Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

3 February 2010

Málflutningurinn fyrir Hæstarétti

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 02:39

Þann 1. febrúar síðastliðinn klukkan 9 hófst munnlegur flutningur málsins. Fyrst flutti lögmaður Istorrents málið og síðan tók við lögmaður STEF. Eftir það var tekin ein umferð af andsvörum í sömu röð. Tók þetta allt eingöngu um tvær klukkustundir. Málið var síðan lagt í dóm og er búist við niðurstöðu einhverntímann í febrúar.

Í stað þess að koma með nákvæma útlistun á atburðarásinni er betra að stikla á stóru. Tveir nýir lögmenn tóku við flutningi málsins og því tækifæri til að fá nýjar og spennandi hliðar á það. Því miður verð ég að nefna að það tókst frábærlega hjá Istorrent en málstaður STEF virðist ekkert hafa batnað.

Þótt ég sé ekki með hlutlausa skoðun verð ég að nefna að lögmaður Istorrents stóð sig frábærlega og var frammistaða hans til fyrirmyndar. Það var greinilegt á málflutningnum að hann hafði hellt sér í málið og gert það að sínu eigin. Lögmaður STEF sýndist ekki vera sannfærandi og kom varla með neitt nýtt í málflutninginn. Andsvör STEF voru, í meginatriðum, varla skárri. Sum þeirra voru ágæt en tilfinningin var að þau væru endurorðun á „nau-hauts!“ og „víst!“.

Einhverra hluta vegna komu fram haldlaus rök af hálfu lögmanns STEF sem höfðu jafnvel verið skotin á kaf áður. Ekki veit ég hvort þau voru tekin upp aftur í þeirri von að Hæstiréttur myndi taka þau gild eða vegna þess að þau hafi verið krydduð til að hljóma meira sannfærandi. Meðal þeirra helstu eru ákvæðin um hlutdeild í lagabrotum í einkamálum og tilskipanir frá Evrópusambandinu.

Niðurstöður í  dómsmálum reknum á Norðurlöndum voru þuldar upp af hálfu STEF í þeirri von að sannfæra dóminn um að erlendir dómstólar túlkuðu lögin í þeirra hag og því ættu þeir að gera það sama á Íslandi (vegna skyldleika laganna hér og á Norðurlöndunum). Þess bar að geta að þau voru öll rekin í undirrétti fyrir utan Napster-málið í Noregi en lögmaður Istorrents var þegar búinn að vísa það. Einnig var það sérstaklega nefnt í höfundalögum þar að hlutdeild/meðábyrgð er einnig brot á lögum en slíkt er ekki að finna í íslensku höfundalögunum (enn þá). Það var einkar fyndið að STEF vísaði í The Pirate Bay málið sem sönnun um túlkun á sænsku lögunum þegar það mál er einn stór brandari og óvíst hvort að dómarinn hafi verið óhlutdrægur aðili vegna aðildar hans í rétthafasamtökum.

Einnig tók ég eftir í málflutningi STEF að rökleiðslan var eitthvað sem var nokkuð ábótavant. Fyrir héraðsdómi nefndi ég að notendur gætu hafa dreift efni ólöglega (þ.e. að það væri alveg fræðilega mögulegt) en síðan var það túlkað af lögmanni STEF að ég vissi að það væri ólögleg dreifing í gangi. Ef Jón gæti fræðilega séð barið konuna sína, þá barði hann konuna sína. Nokkuð skrítin rökleiðsla.

Verð síðan að nefna tölfræðivitleysuna hjá STEF. Með lögbannsbeiðninni sem þeir sendu til sýslumanns var fylgiskjal sem átti að sýna tap rétthafa á starfsemi Istorrents. Var tapið reiknað sem 2 milljarðar á ári. Persónulega bjóst ég ekki við því að þeir myndu koma með þessa upphæð fyrir Hæstarétti um svokallað tap þeirra en það gerðu þeir. Forsendan var að hvert niðurhal jafngilti tapaðri sölu (sem var gefið óbeint til kynna) og þá er eingöngu miðað við topplistana í hverjum flokki. Nánari útlistun á því hversu röng aðferðin er myndi vera of löng fyrir þessa færslu. Jafngildi niðurhals og tapaðrar sölu er tekið fyrir á mörgum öðrum stöðum á Internetinu en að miða við topplistana er álíka því að finna út meðallaun launahæstu manna landsins og segja að sú tala séu meðallaun allra á landinu.

Jafnvel þótt það sé ekki hægt að segja að málið sé sama og unnið gæti ég vel trúað að það verði niðurstaðan miðað við frammistöðuna við Hæstarétt. Niðurstaðan kemur að sjálfsögðu á Istorrent bloggið.

4 Comments »

 1. Vá hvað ég hefði viljað að vera þarna og sjá Málflutningana.
  en þú talar um að niðurstaðan fæst í Febrúar erum við þá að tala um endalega niðurstöðu eða verður síðan áframhald með það?

  Comment by IceFox — 3 February 2010 @ 11:40

 2. Ég myndi segja að það væri endanleg niðurstaða þar sem ég efast um að það haldi áfram, hvernig sem það fer.

  Comment by Svavar Kjarrval — 3 February 2010 @ 01:17

 3. Þetta hljómar vel. Vonum bara að þú sigrir þetta í eitt skiptið fyrir öll.

  ,,því miður verð ég að nefna að það tókst frábærlega hjá Istorrent en málstaður STEF virðist ekkert hafa batnað.”. Þetta nefndirðu í greininni, ég skildi þetta ekki alveg. Þú segir að það hafi tekist frábærlega hjá Istorrent en í sömu setningu segirðu því miður, á þetta sé skýringu? 🙂

  Annars virkar þetta mjög jákvætt fyrir okkur og auðvitað vonum við það besta.

  Comment by HlynurH — 3 February 2010 @ 03:00

 4. Jæja, ég varð bara að skrá mig hérna inn til að commenta loksins.
  Hef alltaf lesið bloggið hjá þér en aldrei commentað neitt. Hef fundist vera heldur fáir að commenta hjá þér, vona bara að það séu miklu fleiri að lesa eins og ég gerði forðum.

  Annars vona ég bara eins og alltaf að þér gangi vel með þetta allt saman og ef istorrent kemur aftur upp þá mun ég klárlega setja mína fyrstu plötu þar inn.

  Comment by Thorsteinn — 3 February 2010 @ 08:23

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

You must be logged in to post a comment.

Powered by WordPress