Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

23 July 2009

Dómi héraðsdóms áfrýjað

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 06:44

Búið er að áfrýja dómi héraðsdóms sem kveðinn var upp 4. febrúar síðastliðinn í máli STEF gegn Istorrent ehf og Svavari Lútherssyni. Í honum var lögbann á torrent.is staðfest ásamt viðurkenningu á bótaskyldu. Dómurinn er það ósanngjarn að mikið tilefni var til þess að áfrýja honum til Hæstaréttar. Krafist er að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara sýknu. Óvíst er hversu langan tíma það tekur að afgreiða málið hjá Hæstarétti en áætlanir hljóða upp á 6 mánuði í það minnsta. Eru hér taldar nokkrar málsástæður sem hafðar eru uppi í málinu.

Samaðild
Rök fyrir þessu má finna í eldri færslum í blogginu en í stuttu máli fjallar hún um það að STEF eitt og sér á ekki að hafa lagalegan rétt á að standa eitt í lögbannsmáli þegar það fleiri aðilar krefjast lögbannsins. Í fyrstu umferð Istorrent málsins úrskurðaði Hæstiréttur að 3 af þeim fjórum aðilum sem kröfðust lögbannsins höfðu ekki lagalega heimild til þess.

Óljóst um vernd höfundalaga á erlendum verkum
Upp kom sú málsástæða að óljóst er hvort öll erlend verk séu varin af íslenskum höfundalögum. Héraðsdómur ákvað samt sem áður að fjalla ekkert um hana og er því mótmælt.

Skortur á sönnunum um að notendur hafi brotið höfundalög
Það eina sem lagt var fram sem átti að sanna að notendur torrent.is hafi brotið höfundalög eru útprentanir sem eiga að vera af torrent.is. Engar sannanir voru settar fram um að meint brot hefðu verið í raun og veru framin. Engar sannanir voru heldur settar fram að þær lýsingar sem notendur hafi sett fram hafi verið af efninu sem átti að hafa verið sent þeirra á milli. Hin svokölluðu sönnunargögn voru geymd á tölvu Snæbjarnar Steingrímssonar, framkvæmdastjóra SMÁÍS, í um 8 daga þar til þau voru prentuð út. Talið er að héraðsdómur leggi of mikið traust á þessi gögn.

Áfrýjendur brutu ekki höfundalög
Í úrskurðinum er byggt á því að þau verk sem notendur vísuðu í með torrent-skrám sínum hafi verið „í boði“ af hálfu áfrýjenda. Því er harðlega mótmælt þar sem verkunum var ekki dreift af eða geymd á vefsvæði þeirra. Í íslensku höfundalögunum er ekki minnst á að þriðji aðili geti verið sekur um brot á höfundalögum. Þar að auki er ekki einu sinni minnst á það í dómnum nákvæmlega hvaða lög áfrýjendur eiga að hafa brotið. Það er engin lagaheimild til þess að dæma fyrir hlutdeild í brotum á höfundalögum nema í sakamáli.

Lög 30/2002 (rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta)
Sú þjónusta sem torrent.is veitti telst vera rafræn þjónusta í skilningi þeirra laga og veita þessi lög ýmsar takmarkanir á ábyrgð þjónustuveitanda. Lögin segja enn fremur að þjónustuveitanda beri engin skylda til að hafa eftirlit með þeim gögnum sem þeir hýsa né almenna skyldu til að leita uppi ólöglega notkun á þjónustunni. Samtökin sem standa fyrir lögbanninu hefðu með réttu átt að tilkynna þau brot skv. þessum lögum í stað þeirra aðgerða sem þau beittu. Héraðsdómur hafnaði rökum sem tengdust þessum lögum með því að vísa í formálsgrein tilskipunar frá Evrópusambandinu en hún er ekki talin eiga við um starfsemi torrent.is.

Þetta er ekki tæmandi listi af málsástæðum en ætti að gefa einhverja mynd af þeim.

Powered by WordPress