Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

4 April 2008

Áfrýjun hefur litið dagsins ljós

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 06:09

Vil nýta tækifærið og minna á styrktarreikninginn okkar. Það væri frábært ef almenningur sæi sér fært á að láta af hendi smá upphæð sem verður nýtt í að greiða lögfræðikostnað. Jafnvel þótt héraðsdómur hafi ákveðið að dæma okkur í vil greiðslu upp á hálfa milljón, þá er lögfræðikostnaðurinn kominn í yfir 3 milljónir króna. Það er dýrt að reka mál fyrir dómstólum og margt smátt gerir eitt stórt. Upplýsingar um styrktarreikninginn má finna efst á síðunni.

Rétthafasamtökin kærðu úrskurð héraðsdóms um frávísun Istorrent-málsins til Hæstaréttar seinasta miðvikudag. Í textanum er hugtakið ‘stefnendur’ notað sameiginlega yfir rétthafasamtökin og ‘stefndu’ notað yfir Istorrent ehf. og Svavar Lúthersson. Textinn gæti orðið lögfræðilegar á pörtum.

Úrskurðarorðin sem kærð eru hljóma svo:
“Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnendur, Samtök myndrétthafa á Íslandi, Framleiðendafélagið – SÍK, Samtök tónskálda og eigenda flutningsréttar og Félag hljómplötuframleiðenda, greiði óskipt stefndu, Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni 500.000,- krónur í málskostnað.” (bls. 1 í kæru)

Af texta kærunnar er sett út á það að lögmaður stefndu hafi ekki gert nægilega grein fyrir þýðingu laga 30/2002 (lög um rafræna þjónustu og aðra rafræna þjónustu) og að hvaða leyti þau lög eigi við um starfsemi vefsins torrent.is. Í stuttu máli snýst sá hluti kærunnar um þá málavexti, frá sjónarhóli stefnenda, að dómendur í málinu hafi úrskurðað frávísun málsins því þeir hafi talið að stefnendur hafi átt að bera ábyrgð á því, af eigin frumkvæði, að sanna að lög 30/2002 ættu ekki við um starfsemi torrent.is. Nefna stefnendur að þeir stefndu ættu að bera hallann af því að hafa ekki vísað í þessi lög í greinargerð sinni og ekki gert það fyrr en við munnlegan málflutning þess. Þess er krafist að málinu verði vísað aftur til héraðsdóms og málið verði aftur tekið fyrir án þess að lög 30/2002 séu tekin til greina við úrlausn þess.

Síðar í kærunni fara stefnendur nánar í sakirnar og kenna héraðsdómi um vanrækslu þar sem dómendur spurðu ekkert nánar út í þýðingu laga 30/2002 í málinu og bera fyrir sig ákvæði 104 gr. laga um meðferð einkamála (lög 91/1991) og nefna að það hvíldi fortakslaus skylda á héraðsdómi að endurupptaka málið og leita skýringa ef málið teldist vanreifað um þýðingu laga 30/2002. Finnst stefnendum það ósanngjarnt að þeir séu “látnir líða réttarspjöll fyrir ófullnægjandi málatilbúnað varnaraðila” (bls. 6 í kæru).

Þar sem kæran er svo nýlega lögð fram, þá höfum við ekki að fullu ákveðið endanlegar dómskröfur okkar eða hvaða lagalegum rökum við beitum við meðferð þessa hluta málsins. Það má búast við færslu þegar við höfum skilað af okkur greinargerð okkar. Ef það eru einhverjir lögfræðinemar eða útskrifaðir lögfræðingar sem hafa lagaleg rök sem gætu skipt máli fyrir þennan hluta málsins, endilega setjið ykkur í samband við torrent@torrent.is á næstu dögum.

Það er von okkar að Hæstiréttur verði fljótur að afgreiða þessa áfrýjun. Á þessu stigi höfum við ekki hugmynd um hversu langan tíma það mun taka í þessu máli en Hæstiréttur er þó þekktur fyrir að vera fljótur að afgreiða frávísanir.

1 Comment »

  1. […] apríl var lokið við greinargerð varnaraðila, Svavars Lútherssonar og Istorrents ehf., vegna áfrýjunar rétthafasamtakanna fjögurra í Istorrent-málinu. Í stuttu máli er farið fram á að frávísunardómurinn verði staðfestur. Ásamt þeirri […]

    Pingback by Istorrent bloggið » Blog Archive » Greinargerð Istorrents til Hæstaréttar — 17 April 2008 @ 11:55

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

You must be logged in to post a comment.

Powered by WordPress