Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

9 May 2008

Niðurstöðu að vænta fljótlega?

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 03:35

Dagarnir líða og ekkert heyrist frá Hæstarétti varðandi Istorrent-málið. Mun Hæstiréttur staðfesta frávísun héraðsdóms eða mun hann leggja fyrir að héraðsdómur haldi áfram með það? Mestu líkurnar eru á því fyrrnefnda en það er sjaldan hægt að vera of gætinn þegar kemur að svona málum. Sambærilegt mál var kannað og athugað hvað það tók langan tíma fyrir Hæstarétt að dæma í því en það gaf til kynna að niðurstöðu Hæstaréttar er að vænta í þessari viku eða næstu en þó er ekki hægt að treysta á slíka grófa útreikninga. Lítill fyrirvari verður á niðurstöðunni svo það er mjög erfitt að koma með nákvæmar tímasetningar fyrr en sama dag og þær liggja fyrir.

Þann 11. apríl síðastliðinn var kveðinn upp dómur í Hæstarétti sem, einhverra hluta vegna, fékk ekki umfjöllun fréttamiðla þrátt fyrir að dómurinn gæfi mikilvægt fordæmi vegna Istorrent-málsins. Þetta var nefnilega dómur Hæstaréttar í Eico-málinu svokallaða. Dómurinn staðfestir það sem við höfum haldið fram frá upphafi málsins en það er að rétthafasamtökin hafi ekki lagaheimild til þess að sækja lögbannsmál eins og Istorrent-málið. Munurinn á þessu máli og ‘Sky Digital’-málinu er sá að það síðarnefnda var ekki byggt á svokölluðu málsóknarumboði. Sé texti dómsins túlkaður er hægt að sjá að SMÁÍS hefur ekki lagaheimild fyrir svo sértækri hagsmunagæslu (sbr. Istorrent-málið) og því óheimilt að sækja málið. Það er sanngjörn og eðlileg krafa að allir aðilar í lögbannsmáli hafi lagaheimild til að sækja það og gengi það ekki upp að sumir aðilar þess hafa hana en aðrir ekki.

Í niðurstöðu Hæstaréttar má finna eftirfarandi textabrot:
“Ekki liggur fyrir að sóknaraðili fullnægi framangreindum skilyrðum höfundalaga eða hafi fengið formlega viðurkenningu menntamálaráðherra til gæslu höfundaréttarhagsmuna. Verður heimild hans til að höfða mál þetta á grundvelli málsóknarumboðs frá 365 miðlum ehf. því hvorki reist á ákvæðum settra laga né dómvenju.”

Að auki má finna þetta sem er í raun tilvísun í hæstaréttardóm 575/2007:
“Heimild sóknaraðila til að hafa uppi kröfur um staðfestingu lögbanns eða skaðabætur verður ekki reist á 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 13. nóvember 2007 í máli nr. 575/2007. Þá verður heimild þeirrar málsgreinar til að hafa uppi viðurkenningarkröfu ekki beitt til að ná fram afmörkuðum hagsmunum eins félagsmanns. Þar sem sóknaraðili getur samkvæmt framansögðu ekki átt aðild að máli þessu fyrir hönd 365 miðla ehf. verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

En hver er tilgangur þessarar margnefndu lagagreinar (3. mgr. 25. gr. 91/1991)? Það sem líklegast vakti fyrir lagahöfundum var að félög og samtök gætu notfært þessa lagagrein til að stefnt viðeigandi aðila ef málið varðaði réttindi eða skyldur meðlima þeirra almennt eða s.s. prófmál. Það var aldrei tilgangur lagagreinarinnar að félög og samtök myndu hefja mál fyrir hönd sérvaldra meðlima þess þar sem það er andstætt tilgangi hennar. Í ‘Sky Digital’-málinu byggðist mál SMÁÍS á þessari lagagrein en málsóknarumboð 365 miðla hf. hafi verið bætt við Eico-málið þann 3. desember síðastliðinn eftir að SMÁÍS tapaði Sky Digital málinu mánuðinn áður.

Var þetta samt ekki eitthvað sem SMÁÍS hefði mátt vita fyrr? Svarið er játandi þar sem fyrrnefnd lagagrein er afar skýr og þar að auki lágu fyrir dómsfordæmi um rétt félaga og samtaka til að hefja mál fyrir hönd meðlima sinna. Þá rís auðvitað hin stóra spurning: “Af hverju stefndu 365 miðlar hf. ekki sjálfir forsvarsmönnum Sky Digital og Eico í stað þess að hefja þetta mál í nafni SMÁÍS?”. Það fyrsta sem kemur upp er ‘ímynd’ en tvöföld ástæða liggur að baki því. Sú fyrri er ímynd SMÁÍS og sú seinni ímynd 365 þar sem SMÁÍS fær illa orðsporið fyrir að vera ‘leiðinlegi aðilinn’ á meðan fæstir munu tengja 365 við þau leiðu málaferli. Þegar hugsað er lengra kemur auðvitað upp sá möguleiki að málareksturinn er ódýrari. Með því að gera tilraun til að fá lögbann í nafni SMÁÍS er það talsvert ódýrara fyrir 365 að fá sitt fram en að gera það á eigin vegum. Það sama er upp á teningnum í Istorrent-málinu þegar þetta liggur fyrir. 365 hafa aldrei verið nefndir á nafn í fréttum tengdum Istorrent-málinu – svo best ég man- og með því að hafa 4 rétthafasamtök á bakvið stefnuna dreifist áhættan ef/þegar málið tapast. Ef ég væri í þeirra sporum væri sá möguleiki mjög freistandi.

Hver borgar brúsann á endanum? Það eru auðvitað höfundarnir og hinn almenni neytandi. Það er ósannað að óleyfilegt niðurhal valdi því að rétthafar verði af tekjum vegna þess en þó má finna óháðar rannsóknir sem benda á hið gagnstæða. Engar rannsóknir voru lagðar fram af hálfu rétthafasamtakanna sem reyndu að sýna fram á slíkt og það eina sem lá fyrir var reikningsaðferð sem hagfræðingar myndu skammast sín fyrir og óstaðfestanlegar yfirlýsingar um að óleyfilegt niðurhal sé skaðlegt. Hvernig er hægt að taka mark á slíku? Málið er ekki eins augljóst og rétthafasamtökin vilja halda fram. Þó er það augljóst að málaferlin valda því að rétthafasamtökin fjögur verða fyrir miklum fjárútlátum sem síðan dreifast á meðlimi þeirra. Höfundar munu því fá lægri greiðslur en þeir hefðu fengið annars og þeir meðlimir sem selja eintök af hugverkum munu flytja þeirra hluta kostnaðarins yfir á hinn almenna neytanda. Ég vona að rétthafasamtökin læri af þessari vitleysu og einbeiti sér að því að leysa alvöru vandamálin í stað þess að benda annað.

No Comments »

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

You must be logged in to post a comment.

Powered by WordPress