamann en eingöngu um 1/30 af þeim kostnaði sem þegar hefur farið í vörn málsins. Þetta mál er ekkert grín fyrir aðila sem hafa ekki mikið milli handanna. Ótalinn er kostnaður málsins fyrir Hæstarétti.

Þrátt fyrir ofangreint, þá veit ég að starfsemi vefsins er ekki ólögleg. Þó er auðvitað einhver óvissa þar sem það er mikið af lagalegum atriðum sem hefur ekki reynt á áður fyrir rétti og það er ekki hægt að segja án efa að Istorrent vinni málið þar sem það er betra að vera varkár frekar en að neita því alfarið að önnur niðurstaða sé möguleg. Ég hef þó mikla trú á því að réttlátt dómskerfi sýkni mig af öllum kröfum rétthafasamtakanna ef við fáum nógu gott tækifæri til að kynna okkar mál fyrir dómstólum.

Einnig er ég leiður yfir því að sumir aðilar segjast vera alveg sama hvernig málið fer því þeir eru komnir á önnur jafningjanet. Eina ástæðan fyrir því að rétthafasamtökin hafa ekki enn kært önnur jafningjanet er einmitt vegna Istorrent-málsins þar sem samtökin vilja fyrst sjá hvernig það mál fer. Síðan munu þau meta stöðuna og sjá hvort það borgi sig að ráðast á önnur jafningjanet. Feluleikur með nafnleysi mun seint verja stjórnendur og eigendur jafningjaneta sem nýta sér þá aðferð til að komast hjá málsókn. Persónulega myndi ég telja það betra ef að allir notendur jafningjaneta sameinist í þessu máli og hindri helförina áður en hún byrjar frekar en eftir á. Hvernig munu þessir sömu aðilar bregðast við þegar þeir gera sér grein fyrir þessu? Ekki vel, myndi ég halda.

Það er ekki skemmtilegt að koma með svona ræðu en ég taldi hana nauðsynlega svo að almenningur geri sér grein fyrir þeim fórnum sem eru í gangi. Ég er ekki sá eini sem stendur í fórnum vegna þessa máls og vil ég þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóginn. Þeir aðilar eru þó af skornum skammti og lítill hluti þess fjölda sem notfærði sér torrent.is áður. Hvert hafa þeir notendur flúið?

Þeir sem vilja hjálpa til geta lagt það sem þeir mega missa inn á styrktarreikninginn (auglýstur efst á síðunni) og hvatt aðra til að gera slíkt hið sama. Ef einhver veit um aðrar góðar aðferðir til að styrkja málstaðinn, endilega hafa samband við mig í síma 863-9900. Sameinuð stöndum vér og sundruð föllum vér.

4 April 2008

Áfrýjun hefur litið dagsins ljós

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 06:09

Vil nýta tækifærið og minna á styrktarreikninginn okkar. Það væri frábært ef almenningur sæi sér fært á að láta af hendi smá upphæð sem verður nýtt í að greiða lögfræðikostnað. Jafnvel þótt héraðsdómur hafi ákveðið að dæma okkur í vil greiðslu upp á hálfa milljón, þá er lögfræðikostnaðurinn kominn í yfir 3 milljónir króna. Það er dýrt að reka mál fyrir dómstólum og margt smátt gerir eitt stórt. Upplýsingar um styrktarreikninginn má finna efst á síðunni.

Rétthafasamtökin kærðu úrskurð héraðsdóms um frávísun Istorrent-málsins til Hæstaréttar seinasta miðvikudag. Í textanum er hugtakið ‘stefnendur’ notað sameiginlega yfir rétthafasamtökin og ‘stefndu’ notað yfir Istorrent ehf. og Svavar Lúthersson. Textinn gæti orðið lögfræðilegar á pörtum.

Úrskurðarorðin sem kærð eru hljóma svo:
“Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnendur, Samtök myndrétthafa á Íslandi, Framleiðendafélagið – SÍK, Samtök tónskálda og eigenda flutningsréttar og Félag hljómplötuframleiðenda, greiði óskipt stefndu, Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni 500.000,- krónur í málskostnað.” (bls. 1 í kæru)

Af texta kærunnar er sett út á það að lögmaður stefndu hafi ekki gert nægilega grein fyrir þýðingu laga 30/2002 (lög um rafræna þjónustu og aðra rafræna þjónustu) og að hvaða leyti þau lög eigi við um starfsemi vefsins torrent.is. Í stuttu máli snýst sá hluti kærunnar um þá málavexti, frá sjónarhóli stefnenda, að dómendur í málinu hafi úrskurðað frávísun málsins því þeir hafi talið að stefnendur hafi átt að bera ábyrgð á því, af eigin frumkvæði, að sanna að lög 30/2002 ættu ekki við um starfsemi torrent.is. Nefna stefnendur að þeir stefndu ættu að bera hallann af því að hafa ekki vísað í þessi lög í greinargerð sinni og ekki gert það fyrr en við munnlegan málflutning þess. Þess er krafist að málinu verði vísað aftur til héraðsdóms og málið verði aftur tekið fyrir án þess að lög 30/2002 séu tekin til greina við úrlausn þess.

Síðar í kærunni fara stefnendur nánar í sakirnar og kenna héraðsdómi um vanrækslu þar sem dómendur spurðu ekkert nánar út í þýðingu laga 30/2002 í málinu og bera fyrir sig ákvæði 104 gr. laga um meðferð einkamála (lög 91/1991) og nefna að það hvíldi fortakslaus skylda á héraðsdómi að endurupptaka málið og leita skýringa ef málið teldist vanreifað um þýðingu laga 30/2002. Finnst stefnendum það ósanngjarnt að þeir séu “látnir líða réttarspjöll fyrir ófullnægjandi málatilbúnað varnaraðila” (bls. 6 í kæru).

Þar sem kæran er svo nýlega lögð fram, þá höfum við ekki að fullu ákveðið endanlegar dómskröfur okkar eða hvaða lagalegum rökum við beitum við meðferð þessa hluta málsins. Það má búast við færslu þegar við höfum skilað af okkur greinargerð okkar. Ef það eru einhverjir lögfræðinemar eða útskrifaðir lögfræðingar sem hafa lagaleg rök sem gætu skipt máli fyrir þennan hluta málsins, endilega setjið ykkur í samband við torrent@torrent.is á næstu dögum.

Það er von okkar að Hæstiréttur verði fljótur að afgreiða þessa áfrýjun. Á þessu stigi höfum við ekki hugmynd um hversu langan tíma það mun taka í þessu máli en Hæstiréttur er þó þekktur fyrir að vera fljótur að afgreiða frávísanir.

1 April 2008

Aprílgabb Istorrents

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:37

Fyrri fréttin sem send var hingað í nótt var auðvitað gabb. Í stað þess að fara gömlu leiðina og láta fólk hlaupa 1. apríl með því að fara á einhvern stað í ‘alvöru veröldinni’ var það gert rafrænt með því að láta fólk senda tölvupóst til Istorrents. 3 ónefndir einstaklingar bitu á agnið og sendu yfirlýsingu þess efnis að þeir mótmæltu yfirtöku gagnanna og hlupu því 1. apríl. Sumir ákváðu að nota aðrar samskiptaleiðir til að spyrja hvort það væri aprílgabb eða ekki. Til að forðast að hafa of mikinn trúverðugleika í fréttinni var ákveðið að bæta við sérstakri yfirlýsingu frá Snæbirni sem var í raun bara tenging á lagið ‘Never gonna give you up’ með Rick Astley en þeir sem trúðu því voru Rickrollaðir.

Þetta gabb var ekki sérlega gott þegar kemur að því að hlaupa fyrsta apríl en við reynum betur 1. apríl 2009 þegar vefurinn verður kominn á fullt aftur. Þeir sem koma við á Borgartúni 25 1. apríl 2009 kl. 18:00 fá 1 TB harðan disk að gjöf frá Istorrent (á meðan birgðir endast).

Þeir hjá The Pirate Bay voru þó heppnari og voru í betri aðstöðu til að gabbast í fólki þar sem þeir nefndu að þeir hefðu flutt höfuðstöðvar sínar til Sinai eyðimerkurinnar í Egyptalandi vegna breytinga á sænsku höfundalögum.

Rétthafasamtök hefja aðgerðir gegn Istorrent

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 04:10

Fyrr í nótt hófust aðgerðir af hálfu rétthafasamtakanna á höfuðstöðvar Istorrents að Borgartúni 25 og var greinilegt að samtökin voru ekki ánægð með frávísun máls þeirra gegn torrent.is í seinustu viku. Kl. 02:05 hófst vopnuð innrás af fullum krafti þegar 12 manna sérsveit ruddist inn í bygginguna stuttu eftir að næturvörður hennar hafði sett þjófavarnarkerfið í gang. Náðu samtökin því að flytja á brott öll tölvugögn sem Istorrent hafði undir höndum fyrir utan þetta blogg þar sem það var hýst annars staðar. Eru samtökin í áframhaldi aðgerðanna að vinna að því að koma þessum gögnum fyrir í næstu málaferlum sínum við notendur vefsins. Samtökunum hafa þó yfirsést persónuverndarlög þar sem kveðið er á að gögn er varði þriðja aðila eru ónothæf fyrir rétti ef hann mótmælir yfirtöku þeirra sama dag og gögnin skiptast um hendur, að öðrum kosti er ekki hægt að mótmæla gildi þeirra síðar.

Istorrent hefur boðist til þess að halda utan um alla þá aðila sem vilja mótmæla þessari yfirtöku. Það eina sem þeir þurfa að gera er að senda tölvupóst á torrent@torrent.is og láta þar fylgja fullt nafn sitt og yfirlýsingu um að yfirtöku gagnanna sé mótmælt.

Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS, sendi tilkynningu á YouTube til forsvarsmanna Istorrents þar sem hann nefnir að þeim þótti leitt að þurfa að gera þetta en ítrekar nauðsyn aðgerðanna af hálfu rétthafasamtakanna.

Powered by WordPress