Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

27 March 2008

Úrskurður í Istorrent-málinu

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 05:25

Rétt áðan kl. 15:50 var lesinn upp úrskurður í Istorrent-málinu fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Í stað þess að kveða beint upp um sekt eða sýknu var ákveðið að vísa málinu frá. Kom hann mér mjög á óvart og sömuleiðis stefnendum í málinu. Voru stefnendur nokkuð vonsviknir yfir þessari ákvörðun réttarins og er talið líklegt að þeir munu áfrýja frávísuninni til Hæstaréttar. Það sást á Snæbirni Steingrímssyni að hann var mjög áhyggjufullur vegna þessa dóms. Úrskurðinn má lesa í heild sinni á vef Héraðsdóms Reykjaness.

Sumir munu að öllum líkindum forvitnast hvenær vefurinn opnar aftur en það er óvíst þar sem endanlegur úrskurður hefur ekki fallið í málinu að þessu sinni. Lögbannið er því enn í gildi. Það verður fjallað um mögulega lengd þess í seinni færslu.

Ástæður fyrir frávísun voru byggðar á lögum 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Í úrskurðinum stendur meðal annars:
“Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 30/2002 er þó tekið fram að þjónusta sem ekki er veitt gegn endur­­gjaldi frá þjónustuþega geti fallið undir hugtakið, enda feli hún í sér atvinnu­starfsemi. Þannig geti þjónusta, sem feli í sér upplýsingagjöf sem fjármögnuð er með auglýsingum, fallið undir hugtakið. Einnig geti þjónusta sem felst í leit að gögnum eða aðgengi að þeim talist til rafrænnar þjónustu, jafnvel þótt sá sem biður um leitina eða aðgengið greiði ekki fyrir þjónustuna.”
Er ekki hægt að sjá betur en að auglýsingasala og vefverslun Istorrents falli undir þetta.

Stuttu síðar er einnig nefnt:
“Með þjónustuþega er samkvæmt 2. gr. laganna átt við einstakling eða lögpersónu sem í atvinnuskyni eða í öðrum tilgangi nýtir sér rafræna þjónustu, en þjónustuveitandi er einstaklingur eða lögpersóna sem lætur í té rafræna þjónustu.”

Í úrskurðinum er kveðið á um að málið sé talið vanreifað þar sem hvorki stefnendur né stefndu hafi fjallað nánar um þýðingu laganna í þessu máli og er því ekki hlutverk dómstóla að leggja sjálfstætt mat á þýðingu laganna í málinu. Málinu var því vísað af sjálfsdáðum frá dómi. Stefnendur þurfa því að greiða óskipt Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni, 500.000 krónur í málskostnað. Ekki var lagt efnislegt mat að þessu sinni hvort þeim beri að greiða annan skaða sem varð vegna lögbannsins en það verður að öllum líkindum gert síðar.

Úrskurður á eftir

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:45

Upplýsingar beint frá kúnni. Úrskurður í málinu verður opinberaður á eftir kl. 15:50 í Héraðsdómi Reykjaness. Hann verður síðan birtur hér (og annars staðar) samdægurs.

24 March 2008

Úrskurður enn ekki kominn og um málefnið

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 01:39

Sumir hafa verið að spyrja mig um gengi málsins og fannst mér rétt að benda á að dómendur fyrir Héraðsdómi Reykjaness eru enn að úrskurða í málinu. Persónulega efast ég um að hann verði opinberaður fyrr en um næstu mánaðarmót. Úrskurðinn ætti að vera tilbúinn í síðasta lagi 8. apríl (2008).

Við réttarhöldin tók ég eftir því að stefnendur málsins vissu mjög lítið um virkni vefsins. Það er allavega sú tilfinning sem ég fékk þegar málið var tekið fyrir þann 11. mars. Til dæmis spurði Hróbjartur, lögmaður stefnenda, um flokkun deiliskráa og var það eins og hann héldi að stjórnendur sæju sjálfir um að flokka þær en hið rétta er að notendur gerðu það sjálfir og virtist svarið koma honum á óvart. Síðan komu þó spurningur um hverjir settu upp flokkunarviðmiðin en stjórnendur gerðu það í sameiningu. Margar spurninganna fylgdu þessari braut og var það eins og hann væri að frétta hlutina í fyrsta skiptið frá mér. Sömu sögu má segja um lýsingarnar sjálfar en ég verð því miður að nefna að hann misskildi alveg svarið mitt en það er alveg skiljanlegt miðað við að hann hefur ekki mikla tækniþekkingu að baki sér. Það varð til þess að hann hélt að vera lýsinganna inni á torrent.is voru háðar vilja og kröfum stjórnenda. Hann spurði hvað gerðist þegar stjórnandi samþykkti ekki lýsingu á deiliskrá og ég svaraði “ekkert” og því miður hélt hann að afleiðingin væri sú að lýsingin yrði ekki vistuð á torrent.is. Því miður gafst mér ekki færi á að leiðrétta þennan misskilning þar sem hann nefndi þetta fyrst í málflutningnum sínum og ég var þá búinn í skýrslutöku. Svo virtist vera að hann hafi haldið að hlutverk stjórnenda á torrent.is hefði verið meira en það var í raun.

Ástæður fyrir því að hafna kröfum þeim sem komu í bréfi nokkurra rétthafasamtaka sem dagsett var 11. október 2006 eru margþættar. Í fyrsta lagi var eina krafan sú að loka vefsvæðinu torrent.is en mér fannst hún of víðtæk og óréttlát miðað við það sem stóð í bréfinu. Þar komu einungis fram yfirlýsingar án þess að tilraun sé gerð til að sýna fram á réttmæti þeirra. Á þeim tíma höfðu engar tilkynningar borist frá rétthöfum um að fjarlægja efni og því enginn staðfestur grundvöllur til að halda því fram að notendur hefðu verið að brjóta á höfundarrétti í stórum stíl. Ef álíka bréf hefði borist netþjónustu eins og Símanum myndi það falla fyrir daufum eyrum. Um það bil 10 tilkynningar hafa borist um að fjarlægja efni frá stofnun hans og er það nokkuð lítið hlutfall þeirra deiliskrá sem hafa verið sendar inn. Í bréfinu er hvorki boðið upp á nein sáttaúrræði né hvatt móttakanda til að hafa samband við sig til að ræða nánar um málið. Ákvað samt sem áður að hafa samband við Guðbjarna Eggertsson hjá Lögmönnum Laugardal rétt eftir móttöku bréfsins – umslagið er frá þeim og hann ritaði undir bréfið – en ritarinn sagði að hann væri ekki við og ég skildi eftir skilaboð en hann hafði ekki samband aftur.

Ákvað að framkvæma smá útreikninga á hlut verslana á hverjum tónlistardisk þar sem Gunnar Guðmundsson var svo indæll að nefna að heildsöluverðið væri um 1000 krónur. Samkvæmt skifan.is kostar diskurinn Tímarnir okkar með Sprengjuhöllinni 1999 kr. og til einföldunar gerum við ráð fyrir að heildsöluverðið í þetta skiptið sé 1000 kr. og það sé innifalinn virðisaukaskattur heildsala. Skífan þarf eingöngu að borga virðisaukaskattinn af álagningunni en fær vsk. af innkaupaverðinu endurgreiddan. Álagningin er 999 krónur og þegar 24,5 % vsk. er dreginn frá (um 19,68% bakreiknað) er hlutur Skífunnar 802 krónur fyrir hverja sölu. Hins vegar liggja ekki fyrir upplýsingar um kostnað Skífunnar að baki hverri sölu og hversu mikið af þessum 802 kr. þeir geta haldið sem hagnaði. Ég fer ekki oft í Skífuna en þegar það gerist hef ég oftast séð smá biðröð við afgreiðslukassann. Með þessu er ég ekki að gefa í skyn að það sé í lagi að dreifa höfundarréttarvörðum eintökum án leyfis rétthafa heldur er boðskapurinn sá að verknaðurinn er ekki að bera þau merki um að Skífan sé í taprekstri vegna hans.

Með þetta í huga ber einnig að ræða um myndbandaleigurnar og taprekstur þeirra. Ég man eftir þeim tíma sem ég fór reglulega í hverfissjoppuna sem leigði einnig út myndbönd og ræddi stundum við eiganda staðarins. Hann sagði mér að hann þyrfti að greiða yfir 5000 krónur fyrir hverja VHS spólu til útleigu. Hann þyrfti því að leigja hverja spólu út í fleiri tugi skipta til að ná hagnaði en það gerðist sjaldan. Þetta var fyrir um 6 árum síðan og áður en ‘DC-skráarskipti’ urðu vinsæl á Íslandi. Einnig er einn vinur minn sonur fyrrverandi eiganda myndbandaleigu úti á landi en samkvæmt honum vissi faðir hans að myndbandaleigur væru á leiðinni út og hafði vitað það í fleiri ár. Ég tek undir þau orð og er það greinilegt miðað við markaðsaðstæður síðastliðin ár. Útleiga á mynd kostar mikla peninga í dag og hefur jafnvel hækkað eftir því sem það hefur liðið á árin. Í sumum tilfellum kostar það nokkurn veginn jafnmikið að kaupa myndina en að leigja hana í 2-3 skipti sem hefur einnig þann kost að maður þarf ekki að skila henni næsta dag eða standa í sektum ef það gleymist að skila myndinni. Þetta á sérstaklega við um barnamyndir. Ótalið er að fólk er að finna aðrar tegundir af afþreyingu og eru tölvuleikirnir World of Warcraft og Eve Online dæmi um þær. Það er því mjög hentugt að kenna torrent.is um tapreksturinn í stað þess að viðurkenna að viðskiptamódelið var að deyja út hvort sem er.

Í skýrslutöku Snæbjarnar Steingrímssonar, framkvæmdastjóra SMÁÍS, kom einnig fram að enginn rekstrargrundvöllur væri fyrir bíó úti á landi og því treystu eigendur kvikmyndasamsteypanna sér ekki til þess að koma á fót nýjum kvikmyndahúsum úti á landi og þeir hafi því neyðst til að leggja sum þeirra niður. Sagði hann einnig að það væru einungis þrjú kvikmyndahús (á Íslandi) rekin utan höfuðborgarsvæðisins en þau eru í Keflavík, á Akureyri og síðan á Selfossi. En er réttilegt að kenna torrent.is um það? Það ætti að vera þekkt staðreynd að rekstur kvikmyndahúsa er ekki hagkvæmur í litlum bæjarfélögum og gæti verið þar í besta falli lítill salur sem væri samnýttur annarri starfsemi. Gróflega séð gildir það að eftir því sem bæjarfélagið hefur færri íbúa, því hærra hlutfall þeirra þarf að koma reglulega í bíóið ef reksturinn á að borga sig. Hvort bíóin úti á landi hafi hætt rekstri útaf torrent.is eða vegna einhvers annars hef ég ekki hugmynd um. Mér finnst þó rangt að kenna torrent.is um slíkt án þess að sanna slíkt orsakasamhengi en þess má geta að það eru fleiri staðir á hinu víðfræga Interneti.

Í anda þess að þessi færsla fjallar um meint tap nokkurra rétthafa á Íslandi, þá vil ég benda á nokkra vefi þar sem má niðurhala verkum:
jamendo.com <– Næstum 8 þúsund tónlistaralbúm.
archive.org/details/movies <– Hreyfimyndir hjá Internet Archive. Rétt yfir 112 þúsund myndskeið.
gutenberg.org <– Project Gutenberg. Meira en 20 þúsund fríar bækur.

Skaða þessir vefir hag tónlistarverslana, myndbandaleiga og bókabúða? Já, mögulega. Bókabúðir verða auðvitað af sölu ef tilvonandi lesandi ákveður frekar að niðurhala bók af Project Gutenberg en að kaupa eina af þeim. Microsoft verður mögulega af sölu ef að tölvunotandi ákveður frekar að setja upp annað stýrikerfi. Ég veit ekki um neinar rannsóknir sem að sýna hversu mikinn skaða slíkt val neytanda hefur á sölu verka út í búð en það er samt sem áður eðlileg samkeppni sem á í hlut – nema viðkomandi rétthafar vilji nota skattpeningana okkar og réttarkerfið til þess að hindra slíka samkeppni.

Mér var sagt að ég ætti ekki að kvarta yfir einhverju nema bjóða fram lausn. Því miður er ekki mikið um lausnir sem rétthafar vilja framkvæma. Ég hef einnig reynt að bjóða upp mögulegar lausnir í ræðu og riti en fáir virðast ansa þeim. Ein öflugasta markaðslega lausnin er auðvitað að bjóða upp á hluti sem að ‘sjóræningjarnir’ geta ekki, annaðhvort vegna kostnaðar eða umstangs, en eru þó ódýrir í fjöldaframleiðslu. Þetta er þó ekki í boði fyrir allar tegundir verka og stundum geta tækniframfarir orsakað að dreifingaraðilar þurfa að vera einu eða fleirum skrefum framar en þeir sem vilja brjóta á rétti þeirra. Kvikmyndahús bjóða til dæmis upp á risaskjá þar sem mynd er varpað í ótrúlega fínum gæðum en þó vill svo til að sumt fólk metur að ókostirnir vegi meira en kostirnir. Eigendur kvikmyndahúsa hafa því um tvo kosti að ræða en sá fyrri er að styrkja þá kosti sem eru þá þegar svo þeir fara fram úr ókostunum en sá seinni er að finna út og útrýma ókostunum eða draga úr þeim. Það sama má heimfæra á tónlistarsölu, áskriftarsölu fyrir sjónvarp, bóksölu og ýmsar aðrar dreifingarleiðir sem að byggjast á höfundarréttarvörðum verkum. Ef dreifingaraðili rekst á það að fólk vill frekar ná í verkin af Internetinu en að kaupa það hjá honum á ekki einungis að kenna þeim sem standa að dreifingunni, heldur skoða hvað sé að misfarast í sinni eigin dreifingaraðferð frekar en að ráðast á þá sem standa fyrir gjörningnum. Í staðinn ætti hann að nálgast persónuna og spyrja hana (á vinsamlegu nótunum) af hverju hún sé að dreifa verkunum og af hverju fólk kjósi að ná í það af netinu en að kaupa hjá sér. Þessa vitneskju gæti hann notað til að bæta núverandi aðferð. Það eru aldagömul mistök að ráðast á nýjar aðferðir til að gera hlutina betur frekar en að læra af þeim. Forðist að endurtaka þau (of oft).

En hverjir eru að fara rétta leið? Það eru auðvitað netleikirnir eða hinir svonefndu MMORPG leikir og sem dæmi má taka Eve Online og World of Warcraft. Tekjur framleiðenda liggja þá ekki í kaupum á leiknum sjálfum, heldur í áskriftinni. Því miður þarf að kaupa World of Warcraft dýrum dómum út í búð áður en hægt er að nota hann á netinu en ástæðan fyrir því er sú að framleiðendurnir gerðu þau ‘mistök’ að semja við rangan aðila. Eve Online er þó betri í þessum efnum þar sem leikurinn sjálfur er í boði án endurgjalds til niðurhals af vefnum þeirra en hann er þó ónothæfur án alvöru áskriftar eða til prufu (trial subscription). Í báðum tilvikunum eru báðir aðilar að bjóða upp á eitthvað sem er ómögulegt án mikils tilkostnaðar fyrir ‘sjóræningjana’. Leikirnir bjóða síðan upp á hluti sem að afar erfitt er að afrita, mannlega þáttinn, þar sem hver manneskja í leiknum upplifir sjálfa sig sem meðlim í stóru samfélagi. Þetta byggist auðvitað á því sem kallast ‘Network effect‘ þar sem gagn leikjanna eykst eftir því sem að fleiri fara í áskrift. Gæði og skemmtanagildi leikjanna skiptir auðvitað höfuðmáli en viðskiptamódelið byggist á því að fólk greiði fyrir áskriftartímabilið frekar en hugverkið sjálft. Á móti er auðvitað þrýstingur á hönnuði leiksins til að þróa og viðhalda leiknum áfram ef þeir vilja fá inn tekjur en það orsakasamband er auðvitað eðlilegt undir slíkum kringumstæðum. Einnig er þetta gott fyrir sköpunina en framleiðandinn fær þá hvata til að hafa starfsfólk í vinnu sem vinnur í að fatta upp á nýjum hlutum fyrir leikinn en hvatning til frekari sköpunar er einmitt einn höfuðtilgangur höfundarréttar.

Hvað getum við svo lært af þessu? Fyrst og fremst borgar sig ekki að reyna að beygja vilja neytandans með valdi. Réttara væri að aðlagast vilja neytandans að sanngjörnu marki. Alvöru markaðsrannsóknir drepa varla rétthafana og gætu hjálpað þeim til langframa litið. Það færi síðan eftir efnahag hvers og eins hversu ítarlegar þær yrðu en í versta falli er hægt að framkvæma litlar kannanir með því að spyrjast fyrir á förnum vegi. Ef eitthvað gengur ekki upp, finnið orsökina og af hverju hún hefur áhrif á velgengni þína. Með þá þekkingu undir höndum, reynið að vega á móti orsökinni eða leysið úr henni á sem hagkvæmastan hátt. Sum af þessum ráðum má jafnvel aðlaga til að nota í hinu daglega lífi með smá útskiptingum á orðum. Þetta er ekki svo erfitt í framkvæmd, það þarf einvörðungu viljann til þess.

13 March 2008

Aðalmeðferðin – ágrip og fleira

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 04:22

Aðalmeðferð Istorrent-málsins fór fram þann 11. mars og stóð hún yfir frá kl. 9:30 til um 16:30 sem var talsvert lengur en áætlað var í fyrri færslu. Þessi dagur var nokkuð langdreginn og sást það á þeim sem voru staddir í salnum. Veit ekki hvort einhverjir hafi sofnað en hefði ekki komið á óvart. Þrátt fyrir það var þetta áhugaverður dagur frá mínu sjónarhóli. Fáeinar breytingar voru gerðar á dagskránni en þær voru að forsvarsmenn rétthafasamtakanna komu fram sem vitni frekar en aðilar í málinu og að Ásgeir Ásgeirsson myndi ekki bera vitni eins og var tilkynnt áður. Það sem kemur hér fram í ágripinu er eftir minnisblöðum og eftir minni svo allt sem kemur hér fram þarf ekki endilega að vera rétt haft eftir atburðum dagsins né endilega í þeirri röð sem kemur fram hér. Leiðréttingar eru vel þegnar.

Í stuttu máli var dagskrá dagsins svona;
Aðilaskýrsla:
    Svavar Lúthersson.
Vitnaskýrslur:
    Eiríkur Tómasson hrl. – framkvæmdastjóri STEF og prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
    Gunnar Guðmundsson hdl. – lögmaður FHF.
    Tómas Þorvaldsson hdl. – lögmaður Framleiðendafélagsins SÍK.
    Snæbjörn Steingrímsson – framkvæmdastjóri SMÁÍS.
    Eiríkur Guðmundsson – fyrrverandi starfsmaður Istorrents ehf.
Hádegishlé frá kl. 12 til 13.
Málflutningsræður:
    Hróbjartur Jónatansson hrl. (HJ) – lögmaður stefnenda. Ræðan er til kl. 14:40.
    Tómas Jónsson hrl. (TJ) – lögmaður stefndu.
    HJ gerir athugasemdir.
    TJ gerir athugasemdir.
Málflutningi lýkur um kl. 16:30. Málið er tekið fyrir dóm og beðið úrskurðar dómenda.

Dómþing hófst kl. 9:30 þegar dómendur komu inn í salinn. Lögmenn gerðu þá stuttlega grein fyrir dómkröfum í málinu.

Svavar Lúthersson boðinn í aðilaskýrslu. TJ (Tómas Jónsson) spurði Svavar fyrst og þá aðallega um áætlað tap hans og Istorrents ehf. vegna lögbannsins, fyrirbyggjandi aðgerðir (skilmálana), tilgang vefsins og um þær aðgerðir sem voru framkvæmdar ef tilkynning barst vegna brota á höfundarrétti. HJ (Hróbjartur Jónatansson) tók síðan við og spurði um innri virkni vefsins og var mikið vísað í fylgiskjölin sem voru í lögbannsgerðinni. Á meðal þeirra hluta sem spurt var um var flokkaskipting deiliskráa, vefverslunin, hýsingarstaður lýsinganna sjálfra og meðfylgjandi mynda, hólfakerfið, biðtíminn, lágmarkskröfur lýsinga, boðslyklana og síðast en ekki síst um hlutverk og réttindi stjórnenda á vefnum. Síðan spurðu dómendur Svavar spurninga og var athugað hvort að markmið vefsins væri að brjóta á höfundarrétti (því var neitað) og að hvaða leiti aðstæður væru öðruvísi en með ‘DC++ staðlinum’ en Svavar taldi sig ekki vera nógu kunnugan um DC staðalinn til að geta komið með samanburð. Ekki er hægt að muna eftir öllu þar sem þessi skýrslutaka tók um 45 mínútur.

Þá hófust skýrslatökur vitna. Passað er að vitni hafi ekki heyrt skýrslutökur annarra vitna eða aðilaskýrsluna sem fór fram á undan. Öllum vitnum er gert að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem skiptir máli.

Eiríkur Tómasson kom inn sem vitni fyrir STEF sem er einn af stefnendum í málinu. Hann er framkvæmdastjóri STEF. Sagði háttsemi stefndu varði við lög þar sem þeir hafi ekki samið við STEF um greiðslur sanngjarns endurgjalds. Nefndi að STEF hefðu verið tilbúnir til umræðu ef til þeirra hefði verið leitað. Þeir stefndu höfðu ekki samband til að semja um sanngjarna greiðslu vegna starfsemi vefsins og heldur ekki vegna aðvörunar sem þeir sendu í október 2006. Engar frekari aðvaranir fóru fram af hálfu STEF. Aðspurður segir hann að engum öðrum úrræðum hafi verið beitt en að senda bréfið. Venjulega sé brotaaðilum boðið upp á að semja um greiðslu í stað málsóknar en slíkt hafi ekki farið fram við forsvarsmenn torrent.is. Aðspurður sagðist hann ekki hafa verið notandi á torrent.is.

Gunnar Guðmundsson var kallaður inn sem vitni. Hann er lögmaður Félags hljómplötuframleiðanda en enginn framkvæmdastjóri er fyrir félagið. Hann skrifaði undir bréfið sem var sent til stefnda Svavars í október 2006. Engar frekari aðvaranir voru sendar af hálfu FHF. Ekki hægt að áætla tjónið vegna starfsemi torrent.is. Skaðabætur, ef dæmdar, fara væntanlega í sérstakan sjóð. Heildsöluverð hvers geisladisks er um 1000 krónur og síðan leggst smásöluverð og virðisaukaskattur ofan á. Játaði að hafa verið notandi á torrent.is en sagðist ekki hafa deilt eða niðurhalað efni.

Hlé gert um kl. 11 í 10 mínútur. Ágætt tækifæri til að standa upp og slaka á.

Tómas Þorvaldsson, lögmaður Framleiðendafélagsins SÍK, kallaður inn sem vitni. Hann er einn af þeim sem skrifuðu undir bréfið sem var sent til stefnda Svavars í október 2006. Engar frekari aðvaranir voru sendar af hálfu Framleiðendafélagsins SÍK en hann sagði skilja svo að Gunnar Guðmundsson hafa sent tölvupósta og að hafa hringt í Svavar eftir sendingu bréfsins (Því er mótmælt að slík samskipti hafi átt sér stað en þau mótmæli voru ekki höfð fyrir rétti). Ekki hægt að áætla tjónið sem hlýst af starfsemi torrent.is. Hafði ekki verið notandi á torrent.is.

Snæbjörn Steingrímsson kom inn sem vitni en hann er framkvæmdastjóri SMÁÍS, einn stefnenda í málinu. Sagði hann að tjónið sem hlaust af starfsemi torrent.is væri ómögulegt að áætla nákvæmlega en næmi fleiri hundruð milljónum. Spurður um tölur SMÁÍS um aukna bíóaðsókn svaraði hann að þær væru ekki merki um skaðleysi starfsemi torrent.is þar sem aukningin sé ekki að fylgja mannsfjölgun í landinu (Hagfræðingar myndu aldrei nota slíkan mælikvarða til að mæla breytingar á vinsældum). Einnig sagðist hann fá oft kvartanir frá eigendum myndabandaleigna og að þeir nefni oft að torrent.is sé sökudólgurinn (Mjög hentugt). Að auki sagði hann að vefurinn væri valdur að því að enginn rekstrargrundvöllur væri fyrir kvikmyndahúsum úti á landi og að eingöngu væru starfandi 3 kvikmyndahús utan höfuðborgarsvæðisins (Hann gleymir því væntanlega að það eru fleiri aðilar en meðlimir SMÁÍS sem reka kvikmyndahús á Íslandi). Það yrði að ræða það á fundi hvað yrði gert með væntanlegar skaðabætur ef þær yrðu dæmdar (Skv. 9 gr. samþykkta SMÁÍS koma tekjur af dómsmálum til lækkunar á félagsgjöldum). Eftir skýrslutökuna tók Snæbjörn sæti við hlið Hróbjartar og var þar til loka dómþingsins (nema í hléum, auðvitað). MPAA hefur mikinn áhuga á úrslitum málsins og fylgist grannt með í gegnum skýrslur sem Snæbjörn sendir þeim. Netumferð datt um 50% við upphaf lögbannsins en nefndi síðan að notendur væru að fara á aðra vefi (Samkvæmt RIX er netumferðin komin í sama farið aftur). Var notandi að torrent.is frá desember 2006 eftir að hafa pressað á félaga sinn um notandaaðgang (Hann sagði að skilmálarnir gerðu rétthafasamtökum ómögulegt að komast inn til að áætla brot en hann komst samt inn). Sagðist hafa verið með notandanafnið ‘kraft150’ og hafa eingöngu notað þann aðgang heima hjá sér. Hann vistaði vefsíðurnar í fartölvuna sína (Hann notar orðið ‘taka skjáskot’) og tengdi hana við prentara á skrifstofu SMÁÍS síðar (8 dögum síðar skv. útprentunum) og prentað út.

Eiríkur Guðmundsson, fyrrverandi starfsmaður Istorrents ehf., bar vitni að ósk lögmanns stefnenda. Var rætt um virkni vefsins og hlutverk stjórnenda. Þó var rætt um nokkur atriði sem Svavar var ekki spurður að og þá m.a. eftirspurnarviðbótina. Einnig var hann spurður út í starfsvið sitt hjá fyrirtækinu og hlutverk hans á vefnum. Greinilegt að Eiríkur var spurður út í marga hluti sem hann hafði ekki mikla þekkingu á en spurning er hvort að HJ hafi ofmetið þekkingu Eiríks á starfseminni.

Þar sem klukkan var orðin um 12 var ákveðið að taka matarhlé til 13:00 en þá myndu málflutningsræður hefjast.

Lögmaður stefnenda (HJ) hóf málflutning eftir lok matarhlésins.
– Fór yfir dómkröfur stefnenda í málinu.
– Vísaði í DC-málið til hliðsjónar á ábyrgð rekstraraðila.
– Vísaði í önnur mál erlendis og nefndi t.d. KaZaA og FastTrack.
– FinReactor dómurinn þar sem stjórnendur þess voru dæmdir sekir og til að greiða sektir.
– Nefndi að sala stefndu á deilimagni væri ‘brilliant business hugmynd’.
– Þeir stefndu eru ekki unglingar að leik heima hjá sér. Eftir 6 mánaða aðgerðarleysi lögreglu hafi stefnendur neyðst til að krefjast lögbanns til að stöðva starfsemina.
– Grein í Morgunblaðinu frá 2. ágúst 2006 eftir Svavar Lúthersson, einn stefndu. Nefndi hana sem dæmi um að Svavar bæri ekki mikla virðingu fyrir höfundarrétti. Las mestalla greinina upp.
– Ársuppgjör Istorrents 2006. Nefndi að nafnaval Istorrents á nýju vélinni hafi verið ögrun þar sem hún var skírð ‘Smáís’.
– Hlutverk gagnabeinis skv. skýrslu Umbra Systems ehf. um BitTorrent-vefi.
– Lýsing stefndu á hlutverki gagnabeinis. Segir að þeir stefndu séu sammála um mikilvægi gagnabeinisins.
– Áskorun um lokun vefsvæðisins 11. október 2006 og grein á mbl.is um höfnun beiðninnar.
– Ábyrgð stefnenda á gerðum notenda. Skilgreind sem meðábyrgð en hlutdeild skv. almennum hegningarlögum höfð til hliðsjónar. Róbert Spanó ákvað að skjóta inn spurningu til HJ þar sem hann spurði HJ hvaða lagastoð væri fyrir því að refsa stefndu fyrir sinn þátt í brotum á höfundalögum. HJ gat ekki svarað því á þessari stundu.
– Réttur stefnenda til að sækja mál vegna málsóknarumboða sem liggja fyrir í málinu.
– Inni á torrent.is væru 26 þúsund manns með einbeittan brotavilja að sögn HJ. (Snæbjörn og Gunnar Guðmundsson meðal þeirra?)
– Bandarísk verk njóta verndar skv. höfundalögum þar sem Bandaríkin samþykktu Bernarsáttmálann 1989.
– Löng túlkun á því að hvaða leiti dreifing skráa í gegnum BitTorrent-staðalinn teljist sem birting og eintakagerð og þar af leiðandi brot á höfundalögum. Meta þyrfti allt ferlið heildstætt við úrskurð málsins.
– Öfug sönnunarbyrði skv. 8. gr. höfundalaga.
– Heimfæri mætti sekt Bjarka fyrir hlutdeild í ólögmætri dreifingu í DC-málinu til Svavars í þessu máli.
– Refsa ætti fyrir meðverknað Svavars með stuðningi í fébótarétt en heimild fyrir því er í 56. gr. höfundalaga.
HJ lauk ræðu sinni kl. 14:40 en þá var tekið 10 mínútna hlé.

Lögmaður stefndu (TJ) hóf málflutning.
– Fór yfir dómkröfur stefndu. Krafist sýknu, málskostnaðar og skaðabætur vegna lögbannsins.
– Fyrirbyggjandi aðgerðir af hálfu stefndu byggjast á skilmálum. Aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir væru of kostnaðarsamar.
    Með sömu rökum og stefnendur nota mætti gera alla aðila sem standa að fjarskiptaþjónustu (t.d. netþjónustur) ábyrga fyrir notkun notenda þeirra.
– Aðild málsins
    Málsóknarumboð ekki gild í málinu. Málsóknarumboðum eru settar þröngar skorður og ekki talið að notkun þeirra í þessu máli fari eftir því sem gildir almennt um málsóknarumboð.
    Höfundarrétthafasamtök hafi eingöngu heimild í lögum til að fara í dómsmál fyrir hönd félagsmanna vegna innheimtu gjalda. Engin heimild til þess að fara fram á lögbann eða heimta skaðabætur fyrir hönd umbjóðenda sinna.
    Stefnendur eru eingöngu að verja réttindi ákveðinna nafngreindra félagsmanna en slíkt er ekki almennt viðurkennt af dómsvaldinu sbr. hrd. 277/2001 Alþýðusamband Íslands gegn íslenska ríkinu. Einnig vísað í dóm í máli VSÍ frá árinu 1953.
    Vísað í Myndstefsmál og nefnt að það mál hafi verið höfðað vegna innheimtu gjalda og því ekki rétt að vísa í þetta mál til réttlætingu á heimild rétthafasamtakanna til að sækja þetta mál.
    Ef málsóknarumboðunum er ekki vísað frá ber að íhuga að stefnendur eru ekki að fara eftir þeim þar sem þau nefna ekki að stefnendur geti höfðað mál í eigin nafni.
    Svavar dreginn inn í málið vegna skráningar lénsins torrent.is á hans nafn. Nefndi að hann (TJ) hefði reynslu af því að fyrrverandi starfsmenn eru oft rétthafar léna fyrirtækja. Væri ósanngjarnt ef þeir bæru ábyrgð á því sem væri þar.
– Ekki reynt að nálgast Istorrent í tilraun til að hefja samningaumræður eins og STEF gerir við hárgreiðslustofur, veitingastaði og svo framvegis.
– Réttarbrot ekki sönnuð. Furðast yfir því af hverju það var ekki gerð tilraun til að fara eftir ráðleggingum sem koma fram í skýrslu Netvöktunar.com um öflun sönnunargagna vegna brota á höfundarrétti.
    Snæbjörn safnaði saman sönnunargögnunum og að auki er hann ekki hlutlaust vitni þar sem hann ber hag af úrslitum málsins.
– Takmarkanir á höfundalögum.
    11. gr. höfundalaga leyfir afritun höfundarréttarvarðra verka til einkanota.
    14. gr. höfundalaga leyfir tilvitnanir í höfundarréttarvarin verk. Lýsingar notenda á verkunum á torrent.is falla undir slíkt. (Þetta ákvæði er sambærilegt, en þó ekki nákvæmlega eins, og það sem kallast á ensku ‘fair use’.)
– Vantar skjöl í lögbannsgerðina og því eru ekki öll brot nefnd í stefnunni sönnuð eða gerð sennileg.
    Metsala á Næturvaktinni á DVD.
– Hlutdeild er dæmd í sakamálum en ekki einkamálum. Þeir stefndu eru ekki meðábyrgir í meintum brotum og hljóta að vera takmörk fyrir því hversu langt meðábyrgð nær. Að sama skapi mætti gera fjarskiptafyrirtæki ábyrg fyrir brot viðskiptavina sinna.
    Vísað í lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu en þar er nefnt að aðilar eru ábyrgðarlausir ef búnaður þeirra er notaður í lögbrot þriðja aðila.
    Sé lögbannið samþykkt er verið að setja slæmt fordæmi hvað varðar ábyrgð þriðja aðila.
    FinReactor dómur sé ekki hæfur til samanburðar. Ekki kemur fram í hverju sektin fólst og hvað lá að baki henni. Einnig er óvitað hvernig lögin eru þar hvað varðar hlutdeild.
    Þetta mál er mjög frábrugðið DC-málinu. Meðal annars lá fyrir 3ja ára lögreglurannsókn og viðurkenningar sakborninganna um vörslu gagnanna.
– Bótakrafa er of gölluð til að vera nothæf til hliðsjónar á meintu tjóni. T.d. er kostnaður vegna framleiðslu, dreifingu ofl. talinn inn í meint tap.
    Bótagrundvöllinn vantaði í eintak fulltrúa sýslumanns þegar lögbannsgerðin var tekin fyrir. Fulltrúi sýslumanns staðfesti það eins og kemur fram í dómskjali.
– Brotið var á andmælarétti stefndu við lögbannsgerðina þar sem þeim gafst ekki nægur tími til að verjast lögbannsgerðinni.
TJ lýkur máli sínu en segist geyma afganginn þar til síðar.

HJ gerir athugasemdir við málflutning TJ:
– Málsóknarumboðin eru gild. Talið ljóst af þeim að rétthafarnir hafi veitt umboð til málsóknar.
– Viðurkenningarkrafan ekki of víðtæk og lögbannið vegur ekki að atvinnufrelsi stefndu. Nefnir að eignarréttindi rétthafanna séu mun mikilvægari.
– Telur að lýsingarnar á torrent.is séu ekki verndaðar af 14. gr. höfundalaganna vegna þess að tilgangur þeirra sé að kynna ólögmæta dreifingu á höfundarréttarvernduðum verkum.
– Skilmálar augljóslega gagnslausir og geti því stefndu ekki skýlt sér bakvið þá. Rétthafar þurfi að ráða tugi starfsmanna til að fylgjast með vefnum dag og nótt til að sporna við óleyfilegri dreifingu.
– Meðábyrgð myndast á óskráðum grundvelli. Líkir meðábyrgðinni við það að stefndi Svavar eigi vöruhús, leigi það út og það sé síðan notað til ólöglegrar starfsemi. Það sé heimfært til meðábyrgðar í þessu máli og sé hann því ábyrgur.
– Nefnir að skaðabótakrafa stefndu jafnist á við það að bíl sé stolið og að þjófurinn leigir hann út. Síðan stefnir þjófurinn eigandanum fyrir að geta ekki lengur leigt bílinn út og sækir um skaðabætur.
HJ lýkur máli sínu.

TJ gerir athugasemdir (seinasta ræðan):
– Vísar í Hæstaréttardóm 575/2007 þar sem málinu var vísað frá vegna þess að SMÁÍS gat ekki stuðst við 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 fyrir aðild sinni að lögbannsmáli. Getur ekki séð að aðild rétthafasamtakanna í þessu máli styðjist við neinar aðrar lagagreinar.
– Brást við tilkynningum um ólöglega dreifingu. Eru skilmálar fjarskiptafyrirtækja einnig augljóslega gagnslausir? Þar fer fram dreifing jafnvel á kolólöglegu efni en dómendur geta ímyndað sér hvað gæti verið.
– Með rökum stefnenda mætti kæra forsvarsmenn Kolaportsins vegna meintra lagabrota þeirra sem selja vörur þar.
– Sagði að rétthafasamtök ættu frekar að reyna að leysa málið með samstarfi við þá sem bjóða upp á betri dreifingarleiðir frekar en í stríði eða fyrir dómi.
TJ lýkur máli sínu.

Þorgeir Ingi Njálsson, héraðsdómi, sagði þá dómþingi lokið og að málið yrði tekið fyrir dóm. Klukkan var þá um 16:30.

Úrskurðar er að vænta eftir 2-4 vikur.

10 March 2008

Aðalmeðferð á morgun

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 10:01

Fyrir þá einstaklinga sem þurfa á áminningu að halda – þá er aðalmeðferð málsins í fyrramálið (þriðjudaginn 11. mars). Hún verður haldin í Héraðsdómi Reykjaness og hefst kl. 9:30. Tíminn fyrir hádegi mun líklegast fara í að taka skýrslur af ýmsum aðilum og vitnum. Eftir það mun lögfræðiblaðrið taka við. Þrátt fyrir að tekinn sé frá tími til 17:00 er ekki líklegt að hann verði nýttur að fullu þar sem þinghaldinu muni líklegast ljúka eitthvað um tvö- eða þrjúleytið.

Úrskurðurinn mun líklegast vera kveðinn eftir 2-4 vikur en á þeim tíma munu dómendur ákveða hvernig úrslit málsins verða fyrir héraðsdómi. Það mun líklegast fara fyrir Hæstarétt óháð því hvernig það endar fyrir héraðsdómi en það þýðir ekki að okkur sé sama um hvernig það fer á þessu stigi. Þetta er samt kjörið tækifæri til að fylgjast með málinu í réttarsal þar sem um er að ræða opið þinghald. Eru því allir sem hafa áhuga á málinu hvattir til að mæta á staðinn, jafnvel þótt það sé ekki allan tímann.

Búast má við lýsingu á atburðum dagsins samdægurs eða næsta dag á eftir. Mun taka það fram núna að ég mun ekki svara í símann á meðan dómþingi stendur.

4 March 2008

Reyndu að loka fyrir bloggið

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 02:34

Bloggið var sett upp 2. janúar síðastliðinn, sama dag og elsta færsla þess var sett inn. Um viku síðar kemur Hróbjartur Jónatansson, lögmaður stefnenda, til ISNIC og með lögbannsúrskurðinn. Var krafist þess að ISNIC myndi taka niður lénið torrent.is og nefnt að lögbannið næði yfir það. Eftir nánari skoðun var það talið fráleitt af hálfu ISNIC. Þann 11. janúar neitaði ISNIC beiðninni formlega. Engin merki eru um frekari tilraunir til þess að stöðva bloggið en það er spurning hvort leitað hafi verið til Vodafone um að loka nettengingunni sem veitir aðgang að blogginu.

Líkja mætti lénum við heimilisföng sem er ein leið til að auðkenna hús. Aðrar leiðir til að auðkenna hús er með sérstöku nafni (t.d. ‘Klettur’), GPS hnitum og jafnvel leiðarlýsingu. Jafnvel þótt að lén eins og torrent.is sé ekki notað, þá eru aðrar leiðir til að komast á sama vefsvæði, t.d. með IP tölu. Með því að slá t.d. inn http://213.220.117.6/ fæst sama virkni og ef farið er inn á torrent.is en þá er notendum beint samstundis inn á istorrent.is. Lénið torrent.is er bara ein leið af mörgum til að auðkenna vefsvæði.

Vil ég því formlega þakka ISNIC kærlega fyrir að hafna beiðni stefnenda sem gerð var til þess að skerða okkar skoðanavettvang. Tjáningarfrelsi okkar er mjög mikilvægt og á því ISNIC skilið mikið hrós fyrir vikið.

Milliþinghald fyrr í dag

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 12:28

Málið heldur áfram og hittust aðilar þess í milliþinghaldi kl. 9 í dag. Þá lögðu aðilar þess fram ýmis skjöl og lýstu því yfir að gagnaöflun væri lokið. Ákveðið var að aðalmeðferð málsins myndi verða þann 11. mars nk. kl. 9:30 í Héraðsdómi Reykjaness. Úrskurður héraðsdóms í málinu mun þá líklegast liggja fyrir 2-4 vikum síðar.

Í þinghaldinu voru lögð fram ýmis gögn og meðal þeirra má telja samantekt um virkni BitTorrent sem unnin var að beiðni stefnenda. Síðastnefnda skjalið var unnið af Umbra Systems ehf. og mun Ásgeir Ásgeirsson sitja svörum varðandi skýrsluna við aðalmeðferð málsins. Þeir stefndu lögðu fram afrit af forsíðu torrent.is, afrit af grein í gagnasafni mbl.is og ýmis gögn er varða áætlað tap Istorrents ehf. og Svavars Lútherssonar vegna lögbannsins. Eftir að skjölin höfðu verið sett fram var öflun sýnilegra sönnunargagna lýst lokið.

Nokkrir aðilar verða teknir í skýrslutöku við aðalmeðferð málsins. Fulltrúar stefnenda verða meðal þeirra en þeir voru ekki nafngreindir en þó má geta þess að um sé að ræða framkvæmdastjóra hverra samtaka sem um ræðir. Af hálfu stefnenda kemur einnig Ásgeir Ásgeirsson til að svara fyrir skýrslu Umbra Systems ehf. en hann bar vitni í DC-málinu sem lauk fyrir héraðsdómi í gær. Einnig vildu stefnendur boða Eirík Guðmundsson sem vitni þar sem hann var starfsmaður Istorrents ehf. þegar lögbannið skall á. Að lokum spurði dómari hvort að Svavar Lúthersson, einn stefndu, ætlaði að gefa skýrslu og var það samþykkt.

Við aðalmeðferð munu nemendur í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ vera meðal áhorfenda en þeir völdu einmitt þetta mál. Aðalmeðferðin mun taka einhverja klukkutíma og er spurning hversu lengi þeir munu stoppa við. Um er að ræða opið þinghald svo að allir sem hafa áhuga á málinu eru hvattir til að mæta. Samkvæmt vef Héraðsdóms Reykjaness á aðalmeðferðin að vera frá kl. 9:30 til 17:00 þann dag.

Powered by WordPress