Undanfarið hef ég verið að rekast á umfjallanir um BitTorrent vefi og stöðu þeirra gagnvart höfundalögum en því miður hef ég rekist á það að margir misskilja hana ásamt ýmsum atriðum varðandi Istorrent-málið. Verð ég því að grípa tækifærið og lista nokkur atriði sem of margir misskilja.
- Það er bannað að dreifa verkum sem hafa höfundarrétt.
– Já og nei. Þessi skilgreining er víðtækari en íslensku lögin. Það sem skiptir máli er hvort að leyfi rétthafa liggur fyrir eða ekki á meðan verkið er háð höfundarrétti. Ef leyfi rétthafa liggur fyrir er ekki ólöglegt að dreifa verkinu hvað höfundarrétt varðar. Síðan eru til undanþágur frá því í höfundalögum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. - Deiliskrár eru ekki varðar höfundarrétti.
– Rangt. Deiliskrár njóta þeirrar verndar sem höfundalögin veita. Höfundur ‘verksins’ er sá aðili sem bjó skrána til. Það má deila hvort raunveruleg sköpun hafi átt sér stað en þar sem hægt er, samkvæmt BitTorrent staðlinum, að stilla hvernig skráin er gerð þá er ekki hægt að sjá betur en að deiliskrár njóti verndar höfundalaga. Þar til annað er ákveðið af dómstólum er eðlilegt að líta þannig á málið. - Ólöglegt er að dreifa höfundarréttarvörðu efni.
– Eins og áður nefnir fer það eftir því hvort leyfi rétthafa liggur fyrir eða ekki. Margir halda að hugtakið ‘höfundarréttarvarið’ geri dreifinguna ólöglega án tafar. Þetta hugtak skilgreinir ekkert annað en að dreifing og notkun efnisins sé háð vilja rétthafa eftir því sem lög leyfa. - Löglegt er að niðurhala höfundarréttarvörðu efni af Internetinu.
– Því miður þarf svarið að vera óljóst en það fer eftir aðstæðum hverju sinni. Jafnvel lögfræðingar rétthafasamtakanna virðast ekki vera algerlega sammála um þetta atriði. Sé niðurhalið með leyfi rétthafa er þó hægt að nefna með fullri vissu að það sé ekki brot á höfundalögum. Um leið og leyfi rétthafa liggur ekki fyrir er óvissa komin í spilið og byggist á því hvort ‘brotið’ sé framkvæmt af ásetningi eða stórfelldu gáleysi en það síðarnefnda er háð mati dómstóla eftir atvikum. Alveg eins og Istorrent er sakað um svokallaða meðábyrgð vegna meintra lögbrota meðlima þess má einnig setja niðurhalarana undir sama hatt því án þeirra hefði dreifingin ekki átt sér stað (sömu ummæli áttu sér stað um þátt Istorrents í dreifingunni). Ef einhver fer á vef eins og mbl.is eða visir.is og hleður inn skrám sem innihalda fréttamyndir en síðan kemur það í ljós að vera einhverra þeirra er án leyfis höfundar. Í því tilviki var hlaðið niður höfundarréttarvörðu efni án leyfis rétthafa en eingöngu örvæntingafullur aðili myndi höfða mál gegn hverjum og einum sem fletti síðunni en persónulega efast ég um að einhver yrði dæmdur til að greiða skaðabætur vegna svona tilvika. - Að dreifa höfundarréttarvörðu verki án leyfis rétthafa jafngildir stuldi úr búð.
– Slíkur samanburður er ekki eingöngu ósamanburðarhæfur, heldur einnig rangur. Það eru mjög fáar rannsóknir sem gefa til kynna tapaða sölu sem afleiðingu óleyfilegs niðurhals og þær rannsóknir eiga það sameiginlegt að hafa verið ræstar af ýmsum rétthafasamtökum og að vera óljósar. Þær rannsóknir sem ræstar hafa verið af óháðari aðilum eru ekki að styðja þá yrðingu að eitt niðurhal jafngildi tapaðri sölu. Samanburður á heildarsölutölum milli ársfjórðunga eða milli ára er sömuleiðis rangur þar sem hann getur ekki sannað með áreiðanlegum hætti neitt orsakasamhengi milli óleyfilegs niðurhals og mögulegum sveiflum í sölu. Þrátt fyrir að heildarsölutölur geti ekki myndað áreiðanlegt orsakasamhengi er þó hægt að bera slíkt saman við sölutölur einstakra verka að ákveðnu marki. Slík rannsókn hefur verið framkvæmd og niðurstaðan var sú að óleyfilegt niðurhal á höfundarréttarvörðum verkum hefur engin áhrif á sölu. Einnig eru til rannsóknir sem benda til þess að slíkt niðurhal hafi jákvæð áhrif á sölu. - Deiliskrár innihalda upplýsingar um þá aðila sem á að tengjast við til að fá efnið.
– Deiliskrárnar sjálfar hafa ekki þessar upplýsingar. Þær innihalda upplýsingar um hvernig á að tengjast gagnabeininum sem í framhaldi af því útvegar þær upplýsingar sem forritið notar til að tengjast öðrum. - Það þurfa alltaf að liggja sérstakir skriflegir samningar að baki hverri dreifingu á höfundarréttarvörðu verki.
– Kolrangt. Þetta er í raun það sem rétthafasamtökin á Íslandi hafa lengi haldið fram. Sem dæmi um hið andstæða má benda á dreifingarleyfi Creative Commons og GNU til að nefna þau vinsælustu. Í raun eru til tugi leyfa sem veita aðilum mismunandi réttindi til að dreifa og nota efnið án þess að efna til sérstakra samninga við rétthafa í hvert skipti. Höfundur verksins getur ákveðið að verkið sitt sé háð ákveðnu dreifingarleyfi og þá er engin skylda að gera sérstaka samninga við rétthafa verksins á meðan farið er eftir dreifingarleyfinu. Undanþágur frá ákveðnum atriðum dreifingarleyfanna er hægt að sækja um hjá höfundi ef þörf er á. - Það voru mistök að stofna Istorrent ehf.
– Nei, svo er ekki hægt að segja með réttu. Helstu forsendurnar fyrir frávísun málsins voru þeir fjárhagslegu hagsmunir sem Istorrent ehf. hafði á starfsemi vefsvæðisins þar sem þeir spiluðu sterkt inn í túlkun dómenda á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu (lög 30/2002) þótt slíkt sé ekki getið með beinum orðum. Dómendur töldu nógu sterka ástæðu til að halda að fyrrnefnd lög gætu mögulega átt við um starfsemina og vísuðu málinu frá þann 27. mars síðastliðinn. Efasamt er að tengingin við fyrrnefnd lög hefðu verið eins sterk ef vefurinn hefði að nafninu til verið rekinn lagalega séð af einstaklingi en ekki fyrirtæki. - SMÁÍS eru þeir einu sem kröfðust lögbannsins.
-Nei, það eru fjórir aðilar að baki lögbanninu. Ásamt SMÁÍS eru það STEF, Framleiðendafélagið SÍK og Félag Hljómplötuframleiðenda. Því má ekki gleyma að SMÁÍS eru ekki einu samtökin í þessari baráttu þótt opinber umræða í málinu beinist alltaf að SMÁÍS en ekki hinum samtökunum. Hafa ber í huga að SMÁÍS er eingöngu með beint umboð 365 hf. í málinu sem þýðir að allir aðrir meðlimir samtakanna deila kostnaðnum með 365, hvort sem þeim líkar betur eða verr og óháð því hvort þeir hafi einhverra hagsmuna að gæta eða ekki. Einnig sýnist þörf á að nefna að SMÁÍS hefur lítið sem ekkert að gera með réttindamál vegna tónlistar eða íslenskra kvikmynda. - Istorrent fær allan lögfræðikostnað greiddan þegar/ef það vinnur málið.
– Nei, það er ekki satt. Þegar frávísunin var dæmd þann 27. mars sl. var dæmdur málskostnaður eingöngu 500 þúsund og málið var þegar búið að kosta okkur þrjár og hálfa milljón og allur kostnaður fyrir Hæstarétti á enn eftir að vera settur í innheimtu. Ef hlutfallið gefur til kynna dæmdan málskostnað fyrir Hæstarétti er alveg ljóst að Istorrent þarf að bera um 6/7 málskostnaðarins þrátt fyrir sigur í málinu.
Birt með þeim áskildum rétti að bæta við fleiri atriðum síðar og breyta eftir þörfum.