Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

17 March 2009

Frekari fréttir af söfnun

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:13

Til að skrifa það hreint út, þá gengur söfnunin hræðilega. Það er því miður ekki að koma neitt mikið inn að ráði. Staðan er því þannig að það verður líklegast ekkert af áfrýjuninni nema gangur söfnunarinnar breytist verulega til hins betra. Ég er ekki enn tilbúinn til að gefa upp markmiðið á söfnuninni en til að gefa hugmynd um ástandið er óhætt að nefna að það eru ekki einu sinni komin 5% af upphæðinni sem þarf til að gefa grænt ljós á áfrýjun. Auðvitað er ég þakklátur gagnvart þeim sem hafa lagt í púkkið en hingað til hefur það ekki verið nóg til að uppfylla fjáröflunarmarkmiðið.

Þessi ósigur kemur á viðkvæmum tíma í efnahagslífi Íslendinga en það má ekki gleyma því að það má ekki stoppa vörnina gegn þeim er ógna frelsi almennings. En ég get lítið gert í því ef ég hef ekki fjármagnið til að verja ykkur svo að ég neyðist til að sætta mig við þá ákvörðun ykkar að leyfa mér ekki að halda áfram. Þið getið auðvitað skipt um skoðun en sú ákvörðun má helst ekki bíða lengur en þar til í byrjun apríl ef málið á að halda áfram.

Haldi málið ekki áfram er hætta á að samtökin ógni öðrum í beinu framhaldi af því. Ef það er vilji til að fara í mál gegn Istorrent, af hverju ætti ekki að vera slíkur vilji til að fara í mál gegn öðrum aðilum? Sá vilji er líklegast ekki takmarkaður við BitTorrent tæknina eða við íslenska landhelgi. Ég vona að þið gerið ykkur grein fyrir því áður en það verður of seint.

Jafnvel þótt þið getið ekki styrkt með peningum, þá væri ágætt ef þið mynduð henda á mig einni línu á kjarrval@torrent.is og tjáð skoðun ykkar. Get því miður ekki tryggt það að öllum verði svarað en ég mun reyna mitt besta að svara þeim sem sækjast eftir því að fá eitt.

Gangi ykkur vel,
Svavar Kjarrval

Powered by WordPress