Þann 17. janúar nk. kl. 9:00 verður fyrirtaka málsins í Héraðsdómi Reykjaness, sal 2. Þar verður tekin fyrir afstaða kæruaðila til frávísunar á málinu.
Um er að ræða opið þinghald svo almenningur er velkominn. Mig grunar að einhverjir vilji mæta til að veita málstaðnum stuðning en ég mæli með því að fólk geri það ekki fyrr en málið fær efnislega umfjöllun. Búist er við að umræðan verði nokkuð lögfræðileg og að kæruefni verði ekki tekin fyrir nema að litlu magni í þetta skiptið.
Ástæður fyrir frávísun eru nokkrar:
1. Gerðarbeiðendur í lögbannskröfunni og stefnendur eru ekki þeir sömu. Samtökin SMÁÍS eru ekki stefnendur í staðfestingarmálinu, heldur eru þeir eingöngu fyrir hönd 365 miðla ehf., en slík aðilaskipti er ekki að finna í lögum. Einnig eru samtökin SMÁÍS ekki að uppfylla lagalega skyldu sína vegna vanþátttöku sinnar sem kæruaðila í málinu.
2. Engar útskýringar fylgja samlagsaðild að lögbannsgerðinni og staðfestingarmálinu. Aðilarnir gæta hagsmuna ýmissa rétthafa sem hafa ólíkra hagsmuna að gæta. Ekki er séð að hvaða leyti þessi samlagsaðild sé studd í lögum.
3. Gerðarbeiðendur og stefnendur hafa lagt fram umboð frá ýmsum rétthöfum, bæði við lögbannsgerðina og í dómsmálinu. Ekkert umboðanna veitir gerðarbeiðendum eða stefnendum umboð til þess að höfða mál í eigin nafni. Einnig veita umboðin ekki heimild fyrir samlagsaðild.
4. Stefnendur segjast koma fram fyrir hönd rétthafa í málinu. Því er hafnað þar sem stefnan ber þess ekki merki að öðru leyti fyrir utan það að SMÁÍS kemur fram fyrir hönd 365 miðla ehf.
5. Krafa stefnenda er verulega vanreifuð. Í dómkröfu krefjast stefnendur að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is eða aðra “sambærilega vefsíðu”. Með skeytingu orðsins “sambærilega vefsíðu” eru stefnendur að fara út fyrir lögbannskröfur sínar. Slíkt orðalag er of ónákvæmt og of víðtækt þar sem túlkun þess er of teygjanleg auk þess sem stefnendur gera ekki tilraun til þess að skilgreina hvað sé átt við með því.
6. Stefnendur gera ekki tilraun til þess að sýna fram á að hið meintu höfundaréttarbrot stefndu eigi við um verk sem vernduð eru af höfundalögum. Höfundalög vernda eingöngu íslenska höfunda eða höfunda innan EES-sambandsins. Einnig vernda þau verk höfunda frá þeim löndum þar sem gagnkvæmni er tryggð. Heimild er í höfundalögum fyrir því að víkka gildissvið laganna í samræmi við alþjóðasáttmála. Ekkert í málatilbúnaði stefnenda gefur til kynna hvort að höfundar, sem þeir telja sig vera að vernda, séu frá löndum sem eru aðilar að þeim sáttmálum eða hafa fullgilt þá.
7. Dómkrafa kærenda um skaðabætur er vanreifuð. Skortur er á rökstuðningi fyrir bótaupphæðinni og jafnvel bótagrundvöllinn sjálfan. Hvergi má finna sundurliðun á raunverulegu tjóni stefnenda, tilraun til þess að rökstyðja það tjón sem sennilega afleiðingu tiltekinna athafna eða athafnaleysis stefndu. Veruleg vöntun er á gögnum svo hægt sé að taka ígrundaða afstöðu til fjárkröfu stefnenda sem skaðabótakröfu. Stefnendur lögðu fram fylgiskjal sem sýnir afar hæpna útreikninga um meint verðmæti þeirra skráa sem finna mátti á www.torrent.is. Að mati stefndu telst það ekki sem bótagrundvöllur enda er öllum upplýsingum á skjalinu mótmælt sem röngum ásamt því að skjalið virtist ekki hafa verið lagt fram við lögbannsgerðina sjálfa.
Orðskýringar:
Bótagrundvöllur: Undirstaða þess að hægt sé að krefjast bóta. Sanna þarf eða gera mjög sennilegt að atburður hafi átt sér stað sem réttlætir greiðslu bóta.
Dómkrafa: Þær kröfur sem aðilar gera í tengslum við málaferli.
Gerðarbeiðendur: Þeir aðilar sem leggja fram lögbannskröfu (í þessu tilviki).
Samlagsaðild: Þegar tveir eða fleiri aðilar sameinast um aðild að kæru.
Stefndi: Sá sem er stefnt í dómsmáli.
Stefnendur: Þeir aðilar sem leggja fram kæru fyrir dóm.
Vanreifun: Þegar kæra er vanreifuð, þá er kæran sjálf ekki í samræmi við lög og/eða hún tekur ekki á atriðum sem af eðli sínu ætti að hafa verið gert skil í kærunni.
Gangi þér vel Svavar. 😀
Comment by ArnarM — 14 January 2008 @ 11:59
Mér sýnist þetta líta vel út. Gangi ykkur sem allra best. 🙂
Comment by gunnargolf — 14 January 2008 @ 02:22
Frábært, loksins verður þetta tekið fyrir svo maður liggi ekki eftir í óvissu. Gangi ykkur vel! Ég verð með ykkur í hjartanu 🙂
Comment by Paper — 14 January 2008 @ 02:31
Tel það litlar líkur á því að þið tapið þessu máli þar sem það voru ekki þið sem brutu lög, heldur notendur síðunnar sem samþykktu í upphafi skilmála er vörðuðu það að ekkert efni sem þeir sendu inn mætti vera höfundavarið.
Óska ykkur allra besta, Áfram Istorrent!
Comment by Hordur10 — 14 January 2008 @ 04:53
Ég er að spá,
ætliði að leyfa íslensk efni þegar að síðan opnar aftur?
Comment by Egill100 — 15 January 2008 @ 02:12
Af hverju ekki af þeir vinna málið?!?
Comment by ArnarM — 15 January 2008 @ 03:52
Svooo, hvernig gekk?
Er málið kannski ekki búið að fá dóm? sé þetta hvergi í neinum fjölmiðlum…
Comment by Paper — 17 January 2008 @ 07:09