Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

19 February 2008

Fyrirtakan í dag

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:59

Fyrr í dag var fyrirtaka fyrir aðalmeðferð í máli fjögurra rétthafasamtaka gegn Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni sem rekið er fyrir Héraðsdóm Reykjaness. Málið var hafið í kjölfar lögbanns sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði setti á starfrækslu vefsins torrent.is þann 19. nóvember síðastliðinn. Þeir stefndu óskuðu eftir skiptingu málsins þannig að lögbannið yrði tekið fyrir á undan en dómari samþykkti það ekki. Málið verður því tekið fyrir í heild sinni.

Aðilar málsins voru sammála um að hafa svokallað milliþinghald fyrir aðalmeðferð til að koma sér saman um framkvæmd aðalmeðferðar, leysa úr ýmsum ágreiningi og til gagnaöflunar. Í sama þinghaldi munu aðilar málsins afhenda lista yfir þá sem þeir óska að verði leiddir fyrir dóm í skýrslutöku.

Skv. því sem liggur fyrir verður milliþinghaldið þriðjudaginn 4. mars nk. og aðalmeðferð málsins viku síðar. Um er að ræða opið þinghald og eru allir áhugamenn um málið hvattir til þess að fylgjast með aðalmeðferðinni 11. mars inni í dómsal til að sýna málstaðnum stuðning og upp á forvitnissakir.

Eftir aðalmeðferð er áætlað að úrskurður í málinu fyrir héraðsdómi muni vera kveðinn upp 2-4 vikum síðar. Talsverðar líkur eru á að hvernig sem málið fer fyrir héraðsdómi að það endi fyrir Hæstarétti.

Séu einhverjir sem vilji aðstoða með málið eða búi yfir upplýsingum sem gætu skipt sköpum fyrir dómsmálið. Endilega hafið samband við Istorrent á netfanginu torrent@torrent.is eða Svavar í síma 863-9900. Einnig er auglýst eftir styrkjum sem munu fara í rekstur málsins.

11 February 2008

Frávísunarkröfu hafnað

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 05:05

Þorgeir Ingi Njálsson, héraðsdómari, kvað upp úrskurð um frávísunarkröfu stefndu í Istorrent-málinu fyrr í dag. Þar var kveðið á að henni skuli hafna og aðalmeðferð málsins heldur því áfram 19. febrúar nk. kl. 9:15. Hróbjartur Jónatansson, lögmaður stefnenda, var erlendis og mætti því fulltrúi hans í staðinn. Lögmaður stefndu, Tómas Jónsson, var upptekinn í Héraðsdómi Reykjavíkur við aðalmeðferð DC-málsins og mætti fulltrúi hans í staðinn.

Þeir stefndu telja þennan úrskurð ekki merki um ósigur. Þó að dómskerfið samþykki ekki allar kröfur sem lagðar eru á borð, þá er varla hægt að telja það ósigur. Í grunni séð hefur aðild málsins verið breytt (eða ekki breytt – eftir hvernig litið er á það) þannig að SMÁÍS er aðili að málinu og litið svo á að aðrar kröfur sem stefndu töldu til frávísunar ættu frekar heima í aðalmeðferð. Því á enn eftir að úrskurða um þau atriði hjá dómstólum og því seint hægt að kalla þennan úrskurð ósigur fyrir Istorrent.

Væntanlegir meðdómendur eru Björn Jónsson, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs Landspítala Háskólasjúkrahúss og Róbert R. Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Komi engar athugasemdir fram sem réttlæta útskiptingu meðdómenda, þá má búast við því að þeir gegni því hlutverki í málinu. Séu einhverjir sem búa yfir slíkum upplýsingum, vinsamlegast hafið beint samband við torrent@torrent.is eða ritið athugasemd við þessa færslu.

Bókað var fyrir rétti að stefndi Svavar skoraði á stefnendur að varpa ljósi á það að hvaða marki séu gerðar athugasemdir við lýsingu stefnda á BitTorrent-staðlinum í greinargerð. Eins og kom fram í fyrri færslu, þá hélt lögmaður stefndu því fram að fyrrgreind lýsing hafi verið röng. Með bókuninni er verið að reyna að koma í veg fyrir mögulegar tafir vegna ágreinings um sannleika lýsingarinnar.

Viðbrögð vegna þessa úrskurðar hafa ekki verið að fullu ákveðin. Á þessari stundu má búast við því að aðalmeðferð hefjist eins og áætlað er. Ekki er vitað af hálfu Istorrents hvenær úrskurðar eftir aðalmeðferð sé að vænta. Hver sem niðurstaðan verður, þá er líklegt að málið fari fyrir Hæstarétt.

Úrskurðurinn verður líklegast opinberaður á vef Héraðsdóms hvort sem er svo það er ekki talið taka því að skanna hann inn. Slóð á hann verður bætt við hér neðst þegar við höfum séð að hann er kominn inn á netið. Ef hann verður ekki kominn fyrir kvöldmat á morgun, þá reddum við því á eigin vegum.

Slóð á úrskurð geymdum á vef Héraðsdóms Reykjaness:
http://domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E200702836&Domur=3&type=2&Serial=1&

Úrskurður um frávísunarkröfu síðar í dag

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 01:22

Var að frétta af þessu fyrir fáeinum mínútum. Úrskurðurinn mun vera opinberaður á eftir kl. 15:30 í Héraðsdómi Reykjaness. Búast má við annarri færslu á bloggið síðar í dag með úrskurðinum sjálfum.

Powered by WordPress