Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

25 May 2008

Stefnan komin í okkar hendur

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 08:58

Eftir að hafa skoðað stefnuna í hinu nýja staðfestingarmáli er greinilegt að einhverjar breytingar hafa orðið á málinu frá því seinast. Þrátt fyrir að þessi færsla er rituð um viku eftir að lögbannið var framlengt, þá barst stefnan stuttu eftir það. Það hefur hins vegar verið meira að gerast undanfarið svo að enginn komst í að skrifa færsluna fyrr en núna.

Fyrst þarf að leiðrétta einn misskilning sem hefur verið á vappi. Lögbannið hefur verið framlengt þar til búið er að afgreiða þessa stefnu fyrir rétti með tilheyrandi afgreiðslu fyrir héraðsdómi og líklegast Hæstarétti. Það mun engin úrskurður vera kveðinn upp 28. maí og lögbannið mun ekkert enda sjálfkrafa þann dag. Því hefur ekki verið haldið fram af þeim sem tengjast málinu með beinum hætti svo það hefur ekki komið héðan. Fólk er beðið um að kynna ekki ágiskanir sínar sem staðreyndir þegar það ræðir um lögbannið.

Eins og áður var nefnt urðu einhverjar breytingar á stefnunni:

Önnur aðild
Í þessu máli er eingöngu um að ræða STEF sem stefnanda. SMÁÍS, Félag hljómplötuframleiðenda og Framleiðendafélagið – SÍK eru ekki aðilar í þessari umferð. Breytingin var líklegast vegna þess að í þessum hópi hefur eingöngu STEF viðurkenningu menntamálaráðuneytisins til að fara í mál fyrir hönd meðlima sinna. Þessi breyting er þó vandkvæðum bundin þar sem öll fjögur rétthafasamtökin eru skyldug til að fara saman í staðfestingarmálið. Málinu verður því líklegast vísað frá af þeirri ástæðu nema rétthafasamtökin lifi í voninni að heppnin geti bjargað þeim úr þeirri klemmu eða að ég gefist upp vegna málskostnaðar áður en því líkur.

Breyttar dómkröfur
Þar sem Hæstiréttur gat ekki séð að STEF hafi haft heimild til þess að fara með einstaklingskröfur sem voru í málinu var því sleppt í þetta skiptið að fara fram á dæmdar skaðabætur. Varakrafan um viðurkenningu á bótaskyldu stendur þó áfram frá fyrra málinu. Einnig var sett varakrafa sem hljóðar þannig að ef ekki er samþykkt að dæma að starfræksla torrent.is væri alfarið bönnuð að íhuguð yrði krafa um að óheimilt yrði að gera notendum kleift að deila innbyrðis efni í óþökk rétthafa.

‘Skaði’ STEF er tjáður vera umfangsmeiri
Nú á skaði STEF einnig að felast í dreifingu myndefnis eins og kvikmynda og sjónvarpsþátta vegna þess að tónlistin sem á að vera í þessum eintökum sé ekki dreift með leyfi rétthafa. Sé það samþykkt af dómurum gæti þetta skapað afar slæmt dómsfordæmi. Mætti bera fáránleikann þess við að kæra sjónvarpsstöð fyrir ólöglega útsendingu á tónlist ef kvikmyndaframleiðandinn hafði ekki fengið leyfi fyrir því að hafa tónlistina í kvikmyndinni. Þriðji aðili á sem sagt að bera bótaskyldu vegna einhvers sem að annar þriðji aðili gerði eða gerði ekki. Þessi krafa er fáránleg og var líklegast sullað inn á seinustu stundu til að réttlæta aðild STEF að lögbanninu hvað varðar meintar kvikmyndir og sjónvarpsþætti svo að það sýnist ekki vera eins auðtapað og það er.

Útskýra hvað “sambærilega vefsíðu” á við
Stefnan í fyrra málinu minnist ekki orði hvað þetta hugtak á við. Í þetta skiptið er það gert og er vísað til þess að þeir stefndu geti ekki komið upp eins síðu á öðru léni og viðhaldið þessu ‘ólögmæta ástandi’ áfram. Þetta var eingöngu útskýrt munnlega fyrir héraðsdómi og þar sem spurningar komu upp um réttlæti þessa orðalags var bætt úr því núna með því að skilgreina hvað það á við í stefnunni sjálfri. Einnig kemur fram að þeir stefndu komi þegar nálægt rekstri sambærilegra síða en þetta er ekki eitthvað sem var útskýrt nánar. Þessi skilgreining þarf satt að segja andlitslyftingu þar sem hún er of víðtæk svo hægt sé að fara að dæma einn eða annan til að fara eftir henni.

Smá útskýring á lögum 30/2002
Þessi lög heita fullu nafni “Lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu”. Með því að koma með stutta greiningu (um 1/4 af bls.) er verið að koma í veg fyrir að hægt sé að nefna að engin umræða hafi farið þeirra megin um þessi lög. Skortur á umræðu um þessi lög urðu til þess að fyrra málinu var vísað frá héraðsdómi. Auðvitað er það ætlun okkar að ræða nánar um þessi lög og hvernig þau eiga við um starfsemi Istorrents.

Nánari upplýsingar um svör okkar og um stefnuna munu líklegast koma fram eftir að greinargerð hefur verið lögð inn fyrir héraðsdómi.

16 May 2008

Lögbann framlengt

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 07:30

Istorrent ehf. hefur gefið út fréttatilkynningi í tilefni nýrra upplýsinga um að lögbannið hafi verið framlengt. Svo virðist vera að stefnendur málsins hafi ákveðið að fara út í nýtt mál til staðfestingar lögbannsins sem lagt var á Istorrent ehf. og Svavar Lúthersson þann 19. nóvember síðastliðinn. Fresta þarf því opnun vefsins í samræmi við það.

Ekki er talið óhætt að áætla á þessu stigi hversu lengi þessi framlenging mun standa en þó er hægt að nefna að skaðabæturnar sem rétthafasamtökin fjögur hafa bakað sér hækka með hverjum deginum sem þetta lögbann stendur yfir.

Stefnan er ekki komin í hús svo ekki er hægt að sjá hvaða breytingar hafa orðið frá því seinast. Þingfesting fer fram 28. maí næstkomandi skv. upplýsingum frá Héraðsdómi Reykjaness.

Istorrent – fréttatilkynning 16. maí 2008.

9 May 2008

Úrskurður Hæstaréttar kveðinn upp

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 03:31

Hæstiréttur kvað upp úrskurð 8. maí í Istorrent-málinu svokallaða (hrd. 194/2008) um að málinu skuli vísað frá. Af því leiðir að Istorrent hefur unnið málið og rétthafasamtökin fjögur skulu því greiða samtals 900 þúsund í málskostnað fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Málið hefur kostað Istorrent yfir 3,5 milljónir fyrir héraðsdómi en ekki liggja fyrir kostnaðartölur vegna rekstur þess fyrir Hæstarétt. Samkvæmt lögbannslögum fellur lögbannið sjálfkrafa úr gildi um miðnætti aðfaranætur föstudagsins 16. maí. Áætlað er að reisa aftur skráardeilihlutann síðar sama dag ef ekkert stendur því að vegi.

Fyrri grein dagsins var send inn í nótt en fréttir um úrskurðinn bárust nú í morgun og er það afar skemmtileg tilviljun að svo hafi hitt á. Fréttatilkynning verður send út síðar til fréttamiðla og einnig birt hér. Þeir fréttamiðlar sem vilja tryggja sér eintak þurfa að hafa samband við media@torrent.is eða bíða eftir birtingu hér.

Niðurstöðu að vænta fljótlega?

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 03:35

Dagarnir líða og ekkert heyrist frá Hæstarétti varðandi Istorrent-málið. Mun Hæstiréttur staðfesta frávísun héraðsdóms eða mun hann leggja fyrir að héraðsdómur haldi áfram með það? Mestu líkurnar eru á því fyrrnefnda en það er sjaldan hægt að vera of gætinn þegar kemur að svona málum. Sambærilegt mál var kannað og athugað hvað það tók langan tíma fyrir Hæstarétt að dæma í því en það gaf til kynna að niðurstöðu Hæstaréttar er að vænta í þessari viku eða næstu en þó er ekki hægt að treysta á slíka grófa útreikninga. Lítill fyrirvari verður á niðurstöðunni svo það er mjög erfitt að koma með nákvæmar tímasetningar fyrr en sama dag og þær liggja fyrir.

Þann 11. apríl síðastliðinn var kveðinn upp dómur í Hæstarétti sem, einhverra hluta vegna, fékk ekki umfjöllun fréttamiðla þrátt fyrir að dómurinn gæfi mikilvægt fordæmi vegna Istorrent-málsins. Þetta var nefnilega dómur Hæstaréttar í Eico-málinu svokallaða. Dómurinn staðfestir það sem við höfum haldið fram frá upphafi málsins en það er að rétthafasamtökin hafi ekki lagaheimild til þess að sækja lögbannsmál eins og Istorrent-málið. Munurinn á þessu máli og ‘Sky Digital’-málinu er sá að það síðarnefnda var ekki byggt á svokölluðu málsóknarumboði. Sé texti dómsins túlkaður er hægt að sjá að SMÁÍS hefur ekki lagaheimild fyrir svo sértækri hagsmunagæslu (sbr. Istorrent-málið) og því óheimilt að sækja málið. Það er sanngjörn og eðlileg krafa að allir aðilar í lögbannsmáli hafi lagaheimild til að sækja það og gengi það ekki upp að sumir aðilar þess hafa hana en aðrir ekki.

Í niðurstöðu Hæstaréttar má finna eftirfarandi textabrot:
“Ekki liggur fyrir að sóknaraðili fullnægi framangreindum skilyrðum höfundalaga eða hafi fengið formlega viðurkenningu menntamálaráðherra til gæslu höfundaréttarhagsmuna. Verður heimild hans til að höfða mál þetta á grundvelli málsóknarumboðs frá 365 miðlum ehf. því hvorki reist á ákvæðum settra laga né dómvenju.”

Að auki má finna þetta sem er í raun tilvísun í hæstaréttardóm 575/2007:
“Heimild sóknaraðila til að hafa uppi kröfur um staðfestingu lögbanns eða skaðabætur verður ekki reist á 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 13. nóvember 2007 í máli nr. 575/2007. Þá verður heimild þeirrar málsgreinar til að hafa uppi viðurkenningarkröfu ekki beitt til að ná fram afmörkuðum hagsmunum eins félagsmanns. Þar sem sóknaraðili getur samkvæmt framansögðu ekki átt aðild að máli þessu fyrir hönd 365 miðla ehf. verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

En hver er tilgangur þessarar margnefndu lagagreinar (3. mgr. 25. gr. 91/1991)? Það sem líklegast vakti fyrir lagahöfundum var að félög og samtök gætu notfært þessa lagagrein til að stefnt viðeigandi aðila ef málið varðaði réttindi eða skyldur meðlima þeirra almennt eða s.s. prófmál. Það var aldrei tilgangur lagagreinarinnar að félög og samtök myndu hefja mál fyrir hönd sérvaldra meðlima þess þar sem það er andstætt tilgangi hennar. Í ‘Sky Digital’-málinu byggðist mál SMÁÍS á þessari lagagrein en málsóknarumboð 365 miðla hf. hafi verið bætt við Eico-málið þann 3. desember síðastliðinn eftir að SMÁÍS tapaði Sky Digital málinu mánuðinn áður.

Var þetta samt ekki eitthvað sem SMÁÍS hefði mátt vita fyrr? Svarið er játandi þar sem fyrrnefnd lagagrein er afar skýr og þar að auki lágu fyrir dómsfordæmi um rétt félaga og samtaka til að hefja mál fyrir hönd meðlima sinna. Þá rís auðvitað hin stóra spurning: “Af hverju stefndu 365 miðlar hf. ekki sjálfir forsvarsmönnum Sky Digital og Eico í stað þess að hefja þetta mál í nafni SMÁÍS?”. Það fyrsta sem kemur upp er ‘ímynd’ en tvöföld ástæða liggur að baki því. Sú fyrri er ímynd SMÁÍS og sú seinni ímynd 365 þar sem SMÁÍS fær illa orðsporið fyrir að vera ‘leiðinlegi aðilinn’ á meðan fæstir munu tengja 365 við þau leiðu málaferli. Þegar hugsað er lengra kemur auðvitað upp sá möguleiki að málareksturinn er ódýrari. Með því að gera tilraun til að fá lögbann í nafni SMÁÍS er það talsvert ódýrara fyrir 365 að fá sitt fram en að gera það á eigin vegum. Það sama er upp á teningnum í Istorrent-málinu þegar þetta liggur fyrir. 365 hafa aldrei verið nefndir á nafn í fréttum tengdum Istorrent-málinu – svo best ég man- og með því að hafa 4 rétthafasamtök á bakvið stefnuna dreifist áhættan ef/þegar málið tapast. Ef ég væri í þeirra sporum væri sá möguleiki mjög freistandi.

Hver borgar brúsann á endanum? Það eru auðvitað höfundarnir og hinn almenni neytandi. Það er ósannað að óleyfilegt niðurhal valdi því að rétthafar verði af tekjum vegna þess en þó má finna óháðar rannsóknir sem benda á hið gagnstæða. Engar rannsóknir voru lagðar fram af hálfu rétthafasamtakanna sem reyndu að sýna fram á slíkt og það eina sem lá fyrir var reikningsaðferð sem hagfræðingar myndu skammast sín fyrir og óstaðfestanlegar yfirlýsingar um að óleyfilegt niðurhal sé skaðlegt. Hvernig er hægt að taka mark á slíku? Málið er ekki eins augljóst og rétthafasamtökin vilja halda fram. Þó er það augljóst að málaferlin valda því að rétthafasamtökin fjögur verða fyrir miklum fjárútlátum sem síðan dreifast á meðlimi þeirra. Höfundar munu því fá lægri greiðslur en þeir hefðu fengið annars og þeir meðlimir sem selja eintök af hugverkum munu flytja þeirra hluta kostnaðarins yfir á hinn almenna neytanda. Ég vona að rétthafasamtökin læri af þessari vitleysu og einbeiti sér að því að leysa alvöru vandamálin í stað þess að benda annað.

Powered by WordPress