Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

18 April 2009

Bráðleg lokun The Viking Bay

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 09:25

Birt var tilkynning á forsíðu The Viking Bay (www.thevikingbay.org) – hér eftir nefnd Deiling.is til að rugla henni ekki saman við gömlu The Viking Bay – þar sem tilkynnt var um lokun vefsins. Eigandi vefsins, Ómar Daði Sigurðsson, ákvað að loka henni stuttu eftir að grein var opinberuð þar sem traust hans til að reka BitTorrent vefi var dregið í efa. Í umræðum um greinina má sjá að það eru margir sem voru sammála því sem stóð í henni.

Greinin sjálf (Aðgengileg hér) virðist vera sanngjarnlega sett upp og hlutir rökstuddir þar sem á við. Ég verð að játa að ég þekki til greinarhöfundar og veit til þess að hann er stuðningsmaður jafningjaneta. Í greininni kastar hann fram nokkrum spurningum er varða rekstur Ómars á BitTorrent vefjum og lítið við það að athuga þar sem um er að ræða skoðun höfundar. Það eru hins vegar viðbrögð Ómars sem hjálpuðu ekkert málstað hans.

Áður en ég fer út í mistök Deilingar.is og aðstandenda þeirra verð ég að játa að ég hef einnig gert ýmis mistök á ævi minni eins og margir aðrir en þó ekki nákvæmlega sömu mistök og um er að ræða hér. Mistök eru til að læra af þeim í þeirri von að þau séu ekki endurtekin. Það mætti því segja að þessi grein sé til áminningar svo hægt sé að greina og mögulega læra af mistökunum eftir því sem á við.

Stærstu mistökin sem voru gerð má rekja til yfirlýsingar Ómars sem birtist á forsíðu Deilingar þar sem hann lýsir andstyggð á notendur vefsins. Einnig var sama texta dreift í gegnum einkaskilaboð til allra notenda vefsins. Þau mistök voru afleiðingar nokkurra smærri mistaka:

* Fyrst og fremst á ekki að gefa út yfirlýsingar og senda út þegar maður er í æðiskasti. Margir munu túlka texta saminn í slíku skapi sem innantómt væl og munu líklegast safnast saman á móti textahöfundi en með honum. Í það minnsta ætti viðkomandi að bíða þangað til hann er í léttara skapi og fara síðan yfir textann áður en hann er sendur út.

* Í öðru lagi borgar sig alltaf að lesa yfir það sem á að senda út a.m.k. einu sinni eftir að textinn er saminn til að tryggja að hann sé skýr og í raun og veru það sem textahöfundur ætlaði að tjá. Það var greinilegt á textanum að framtíð vefsins var ákveðin á meðan hann var skrifaður og hafa þeir sem lesa textann mismunandi skilning á innihaldi hans eftir því hvað þeir lásu mikið af honum. Þess vegna skiptir miklu máli að lesa yfir og sjá til þess að allir hlutar textans endurspegli heildina.

* Í þriðja lagi skiptir markhópurinn miklu máli. Það á ekki að gera ráð fyrir því að allir notendur fylgist grannt með því sem er að gerast og séu á nótunum í öllu. Margir munu koma af fjöllum og eini skilningur þeirra á málinu er það sem stendur í textanum. Í umræðunni um textann mátti sjá að sumir notendur vissu ekkert um málið og fengu allt í einu skilaboð þar sem lýst var andstyggð á þá.

Síðan má nefna að það eru alltaf einhverjir sem gagnrýna mann og er þá sérstaklega mikilvægt að láta það ekki á sig fá en athuga þó hvort að hún eigi rétt á sér. Ef svo er, þá borgar sig að leiðrétta mistökin eftir því sem á við. Þegar maður rekur svona stórt samfélag munu allar ákvarðanir manns vera gagnrýndar þar sem ólíklegra er að komast á mót við alla sem þar eru. Því þarf að velja og hafna.

En til að koma með jákvæðu hliðina, þá voru nokkur mistök sem voru ekki gerð – sem betur fer. Það var mjög vel gert hjá Ómari að eyða ekki út þeim notendur sem voru með andstæðar skoðanir. Það sýnir mikinn þroska og virðingu að reka ekki andstæðingana í burtu þegar þeir koma með skoðanir sem eru gegn manns eigin. Það sama gildir um að eyða ekki þeim spjallþráðum og spjallpóstum sem innihalda téðar skoðanir. Það eina sem skyggði á þetta voru hin mistök Ómars. Því miður rakst ég á það síðar að aðrir stjórnendur Deilingar hafa þó bannað notendur fyrir skoðanir þeirra. Því miður tóku stjórnendur rTorrent Ómar ekki til fyrirmyndar í þessum efnum og ákváðu að eyða spjallþræðinum um greinina, banna greinarhöfund og banna alla áframhaldandi umræðu um málið.

Til að koma aftur að grein Egils (eth), þá eru sanngjarnar pælingar í henni. Einhverra hluta vegna virðist það vera að kosta rosalega mikið að reka BitTorrent vef nú til dags og virtist upphæðin vera síhækkandi miðað við tölur þekktustu vefjanna. Deiling virðist hafa gert þau mistök að gera sér ekki grein fyrir kostnaði sem hækkaði alltof hratt. Mánuðinn áður en tilkynnt var um 160 þúsund króna reikning Deilingar átti hann að hafa verið 120 þúsund. Það er greinilegt að báðar þessar fjárhæðir eru undarlega háar miðað við það sem reksturinn hefði átt að kosta og vekur upp spurningar sem Egill síðan varpaði fram í greininni.

Egill varpar fram þeirri spurningu af hverju enginn hafi tekið eftir slíkri upphæð sérstaklega þar sem stjórnendur hafi átt í vandræðum með að greiða fyrir vélina í hverjum mánuði. Margar tilgátur eru til um það af hverju en í stað þess að svara greininni með því að koma með sína hlið á málinu kemur tilkynning frá Ómari, samin í æðiskasti, um að vefurinn sé að loka og að það sé „hálfvitanum eth“ að kenna. Það voru mistök sem seint er hægt að bæta fyrir.

Í spjallþræði á Deilingu.is, opnuðum „í tilefni“ þessarar tilkynningar, má finna viðbrögð notenda við tilkynningunni. Skiptar skoðanir eru um málið og er fræðandi að lesa hlið notenda á málinu. Eftir langan lestur rakst ég á spjallpóst frá Ómari þar sem hann viðurkennir mistök sín sem er einmitt fyrsta skrefið í átt að því að læra af þeim.

Gangi þér vel, Ómar, og vonandi muntu læra mikið af þeim mistökum sem þú hefur gert.

Með kveðju,
Svavar Kjarrval

14 April 2009

Eins árs afmæli hjá SMÁÍS og fleira

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 07:41

Vil óska SMÁÍS til hamingju með eins árs afmæli nýjustu fréttar þeirra á smais.is. Fréttin ber titilinn Niðurhal í stað DVD til að berjast gegn ræningjum. Það er greinilega lítið að gerast meðal myndrétthafa á Íslandi ef marka má fréttaleysið síðastliðið ár.

Erlendis eru þó hlutir að gerast sem SMÁÍS getur fjallað um:
The Pirate Bay málið,
BBC gefur út nokkra sjónvarpsþætti gegnum BitTorrent,
RadioHead gaf til kynna að þeir myndu bera vitni gegn RIAA.

En þó, það væri ágætt ef að það myndu stöku sinnum birtast almennt jákvæðar fréttir á vef SMÁÍS eins og aðsókn á kvikmynd var framar vonum, samræmd lækkun miðaverðs á kvikmyndir (fyrst það var ekkert mál að framkvæma samræmdar hækkanir) og fleira í þeim dúr. Allar þessar milljónir sem hafa farið í baráttu gegn meintum brotum á höfundalögum hlýtur að hafa skilað einhverju öðru en niðritíma á torrent.is, er það ekki?

Einnig eru um tvær vikur í afmæli Istorrents sem mun þá hafa starfað verið til síðan 1. maí 2005.  Í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um það hvort dómsúrskurðinum verður áfrýjað eða ekki. Hvort vefurinn opnar aftur eða ekki mun líklegast fara eftir þátttöku almennings í þeim kostnaði sem hefur orðið hefur vegna málsins, jafnvel þótt sigur verði fyrir Hæstarétti.

17 March 2009

Frekari fréttir af söfnun

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:13

Til að skrifa það hreint út, þá gengur söfnunin hræðilega. Það er því miður ekki að koma neitt mikið inn að ráði. Staðan er því þannig að það verður líklegast ekkert af áfrýjuninni nema gangur söfnunarinnar breytist verulega til hins betra. Ég er ekki enn tilbúinn til að gefa upp markmiðið á söfnuninni en til að gefa hugmynd um ástandið er óhætt að nefna að það eru ekki einu sinni komin 5% af upphæðinni sem þarf til að gefa grænt ljós á áfrýjun. Auðvitað er ég þakklátur gagnvart þeim sem hafa lagt í púkkið en hingað til hefur það ekki verið nóg til að uppfylla fjáröflunarmarkmiðið.

Þessi ósigur kemur á viðkvæmum tíma í efnahagslífi Íslendinga en það má ekki gleyma því að það má ekki stoppa vörnina gegn þeim er ógna frelsi almennings. En ég get lítið gert í því ef ég hef ekki fjármagnið til að verja ykkur svo að ég neyðist til að sætta mig við þá ákvörðun ykkar að leyfa mér ekki að halda áfram. Þið getið auðvitað skipt um skoðun en sú ákvörðun má helst ekki bíða lengur en þar til í byrjun apríl ef málið á að halda áfram.

Haldi málið ekki áfram er hætta á að samtökin ógni öðrum í beinu framhaldi af því. Ef það er vilji til að fara í mál gegn Istorrent, af hverju ætti ekki að vera slíkur vilji til að fara í mál gegn öðrum aðilum? Sá vilji er líklegast ekki takmarkaður við BitTorrent tæknina eða við íslenska landhelgi. Ég vona að þið gerið ykkur grein fyrir því áður en það verður of seint.

Jafnvel þótt þið getið ekki styrkt með peningum, þá væri ágætt ef þið mynduð henda á mig einni línu á kjarrval@torrent.is og tjáð skoðun ykkar. Get því miður ekki tryggt það að öllum verði svarað en ég mun reyna mitt besta að svara þeim sem sækjast eftir því að fá eitt.

Gangi ykkur vel,
Svavar Kjarrval

7 February 2009

Söfnun

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 04:32

Málið er komið á þann farveg að hafa upplifað dóm sem var ekki í hag Istorrents og er ekki hægt að neita því að hann var slæmur. Sumir eru samt að tilkynna að málinu sé lokið og allir ættu að snúa sér að öðru. Peningarnir eru samt af skornum skammti og er hætta á því að ekki verði farið lengra með það vegna fjárskorts. Því tel ég mikilvægt að þeir sem vilja fara með málið fyrir Hæstarétt styrki baráttuna um eins mikið og þeir geta látið frá sér.

Ég get hálfpartinn lofað því að málið mun ekki stoppa eftir að Istorrent hefur verið rutt úr vegi og það mun varla þýða að „fara bara eitthvað annað“. Þetta mál snertir ekki eingöngu Istorrent heldur einnig rekstur vefþjónusta almennt. Sé dómurinn látinn standa óáreittur mun það líklegast kosta ýmsa aðila háar fjárhæðir að verjast dómkröfum rétthafasamtakanna sem munu ella vísa í þennan dóm sem fordæmi. Á þetta við hvort sem sú starfsemi sé talin lögmæt eða ekki.

Ég tel að það séu góðir möguleikar á að málið geti endað með sigri Istorrents í Hæstarétti ef það fær tækifæri til þess. En vegna fyrrnefnds fjárskorts er líklegt að það komist ekki þangað nema það safnist nóg í sjóðinn. Neita því ekki að það mun kosta mikið en ég get ekki gefið lögmönnum Istorrents grænt ljós á áfrýjun fyrr en takmarkinu er náð. Það er einnig möguleiki á að málið tapist fyrir Hæstarétti en einn tilgangur söfnunarinnar er að gera stöðuna ekki verri fyrir Istorrent ef slíkt gerðist.

Til að forðast umræður eins og „Allir notendur gefa bara X kr. og þá er hægt að ná því“ mun ég ekki tjá mig um það opinberlega hvert takmarkið er. Gerð er fullkomin grein fyrir því að efnahagurinn er ekki í góðu formi þessa stundina en við vonum að það komi ekki í veg fyrir að væntanlegir velunnarar geti styrkt. Jafnvel millifærslur upp á nokkrar krónur gætu skipt máli. Þær eru þess virði þegar á endann er komið.

Frestur til að áfrýja frá því að úrskurður hefur verið kveðinn upp er 3 mánuðir. Til að lögmenn Istorrents fái nægan tíma til að undirbúa málið þarf takmarkinu er vera náð í upphafi aprílmánaðar. Að öðrum kosti mun ég neyðast til að stöðva rekstur þess. Ef það gerist fer sú upphæð sem komin er í að bæta upp fyrir þann lögfræðikostnað sem þegar hefur farið í rekstur málsins.

Til að styrkja:
Bankareikningur 0327-13-003120
Kennitala 071183-2119
IBAN númer: IS79 0327 1300 3120 0711 8321 19

Öllum er velkomið að styrkja (og það er ekki ólöglegt að gera það). Við tökum jafnvel við ölmusum frá rétthafasamtökum.

4 February 2009

Úrskurður héraðsdóms

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:49

Héraðsdómur hefur kveðið upp úrskurð í málinu. Dómsorðin eru svohljóðandi:

„Lögbann, sem stefnandi, Samtök tónskálda og eigenda flutningsréttar, fékk 19. nóvember 2007 lagt við því að stefndu, Istorrent ehf. og Svavar Lúthersson, starfræki vefsíðuna www.torrent.is sem gerir notendum hennar kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis höfundarréttarvörðu hljóð- og myndefni sem umbjóðendur stefnanda eru rétthafar að, er staðfest.

Viðurkennd er bótaskylda stefndu gagnvart stefnanda.

Stefndu eru sýknaðir af framangreindri bannkröfu stefnanda.

Kröfum stefndu um skaðabætur úr hendi stefnanda er hafnað.

Stefndu greiði óskipt stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.“

Í meginatriðum þýðir þetta að lögbannið var staðfest af hálfu héraðsdóms. Áætlað er að fara með málið til Hæstaréttar. Ég hef ekki litið yfir rökstuðninginn svo ég get ekki komið með yfirlýsingar um úrskurðinn í heild á þessari stundu fyrir utan að ég er ánægður með sýknuna vegna bannkröfunnar.

Dómurinn er aðgengilegur á vef héraðsdóms, domstolar.is, nánar tiltekið á http://domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E200801398&Domur=3&type=1&Serial=2

3 February 2009

Úrskurður á morgun

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 10:28

Kveðinn verður upp úrskurður í Istorrent málinu fyrir Héraðsdómi Reykjaness á morgun, miðvikudaginn 4. febrúar, kl. 8:55 í sal 3. Um er að ræða opið þinghald svo almenningi er velkomið að mæta. Þetta mun þó bara taka um 5 mínútur. Niðurstaða þess fyrir héraðsdómi verður tilkynnt hér á Istorrent blogginu.

Á morgun munu 4 vikur, upp á dag, vera liðnar frá því málið var flutt munnlega. Þessi töf gefur til kynna að hver sem niðurstaðan verður, þá var hún ekki augljós fyrir dómendum í málinu í upphafi þess.

8 January 2009

Aðalmeðferð 7. janúar – ágrip

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 06:05

Í gær var aðalmeðferð í 2. umferð Istorrent-málsins fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Þrátt fyrir yfirlýsingu Snæbjarnar í Fréttablaðinu daginn áður, þá var þetta ekki í fyrsta sinn sem tekið er á höfundarréttarlegum þætti málsins því það var einnig gert í aðalmeðferð 1. umferðar málsins. Sumir hafa ranga mynd af íslensku réttarfari og halda að skorið sé úr málinu á staðnum strax eftir málflutning en þannig virkar það ekki.

Dagskráin var þannig að réttarhöldin ættu að byrja kl. 10:30 og vera til 15:30 en því miður lauk þeim ekki fyrr en kl. fjögur. Einhverra hluta vegna ákvað Hróbjartur að hafa aðstoðarmann með sér en einhver þarf að bera öll þessi skjöl. Ef þau voru eitthvað í líkindum við þau sem við höfðum, þá hefðu þau eiginlega fyllt heila skjalatösku.

Ekki er hægt að tryggja að allt sem hér fer fram sé rétt munað eða í réttri röð þótt leitast er til þess að hafa allt rétt. Þrátt fyrir að glósur séu skrifaðar niður á meðan atburðir gerast er sömuleiðis ekki hægt að tryggja að allt sem skiptir máli hafi verið skráð niður. Einnig ber að geta að þær eru ritaðar af einum stefndu í málinu og ber að taka þeim með þeim fyrirvara að ekki sé um hlutlaus skrif að ræða.

Hróbjartur Jónatansson (HJ) flytur málið fyrir hönd STEF.
Fróði Steingrímsson (FS) flytur málið fyrir hönd Istorrents og Svavars.

Styttingar:
Lög 30/2002 = Lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.
Stefndu = Svavar Lúthersson og Istorrent ehf.

Gróflega var dagurinn svona
Lögmenn gera stutta grein fyrir málinu.
Tekin skýrsla af Svavari.
Páll Óskar ber vitni.
Hlé
Lögmaður stefnenda (HJ) flytur mál þeirra munnlega.
Lögmaður stefndu (FS)  flytur vörn.
HJ flytur andsvör.
FS flytur andsvör.
Málið er dómtekið og dómþingi slitið.

Nákvæmari útlistun
Þing var sett kl. 10:30.
Hróbjartur Jónatansson (HJ) gerir stutta grein fyrir málinu.
– Afhendir bókun um breyttar dómkröfur. Hún fól í sér niðurfellingu á aðalviðurkenningarkröfunni í málinu.
Fróði Steingrímsson (FS) gerir stutta grein fyrir málinu.

Stefndi Svavar ber vitni.
– FS spyr hann hver tilgangur vefsins var, hverjir höfðu aðgang, um skilmála, leiðir höfunda til að fá fjarlægt efni og bréf rétthafasamtakanna.
– HJ spyr hann um hlutverk sitt í starfsemi torrent.is, hýsingarstað efnisins, vitneskju hans um það sem gerðist á vefnum, bréf rétthafasamtakanna og hvað hann gerði í kjölfar þess.

Páll Óskar ber vitni.
– Segist vera meðlimur í STEF.
– Fer út í bréfið sem hann sendi til Svavars og samskiptin þar á eftir.

Hlé frá um 11:48 til 12:30.

HJ flytur málið munnlega:
– Búið að tálga af óvissu á ýmsum þáttum málsins.
– Umboð STEF frá menntamálaráðuneytinu og málsóknarumboð.
– Höfundur einn getur ráðstafað rétti sínum.
– Hafa menn rétt á að dreifa verkum í gegnum netið?
– Eintakagerð skilgreind.
– Ferli STEF við samningagerð. Samið upp á eintakagerð og flutningsrétt.
– Þáttur Istorrents í milligöngu í skráarskiptum.
– Umfang skráardeilinga með efni rétthafa í STEF.
– Hvernig „music cuesheet“ virka. STEF fær eintak frá erlendum aðilum.
– Umfang brota svo mikið að ekki tók því að senda tilkynningar um einstök verk.
– Ósamræmi í gögnum stefndu.
– Sönnunarkrafa um meint brot.
– Öfug sönnunarbyrði sbr. 8. gr. höfundalaga.
– Sýknukrafa gengur ekki upp.
– Vefurinn forsenda fyrir því að innbyrðis dreifing sé möguleg.
– Háttsemi stefndu leiddi til tjóns.
– Eðli verknaðarins leiðir líkur að tjóni.
– Svavari átti að vera ljóst að það yrði tjón.
– Skilmálar frýja ekki undan ábyrgð.
– Tjónþoli geti krafið hvaða þátttakanda sem er um bætur.
– Lög 30/2002. Skilyrði að greitt sé fyrir viðk. þjónustu. Telur að ábyrgðarleysi eigi ekki við.
– Gott og gilt að efni Páls Óskars var tekið út.
– Danskur dómur um bann við aðgengi að The Pirate Bay.
– Mótmæla bótakröfu efnislega og tölulega.
– Þáttur Svavars í málinu.
– Leggur málið fyrir dóm.

FS flytur vörn munnlega:
– Krefst sýknu af öllum kröfum. Einnig er krafist bóta og málskostnaðar.
– Notendur ekki valdir af stefnendum.
– Eðli skráarskipta – fara á milli tveggja notenda.
– Ábyrgð notenda að afla nauðsynlegra leyfa.
– Leyfðu notendum að nota vefsvæðið.
– Mikið af efni á netinu sem höfundar hafa dreift með þeim tilgangi að því sé dreift frítt.
– Vísar í vitnisburð Páls Óskars um að farið var eftir beiðni hans um að fjarlægja efni.
– Stefndu ekki sakaðir um beina þátttöku.
– Dómskjal 203, whois uppfletting frá ISNIC sem sýnir að rétthafi lénsins er Istorrent ehf.
– Lög eigi ekki að hafa fælingaráhrif.
– Af hverju stefna rétthafar ekki stefndu sjálfir?
– Gögn sýna ekki að dreifing fór fram.
– Gildissvið höfundalaga.
– Bandaríkin hafa ekki staðfest (innskot – Hann meinti fullgilt) Bernarsáttmálann eða aðra alþjóðlega sáttmála um höfundarrétt sem Ísland hefur samþykkt.
– Napster.no dómur. Tekist á við það að vísa í gegnum hlekk á efni á öðrum stað. Fallist á sekt vegna meðvirkni. Sérstök ákvæði eru um meðvirkni/hlutdeild í norsku höfundalögunum.
– Danski dómurinn um The Pirate Bay. Einnig ákvæði í dönsku höfundalögunum um hlutdeild.
– Finreactor dómurinn.
– Lög 30/2002 og að hvaða leiti þau gildi. Rán Tryggvadóttir er sammála um að torrent síður teljist sem þjónustuveitandi.
– Fer í 15. gr. sömu laga og lagaskýringagögn.
– Fer í lagaskýringagögn fyrir 5. kafla laganna.
– Í bréfi rétthafasamtakanna frá október 2006 var eingöngu beðið um að loka vefnum en ekki beiðni um að fjarlægja efni.
– Hlutdeild er eingöngu í refsirétti og ekki notað í einkamálum. Væri hægt að stefna fyrir hlutdeild vegna brota á lögum um grunnskóla?
– Almenn sakaregla skaðabótaréttar – Ekki nefnt í stefnu.
– Niðurfelling aðalviðurkenningarkröfunnar og lögbannið.
– Stefnendur þurfa að sýna fram á tjón.
– Hvert niðurhal þarf ekki að þýða töpuð sala.
– Til hverra renna skaðabæturnar?
– Útreikningum samtakanna á meintu tjóni þeirra mótmælt.
– Breyttar dómkröfur – lögbannskröfur.
– 24. gr. lögbannslaga.
– Krafa um skaðabætur.
– Leggur málið fyrir dóm með fyrirvara.

HJ flytur andsvar:
– Krafa gegn Svavari. Starfræktu vefsvæðið saman. Athafnir Svavars brot á hagsmunum STEF.
– Mótmæla aðildarskorti vegna notenda sem óframkomnum.
– Gildissvið höfundalaga og Bandaríkin. Fordæmi liggi fyrir.
– Skaðabótaábyrgð.
– Þegjandi hlutdeild átti sér stað.
– Líkir við að stela úr búð og kæra eigandann um að geta ekki selt hlutinn.
– Höfundalög hafi forgang yfir lög 30/2002 í svona tilfellum.
– – Rétthafasamtök eigi ekki að standa í stórfelldu eftirliti.
– Lögbannskrafan snýst eingöngu um bann á rekstri vegna meintra brota notenda. Lénið megi áfram nota til annarra verka.
– Hvernig löglegt skráarskiptafélag á að virka.
– Ábyrgðarleysisávkæði laga 30/2002 gilda ekki ef það eru afskipti af samfélaginu.
– Öfug sönnunarbyrði.

FS flytur andsvar:
– Vefsvæðið er í eigu Istorrents ehf.
– Er ljósritunarstofa sek um möguleg brot starfsmanns?
– Hægt að fá dómsúrskurð til að fá IP tölurnar afhentar.
– Ítrekar að hlutdeild er hugtak í refsirétti.
– Þetta væri ekki eins og að stela úr búð. Afritun felur ekki í sér eyðingu frumeintaks.
– Var ekki haldið fram að höfundalögin eigi ekki við.
– 14. gr. laga 30/2002 og töluliður um lögbann.
– Framkvæmt lögbanns. Verður að vera möguleiki að verða við lögbanninu. Ekki hægt að búast við því að stefndu yrðu að fara yfir allt efnið sjálfir og meta hvort það brjóti í bága við lögbannið eða ekki.
– Öfugri sönnunarbyrði er mótmælt.
– Leggur málið fyrir dóm.

Málið er dómtekið, kallað yrði til dómþings þegar úrskurður liggur fyrir.
Dómþingi slitið um kl. 16:00.

6 January 2009

Breytt tímasetning á morgun

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 12:08

Tímasetningu réttarhaldanna á morgun, 7. janúar, hefur verið breytt. Dagskránni var seinkað um 90 mínútur og ættu því réttarhöldin að vera í gangi frá klukkan 10:30 og til 15:30 (fyrir utan hádegishlé).

Eins og áður var getið verður gefið út ágrip af atburðum dagsins þegar það verður tilbúið.

1 January 2009

Nýtt ár

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 12:00

Gleðilegt nýtt ár og megi það færa okkur sigur gagnvart ákveðnum samtökum.

22 November 2008

Aðalmeðferð fyrir héraðsdómi í janúar

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 12:48

Miðvikudaginn 7. janúar á hinu nýja ári mun vera aðalmeðferð í 2. umferð Istorrent-málsins. Þingið er í sal 1 og hefst kl. 9:00 og verður til kl. 14:00 (áætlað). Um er að ræða opið þinghald sem þýðir að almenningur er velkominn í salinn á meðan pláss leyfir. Eftir það mun dómari ásamt meðdómendum ígrunda málavexti og kveða upp dóm þegar niðurstaða liggur fyrir (líklegast ekki samdægurs).

VARÚÐ: Mun innihalda mikið lögfræðiblaður.

« Newer PostsOlder Posts »

Powered by WordPress