Fyrr í dag var fyrirtaka fyrir aðalmeðferð í máli fjögurra rétthafasamtaka gegn Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni sem rekið er fyrir Héraðsdóm Reykjaness. Málið var hafið í kjölfar lögbanns sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði setti á starfrækslu vefsins torrent.is þann 19. nóvember síðastliðinn. Þeir stefndu óskuðu eftir skiptingu málsins þannig að lögbannið yrði tekið fyrir á undan en dómari samþykkti það ekki. Málið verður því tekið fyrir í heild sinni.
Aðilar málsins voru sammála um að hafa svokallað milliþinghald fyrir aðalmeðferð til að koma sér saman um framkvæmd aðalmeðferðar, leysa úr ýmsum ágreiningi og til gagnaöflunar. Í sama þinghaldi munu aðilar málsins afhenda lista yfir þá sem þeir óska að verði leiddir fyrir dóm í skýrslutöku.
Skv. því sem liggur fyrir verður milliþinghaldið þriðjudaginn 4. mars nk. og aðalmeðferð málsins viku síðar. Um er að ræða opið þinghald og eru allir áhugamenn um málið hvattir til þess að fylgjast með aðalmeðferðinni 11. mars inni í dómsal til að sýna málstaðnum stuðning og upp á forvitnissakir.
Eftir aðalmeðferð er áætlað að úrskurður í málinu fyrir héraðsdómi muni vera kveðinn upp 2-4 vikum síðar. Talsverðar líkur eru á að hvernig sem málið fer fyrir héraðsdómi að það endi fyrir Hæstarétti.
Séu einhverjir sem vilji aðstoða með málið eða búi yfir upplýsingum sem gætu skipt sköpum fyrir dómsmálið. Endilega hafið samband við Istorrent á netfanginu torrent@torrent.is eða Svavar í síma 863-9900. Einnig er auglýst eftir styrkjum sem munu fara í rekstur málsins.