Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

13 March 2008

Aðalmeðferðin – ágrip og fleira

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 04:22

Aðalmeðferð Istorrent-málsins fór fram þann 11. mars og stóð hún yfir frá kl. 9:30 til um 16:30 sem var talsvert lengur en áætlað var í fyrri færslu. Þessi dagur var nokkuð langdreginn og sást það á þeim sem voru staddir í salnum. Veit ekki hvort einhverjir hafi sofnað en hefði ekki komið á óvart. Þrátt fyrir það var þetta áhugaverður dagur frá mínu sjónarhóli. Fáeinar breytingar voru gerðar á dagskránni en þær voru að forsvarsmenn rétthafasamtakanna komu fram sem vitni frekar en aðilar í málinu og að Ásgeir Ásgeirsson myndi ekki bera vitni eins og var tilkynnt áður. Það sem kemur hér fram í ágripinu er eftir minnisblöðum og eftir minni svo allt sem kemur hér fram þarf ekki endilega að vera rétt haft eftir atburðum dagsins né endilega í þeirri röð sem kemur fram hér. Leiðréttingar eru vel þegnar.

Í stuttu máli var dagskrá dagsins svona;
Aðilaskýrsla:
    Svavar Lúthersson.
Vitnaskýrslur:
    Eiríkur Tómasson hrl. – framkvæmdastjóri STEF og prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
    Gunnar Guðmundsson hdl. – lögmaður FHF.
    Tómas Þorvaldsson hdl. – lögmaður Framleiðendafélagsins SÍK.
    Snæbjörn Steingrímsson – framkvæmdastjóri SMÁÍS.
    Eiríkur Guðmundsson – fyrrverandi starfsmaður Istorrents ehf.
Hádegishlé frá kl. 12 til 13.
Málflutningsræður:
    Hróbjartur Jónatansson hrl. (HJ) – lögmaður stefnenda. Ræðan er til kl. 14:40.
    Tómas Jónsson hrl. (TJ) – lögmaður stefndu.
    HJ gerir athugasemdir.
    TJ gerir athugasemdir.
Málflutningi lýkur um kl. 16:30. Málið er tekið fyrir dóm og beðið úrskurðar dómenda.

Dómþing hófst kl. 9:30 þegar dómendur komu inn í salinn. Lögmenn gerðu þá stuttlega grein fyrir dómkröfum í málinu.

Svavar Lúthersson boðinn í aðilaskýrslu. TJ (Tómas Jónsson) spurði Svavar fyrst og þá aðallega um áætlað tap hans og Istorrents ehf. vegna lögbannsins, fyrirbyggjandi aðgerðir (skilmálana), tilgang vefsins og um þær aðgerðir sem voru framkvæmdar ef tilkynning barst vegna brota á höfundarrétti. HJ (Hróbjartur Jónatansson) tók síðan við og spurði um innri virkni vefsins og var mikið vísað í fylgiskjölin sem voru í lögbannsgerðinni. Á meðal þeirra hluta sem spurt var um var flokkaskipting deiliskráa, vefverslunin, hýsingarstaður lýsinganna sjálfra og meðfylgjandi mynda, hólfakerfið, biðtíminn, lágmarkskröfur lýsinga, boðslyklana og síðast en ekki síst um hlutverk og réttindi stjórnenda á vefnum. Síðan spurðu dómendur Svavar spurninga og var athugað hvort að markmið vefsins væri að brjóta á höfundarrétti (því var neitað) og að hvaða leiti aðstæður væru öðruvísi en með ‘DC++ staðlinum’ en Svavar taldi sig ekki vera nógu kunnugan um DC staðalinn til að geta komið með samanburð. Ekki er hægt að muna eftir öllu þar sem þessi skýrslutaka tók um 45 mínútur.

Þá hófust skýrslatökur vitna. Passað er að vitni hafi ekki heyrt skýrslutökur annarra vitna eða aðilaskýrsluna sem fór fram á undan. Öllum vitnum er gert að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem skiptir máli.

Eiríkur Tómasson kom inn sem vitni fyrir STEF sem er einn af stefnendum í málinu. Hann er framkvæmdastjóri STEF. Sagði háttsemi stefndu varði við lög þar sem þeir hafi ekki samið við STEF um greiðslur sanngjarns endurgjalds. Nefndi að STEF hefðu verið tilbúnir til umræðu ef til þeirra hefði verið leitað. Þeir stefndu höfðu ekki samband til að semja um sanngjarna greiðslu vegna starfsemi vefsins og heldur ekki vegna aðvörunar sem þeir sendu í október 2006. Engar frekari aðvaranir fóru fram af hálfu STEF. Aðspurður segir hann að engum öðrum úrræðum hafi verið beitt en að senda bréfið. Venjulega sé brotaaðilum boðið upp á að semja um greiðslu í stað málsóknar en slíkt hafi ekki farið fram við forsvarsmenn torrent.is. Aðspurður sagðist hann ekki hafa verið notandi á torrent.is.

Gunnar Guðmundsson var kallaður inn sem vitni. Hann er lögmaður Félags hljómplötuframleiðanda en enginn framkvæmdastjóri er fyrir félagið. Hann skrifaði undir bréfið sem var sent til stefnda Svavars í október 2006. Engar frekari aðvaranir voru sendar af hálfu FHF. Ekki hægt að áætla tjónið vegna starfsemi torrent.is. Skaðabætur, ef dæmdar, fara væntanlega í sérstakan sjóð. Heildsöluverð hvers geisladisks er um 1000 krónur og síðan leggst smásöluverð og virðisaukaskattur ofan á. Játaði að hafa verið notandi á torrent.is en sagðist ekki hafa deilt eða niðurhalað efni.

Hlé gert um kl. 11 í 10 mínútur. Ágætt tækifæri til að standa upp og slaka á.

Tómas Þorvaldsson, lögmaður Framleiðendafélagsins SÍK, kallaður inn sem vitni. Hann er einn af þeim sem skrifuðu undir bréfið sem var sent til stefnda Svavars í október 2006. Engar frekari aðvaranir voru sendar af hálfu Framleiðendafélagsins SÍK en hann sagði skilja svo að Gunnar Guðmundsson hafa sent tölvupósta og að hafa hringt í Svavar eftir sendingu bréfsins (Því er mótmælt að slík samskipti hafi átt sér stað en þau mótmæli voru ekki höfð fyrir rétti). Ekki hægt að áætla tjónið sem hlýst af starfsemi torrent.is. Hafði ekki verið notandi á torrent.is.

Snæbjörn Steingrímsson kom inn sem vitni en hann er framkvæmdastjóri SMÁÍS, einn stefnenda í málinu. Sagði hann að tjónið sem hlaust af starfsemi torrent.is væri ómögulegt að áætla nákvæmlega en næmi fleiri hundruð milljónum. Spurður um tölur SMÁÍS um aukna bíóaðsókn svaraði hann að þær væru ekki merki um skaðleysi starfsemi torrent.is þar sem aukningin sé ekki að fylgja mannsfjölgun í landinu (Hagfræðingar myndu aldrei nota slíkan mælikvarða til að mæla breytingar á vinsældum). Einnig sagðist hann fá oft kvartanir frá eigendum myndabandaleigna og að þeir nefni oft að torrent.is sé sökudólgurinn (Mjög hentugt). Að auki sagði hann að vefurinn væri valdur að því að enginn rekstrargrundvöllur væri fyrir kvikmyndahúsum úti á landi og að eingöngu væru starfandi 3 kvikmyndahús utan höfuðborgarsvæðisins (Hann gleymir því væntanlega að það eru fleiri aðilar en meðlimir SMÁÍS sem reka kvikmyndahús á Íslandi). Það yrði að ræða það á fundi hvað yrði gert með væntanlegar skaðabætur ef þær yrðu dæmdar (Skv. 9 gr. samþykkta SMÁÍS koma tekjur af dómsmálum til lækkunar á félagsgjöldum). Eftir skýrslutökuna tók Snæbjörn sæti við hlið Hróbjartar og var þar til loka dómþingsins (nema í hléum, auðvitað). MPAA hefur mikinn áhuga á úrslitum málsins og fylgist grannt með í gegnum skýrslur sem Snæbjörn sendir þeim. Netumferð datt um 50% við upphaf lögbannsins en nefndi síðan að notendur væru að fara á aðra vefi (Samkvæmt RIX er netumferðin komin í sama farið aftur). Var notandi að torrent.is frá desember 2006 eftir að hafa pressað á félaga sinn um notandaaðgang (Hann sagði að skilmálarnir gerðu rétthafasamtökum ómögulegt að komast inn til að áætla brot en hann komst samt inn). Sagðist hafa verið með notandanafnið ‘kraft150’ og hafa eingöngu notað þann aðgang heima hjá sér. Hann vistaði vefsíðurnar í fartölvuna sína (Hann notar orðið ‘taka skjáskot’) og tengdi hana við prentara á skrifstofu SMÁÍS síðar (8 dögum síðar skv. útprentunum) og prentað út.

Eiríkur Guðmundsson, fyrrverandi starfsmaður Istorrents ehf., bar vitni að ósk lögmanns stefnenda. Var rætt um virkni vefsins og hlutverk stjórnenda. Þó var rætt um nokkur atriði sem Svavar var ekki spurður að og þá m.a. eftirspurnarviðbótina. Einnig var hann spurður út í starfsvið sitt hjá fyrirtækinu og hlutverk hans á vefnum. Greinilegt að Eiríkur var spurður út í marga hluti sem hann hafði ekki mikla þekkingu á en spurning er hvort að HJ hafi ofmetið þekkingu Eiríks á starfseminni.

Þar sem klukkan var orðin um 12 var ákveðið að taka matarhlé til 13:00 en þá myndu málflutningsræður hefjast.

Lögmaður stefnenda (HJ) hóf málflutning eftir lok matarhlésins.
– Fór yfir dómkröfur stefnenda í málinu.
– Vísaði í DC-málið til hliðsjónar á ábyrgð rekstraraðila.
– Vísaði í önnur mál erlendis og nefndi t.d. KaZaA og FastTrack.
– FinReactor dómurinn þar sem stjórnendur þess voru dæmdir sekir og til að greiða sektir.
– Nefndi að sala stefndu á deilimagni væri ‘brilliant business hugmynd’.
– Þeir stefndu eru ekki unglingar að leik heima hjá sér. Eftir 6 mánaða aðgerðarleysi lögreglu hafi stefnendur neyðst til að krefjast lögbanns til að stöðva starfsemina.
– Grein í Morgunblaðinu frá 2. ágúst 2006 eftir Svavar Lúthersson, einn stefndu. Nefndi hana sem dæmi um að Svavar bæri ekki mikla virðingu fyrir höfundarrétti. Las mestalla greinina upp.
– Ársuppgjör Istorrents 2006. Nefndi að nafnaval Istorrents á nýju vélinni hafi verið ögrun þar sem hún var skírð ‘Smáís’.
– Hlutverk gagnabeinis skv. skýrslu Umbra Systems ehf. um BitTorrent-vefi.
– Lýsing stefndu á hlutverki gagnabeinis. Segir að þeir stefndu séu sammála um mikilvægi gagnabeinisins.
– Áskorun um lokun vefsvæðisins 11. október 2006 og grein á mbl.is um höfnun beiðninnar.
– Ábyrgð stefnenda á gerðum notenda. Skilgreind sem meðábyrgð en hlutdeild skv. almennum hegningarlögum höfð til hliðsjónar. Róbert Spanó ákvað að skjóta inn spurningu til HJ þar sem hann spurði HJ hvaða lagastoð væri fyrir því að refsa stefndu fyrir sinn þátt í brotum á höfundalögum. HJ gat ekki svarað því á þessari stundu.
– Réttur stefnenda til að sækja mál vegna málsóknarumboða sem liggja fyrir í málinu.
– Inni á torrent.is væru 26 þúsund manns með einbeittan brotavilja að sögn HJ. (Snæbjörn og Gunnar Guðmundsson meðal þeirra?)
– Bandarísk verk njóta verndar skv. höfundalögum þar sem Bandaríkin samþykktu Bernarsáttmálann 1989.
– Löng túlkun á því að hvaða leiti dreifing skráa í gegnum BitTorrent-staðalinn teljist sem birting og eintakagerð og þar af leiðandi brot á höfundalögum. Meta þyrfti allt ferlið heildstætt við úrskurð málsins.
– Öfug sönnunarbyrði skv. 8. gr. höfundalaga.
– Heimfæri mætti sekt Bjarka fyrir hlutdeild í ólögmætri dreifingu í DC-málinu til Svavars í þessu máli.
– Refsa ætti fyrir meðverknað Svavars með stuðningi í fébótarétt en heimild fyrir því er í 56. gr. höfundalaga.
HJ lauk ræðu sinni kl. 14:40 en þá var tekið 10 mínútna hlé.

Lögmaður stefndu (TJ) hóf málflutning.
– Fór yfir dómkröfur stefndu. Krafist sýknu, málskostnaðar og skaðabætur vegna lögbannsins.
– Fyrirbyggjandi aðgerðir af hálfu stefndu byggjast á skilmálum. Aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir væru of kostnaðarsamar.
    Með sömu rökum og stefnendur nota mætti gera alla aðila sem standa að fjarskiptaþjónustu (t.d. netþjónustur) ábyrga fyrir notkun notenda þeirra.
– Aðild málsins
    Málsóknarumboð ekki gild í málinu. Málsóknarumboðum eru settar þröngar skorður og ekki talið að notkun þeirra í þessu máli fari eftir því sem gildir almennt um málsóknarumboð.
    Höfundarrétthafasamtök hafi eingöngu heimild í lögum til að fara í dómsmál fyrir hönd félagsmanna vegna innheimtu gjalda. Engin heimild til þess að fara fram á lögbann eða heimta skaðabætur fyrir hönd umbjóðenda sinna.
    Stefnendur eru eingöngu að verja réttindi ákveðinna nafngreindra félagsmanna en slíkt er ekki almennt viðurkennt af dómsvaldinu sbr. hrd. 277/2001 Alþýðusamband Íslands gegn íslenska ríkinu. Einnig vísað í dóm í máli VSÍ frá árinu 1953.
    Vísað í Myndstefsmál og nefnt að það mál hafi verið höfðað vegna innheimtu gjalda og því ekki rétt að vísa í þetta mál til réttlætingu á heimild rétthafasamtakanna til að sækja þetta mál.
    Ef málsóknarumboðunum er ekki vísað frá ber að íhuga að stefnendur eru ekki að fara eftir þeim þar sem þau nefna ekki að stefnendur geti höfðað mál í eigin nafni.
    Svavar dreginn inn í málið vegna skráningar lénsins torrent.is á hans nafn. Nefndi að hann (TJ) hefði reynslu af því að fyrrverandi starfsmenn eru oft rétthafar léna fyrirtækja. Væri ósanngjarnt ef þeir bæru ábyrgð á því sem væri þar.
– Ekki reynt að nálgast Istorrent í tilraun til að hefja samningaumræður eins og STEF gerir við hárgreiðslustofur, veitingastaði og svo framvegis.
– Réttarbrot ekki sönnuð. Furðast yfir því af hverju það var ekki gerð tilraun til að fara eftir ráðleggingum sem koma fram í skýrslu Netvöktunar.com um öflun sönnunargagna vegna brota á höfundarrétti.
    Snæbjörn safnaði saman sönnunargögnunum og að auki er hann ekki hlutlaust vitni þar sem hann ber hag af úrslitum málsins.
– Takmarkanir á höfundalögum.
    11. gr. höfundalaga leyfir afritun höfundarréttarvarðra verka til einkanota.
    14. gr. höfundalaga leyfir tilvitnanir í höfundarréttarvarin verk. Lýsingar notenda á verkunum á torrent.is falla undir slíkt. (Þetta ákvæði er sambærilegt, en þó ekki nákvæmlega eins, og það sem kallast á ensku ‘fair use’.)
– Vantar skjöl í lögbannsgerðina og því eru ekki öll brot nefnd í stefnunni sönnuð eða gerð sennileg.
    Metsala á Næturvaktinni á DVD.
– Hlutdeild er dæmd í sakamálum en ekki einkamálum. Þeir stefndu eru ekki meðábyrgir í meintum brotum og hljóta að vera takmörk fyrir því hversu langt meðábyrgð nær. Að sama skapi mætti gera fjarskiptafyrirtæki ábyrg fyrir brot viðskiptavina sinna.
    Vísað í lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu en þar er nefnt að aðilar eru ábyrgðarlausir ef búnaður þeirra er notaður í lögbrot þriðja aðila.
    Sé lögbannið samþykkt er verið að setja slæmt fordæmi hvað varðar ábyrgð þriðja aðila.
    FinReactor dómur sé ekki hæfur til samanburðar. Ekki kemur fram í hverju sektin fólst og hvað lá að baki henni. Einnig er óvitað hvernig lögin eru þar hvað varðar hlutdeild.
    Þetta mál er mjög frábrugðið DC-málinu. Meðal annars lá fyrir 3ja ára lögreglurannsókn og viðurkenningar sakborninganna um vörslu gagnanna.
– Bótakrafa er of gölluð til að vera nothæf til hliðsjónar á meintu tjóni. T.d. er kostnaður vegna framleiðslu, dreifingu ofl. talinn inn í meint tap.
    Bótagrundvöllinn vantaði í eintak fulltrúa sýslumanns þegar lögbannsgerðin var tekin fyrir. Fulltrúi sýslumanns staðfesti það eins og kemur fram í dómskjali.
– Brotið var á andmælarétti stefndu við lögbannsgerðina þar sem þeim gafst ekki nægur tími til að verjast lögbannsgerðinni.
TJ lýkur máli sínu en segist geyma afganginn þar til síðar.

HJ gerir athugasemdir við málflutning TJ:
– Málsóknarumboðin eru gild. Talið ljóst af þeim að rétthafarnir hafi veitt umboð til málsóknar.
– Viðurkenningarkrafan ekki of víðtæk og lögbannið vegur ekki að atvinnufrelsi stefndu. Nefnir að eignarréttindi rétthafanna séu mun mikilvægari.
– Telur að lýsingarnar á torrent.is séu ekki verndaðar af 14. gr. höfundalaganna vegna þess að tilgangur þeirra sé að kynna ólögmæta dreifingu á höfundarréttarvernduðum verkum.
– Skilmálar augljóslega gagnslausir og geti því stefndu ekki skýlt sér bakvið þá. Rétthafar þurfi að ráða tugi starfsmanna til að fylgjast með vefnum dag og nótt til að sporna við óleyfilegri dreifingu.
– Meðábyrgð myndast á óskráðum grundvelli. Líkir meðábyrgðinni við það að stefndi Svavar eigi vöruhús, leigi það út og það sé síðan notað til ólöglegrar starfsemi. Það sé heimfært til meðábyrgðar í þessu máli og sé hann því ábyrgur.
– Nefnir að skaðabótakrafa stefndu jafnist á við það að bíl sé stolið og að þjófurinn leigir hann út. Síðan stefnir þjófurinn eigandanum fyrir að geta ekki lengur leigt bílinn út og sækir um skaðabætur.
HJ lýkur máli sínu.

TJ gerir athugasemdir (seinasta ræðan):
– Vísar í Hæstaréttardóm 575/2007 þar sem málinu var vísað frá vegna þess að SMÁÍS gat ekki stuðst við 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 fyrir aðild sinni að lögbannsmáli. Getur ekki séð að aðild rétthafasamtakanna í þessu máli styðjist við neinar aðrar lagagreinar.
– Brást við tilkynningum um ólöglega dreifingu. Eru skilmálar fjarskiptafyrirtækja einnig augljóslega gagnslausir? Þar fer fram dreifing jafnvel á kolólöglegu efni en dómendur geta ímyndað sér hvað gæti verið.
– Með rökum stefnenda mætti kæra forsvarsmenn Kolaportsins vegna meintra lagabrota þeirra sem selja vörur þar.
– Sagði að rétthafasamtök ættu frekar að reyna að leysa málið með samstarfi við þá sem bjóða upp á betri dreifingarleiðir frekar en í stríði eða fyrir dómi.
TJ lýkur máli sínu.

Þorgeir Ingi Njálsson, héraðsdómi, sagði þá dómþingi lokið og að málið yrði tekið fyrir dóm. Klukkan var þá um 16:30.

Úrskurðar er að vænta eftir 2-4 vikur.

2 Comments »

  1. […] má það sem Svavar skrifaði hér, og hvet ég ykkur líka að lesa þetta hér, sem er grein eftir Ragnar Björgvinsson og er mjög […]

    Pingback by P2P » Blog Archive » Aðalmeðferð framhald — 13 March 2008 @ 10:14

  2. […] Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar – Styrkir: Reikn. 0135-26-072153 kt. 670807-2150 « Aðalmeðferðin – ágrip og fleira […]

    Pingback by Istorrent bloggið » Blog Archive » Úrskurður enn ekki kominn og um málefnið — 24 March 2008 @ 01:39

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

You must be logged in to post a comment.

Powered by WordPress