Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

7 February 2009

Söfnun

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 04:32

Málið er komið á þann farveg að hafa upplifað dóm sem var ekki í hag Istorrents og er ekki hægt að neita því að hann var slæmur. Sumir eru samt að tilkynna að málinu sé lokið og allir ættu að snúa sér að öðru. Peningarnir eru samt af skornum skammti og er hætta á því að ekki verði farið lengra með það vegna fjárskorts. Því tel ég mikilvægt að þeir sem vilja fara með málið fyrir Hæstarétt styrki baráttuna um eins mikið og þeir geta látið frá sér.

Ég get hálfpartinn lofað því að málið mun ekki stoppa eftir að Istorrent hefur verið rutt úr vegi og það mun varla þýða að „fara bara eitthvað annað“. Þetta mál snertir ekki eingöngu Istorrent heldur einnig rekstur vefþjónusta almennt. Sé dómurinn látinn standa óáreittur mun það líklegast kosta ýmsa aðila háar fjárhæðir að verjast dómkröfum rétthafasamtakanna sem munu ella vísa í þennan dóm sem fordæmi. Á þetta við hvort sem sú starfsemi sé talin lögmæt eða ekki.

Ég tel að það séu góðir möguleikar á að málið geti endað með sigri Istorrents í Hæstarétti ef það fær tækifæri til þess. En vegna fyrrnefnds fjárskorts er líklegt að það komist ekki þangað nema það safnist nóg í sjóðinn. Neita því ekki að það mun kosta mikið en ég get ekki gefið lögmönnum Istorrents grænt ljós á áfrýjun fyrr en takmarkinu er náð. Það er einnig möguleiki á að málið tapist fyrir Hæstarétti en einn tilgangur söfnunarinnar er að gera stöðuna ekki verri fyrir Istorrent ef slíkt gerðist.

Til að forðast umræður eins og „Allir notendur gefa bara X kr. og þá er hægt að ná því“ mun ég ekki tjá mig um það opinberlega hvert takmarkið er. Gerð er fullkomin grein fyrir því að efnahagurinn er ekki í góðu formi þessa stundina en við vonum að það komi ekki í veg fyrir að væntanlegir velunnarar geti styrkt. Jafnvel millifærslur upp á nokkrar krónur gætu skipt máli. Þær eru þess virði þegar á endann er komið.

Frestur til að áfrýja frá því að úrskurður hefur verið kveðinn upp er 3 mánuðir. Til að lögmenn Istorrents fái nægan tíma til að undirbúa málið þarf takmarkinu er vera náð í upphafi aprílmánaðar. Að öðrum kosti mun ég neyðast til að stöðva rekstur þess. Ef það gerist fer sú upphæð sem komin er í að bæta upp fyrir þann lögfræðikostnað sem þegar hefur farið í rekstur málsins.

Til að styrkja:
Bankareikningur 0327-13-003120
Kennitala 071183-2119
IBAN númer: IS79 0327 1300 3120 0711 8321 19

Öllum er velkomið að styrkja (og það er ekki ólöglegt að gera það). Við tökum jafnvel við ölmusum frá rétthafasamtökum.

4 February 2009

Úrskurður héraðsdóms

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:49

Héraðsdómur hefur kveðið upp úrskurð í málinu. Dómsorðin eru svohljóðandi:

„Lögbann, sem stefnandi, Samtök tónskálda og eigenda flutningsréttar, fékk 19. nóvember 2007 lagt við því að stefndu, Istorrent ehf. og Svavar Lúthersson, starfræki vefsíðuna www.torrent.is sem gerir notendum hennar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundarréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að, er staðfest.

Viðurkennd er bótaskylda stefndu gagnvart stefnanda.

Stefndu eru sýknaðir af framangreindri bannkröfu stefnanda.

Kröfum stefndu um skaðabætur úr hendi stefnanda er hafnað.

Stefndu greiði óskipt stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.“

Í meginatriðum þýðir þetta að lögbannið var staðfest af hálfu héraðsdóms. Áætlað er að fara með málið til Hæstaréttar. Ég hef ekki litið yfir rökstuðninginn svo ég get ekki komið með yfirlýsingar um úrskurðinn í heild á þessari stundu fyrir utan að ég er ánægður með sýknuna vegna bannkröfunnar.

Dómurinn er aðgengilegur á vef héraðsdóms, domstolar.is, nánar tiltekið á http://domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E200801398&Domur=3&type=1&Serial=2

3 February 2009

Úrskurður á morgun

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 10:28

Kveðinn verður upp úrskurður í Istorrent málinu fyrir Héraðsdómi Reykjaness á morgun, miðvikudaginn 4. febrúar, kl. 8:55 í sal 3. Um er að ræða opið þinghald svo almenningi er velkomið að mæta. Þetta mun þó bara taka um 5 mínútur. Niðurstaða þess fyrir héraðsdómi verður tilkynnt hér á Istorrent blogginu.

Á morgun munu 4 vikur, upp á dag, vera liðnar frá því málið var flutt munnlega. Þessi töf gefur til kynna að hver sem niðurstaðan verður, þá var hún ekki augljós fyrir dómendum í málinu í upphafi þess.

Powered by WordPress