Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

4 March 2008

Milliþinghald fyrr í dag

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 12:28

Málið heldur áfram og hittust aðilar þess í milliþinghaldi kl. 9 í dag. Þá lögðu aðilar þess fram ýmis skjöl og lýstu því yfir að gagnaöflun væri lokið. Ákveðið var að aðalmeðferð málsins myndi verða þann 11. mars nk. kl. 9:30 í Héraðsdómi Reykjaness. Úrskurður héraðsdóms í málinu mun þá líklegast liggja fyrir 2-4 vikum síðar.

Í þinghaldinu voru lögð fram ýmis gögn og meðal þeirra má telja samantekt um virkni BitTorrent sem unnin var að beiðni stefnenda. Síðastnefnda skjalið var unnið af Umbra Systems ehf. og mun Ásgeir Ásgeirsson sitja svörum varðandi skýrsluna við aðalmeðferð málsins. Þeir stefndu lögðu fram afrit af forsíðu torrent.is, afrit af grein í gagnasafni mbl.is og ýmis gögn er varða áætlað tap Istorrents ehf. og Svavars Lútherssonar vegna lögbannsins. Eftir að skjölin höfðu verið sett fram var öflun sýnilegra sönnunargagna lýst lokið.

Nokkrir aðilar verða teknir í skýrslutöku við aðalmeðferð málsins. Fulltrúar stefnenda verða meðal þeirra en þeir voru ekki nafngreindir en þó má geta þess að um sé að ræða framkvæmdastjóra hverra samtaka sem um ræðir. Af hálfu stefnenda kemur einnig Ásgeir Ásgeirsson til að svara fyrir skýrslu Umbra Systems ehf. en hann bar vitni í DC-málinu sem lauk fyrir héraðsdómi í gær. Einnig vildu stefnendur boða Eirík Guðmundsson sem vitni þar sem hann var starfsmaður Istorrents ehf. þegar lögbannið skall á. Að lokum spurði dómari hvort að Svavar Lúthersson, einn stefndu, ætlaði að gefa skýrslu og var það samþykkt.

Við aðalmeðferð munu nemendur í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ vera meðal áhorfenda en þeir völdu einmitt þetta mál. Aðalmeðferðin mun taka einhverja klukkutíma og er spurning hversu lengi þeir munu stoppa við. Um er að ræða opið þinghald svo að allir sem hafa áhuga á málinu eru hvattir til að mæta. Samkvæmt vef Héraðsdóms Reykjaness á aðalmeðferðin að vera frá kl. 9:30 til 17:00 þann dag.

No Comments »

No comments yet.

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

You must be logged in to post a comment.

Powered by WordPress