Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

18 April 2009

Bráðleg lokun The Viking Bay

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 09:25

Birt var tilkynning á forsíðu The Viking Bay (www.thevikingbay.org) – hér eftir nefnd Deiling.is til að rugla henni ekki saman við gömlu The Viking Bay – þar sem tilkynnt var um lokun vefsins. Eigandi vefsins, Ómar Daði Sigurðsson, ákvað að loka henni stuttu eftir að grein var opinberuð þar sem traust hans til að reka BitTorrent vefi var dregið í efa. Í umræðum um greinina má sjá að það eru margir sem voru sammála því sem stóð í henni.

Greinin sjálf (Aðgengileg hér) virðist vera sanngjarnlega sett upp og hlutir rökstuddir þar sem á við. Ég verð að játa að ég þekki til greinarhöfundar og veit til þess að hann er stuðningsmaður jafningjaneta. Í greininni kastar hann fram nokkrum spurningum er varða rekstur Ómars á BitTorrent vefjum og lítið við það að athuga þar sem um er að ræða skoðun höfundar. Það eru hins vegar viðbrögð Ómars sem hjálpuðu ekkert málstað hans.

Áður en ég fer út í mistök Deilingar.is og aðstandenda þeirra verð ég að játa að ég hef einnig gert ýmis mistök á ævi minni eins og margir aðrir en þó ekki nákvæmlega sömu mistök og um er að ræða hér. Mistök eru til að læra af þeim í þeirri von að þau séu ekki endurtekin. Það mætti því segja að þessi grein sé til áminningar svo hægt sé að greina og mögulega læra af mistökunum eftir því sem á við.

Stærstu mistökin sem voru gerð má rekja til yfirlýsingar Ómars sem birtist á forsíðu Deilingar þar sem hann lýsir andstyggð á notendur vefsins. Einnig var sama texta dreift í gegnum einkaskilaboð til allra notenda vefsins. Þau mistök voru afleiðingar nokkurra smærri mistaka:

* Fyrst og fremst á ekki að gefa út yfirlýsingar og senda út þegar maður er í æðiskasti. Margir munu túlka texta saminn í slíku skapi sem innantómt væl og munu líklegast safnast saman á móti textahöfundi en með honum. Í það minnsta ætti viðkomandi að bíða þangað til hann er í léttara skapi og fara síðan yfir textann áður en hann er sendur út.

* Í öðru lagi borgar sig alltaf að lesa yfir það sem á að senda út a.m.k. einu sinni eftir að textinn er saminn til að tryggja að hann sé skýr og í raun og veru það sem textahöfundur ætlaði að tjá. Það var greinilegt á textanum að framtíð vefsins var ákveðin á meðan hann var skrifaður og hafa þeir sem lesa textann mismunandi skilning á innihaldi hans eftir því hvað þeir lásu mikið af honum. Þess vegna skiptir miklu máli að lesa yfir og sjá til þess að allir hlutar textans endurspegli heildina.

* Í þriðja lagi skiptir markhópurinn miklu máli. Það á ekki að gera ráð fyrir því að allir notendur fylgist grannt með því sem er að gerast og séu á nótunum í öllu. Margir munu koma af fjöllum og eini skilningur þeirra á málinu er það sem stendur í textanum. Í umræðunni um textann mátti sjá að sumir notendur vissu ekkert um málið og fengu allt í einu skilaboð þar sem lýst var andstyggð á þá.

Síðan má nefna að það eru alltaf einhverjir sem gagnrýna mann og er þá sérstaklega mikilvægt að láta það ekki á sig fá en athuga þó hvort að hún eigi rétt á sér. Ef svo er, þá borgar sig að leiðrétta mistökin eftir því sem á við. Þegar maður rekur svona stórt samfélag munu allar ákvarðanir manns vera gagnrýndar þar sem ólíklegra er að komast á mót við alla sem þar eru. Því þarf að velja og hafna.

En til að koma með jákvæðu hliðina, þá voru nokkur mistök sem voru ekki gerð – sem betur fer. Það var mjög vel gert hjá Ómari að eyða ekki út þeim notendur sem voru með andstæðar skoðanir. Það sýnir mikinn þroska og virðingu að reka ekki andstæðingana í burtu þegar þeir koma með skoðanir sem eru gegn manns eigin. Það sama gildir um að eyða ekki þeim spjallþráðum og spjallpóstum sem innihalda téðar skoðanir. Það eina sem skyggði á þetta voru hin mistök Ómars. Því miður rakst ég á það síðar að aðrir stjórnendur Deilingar hafa þó bannað notendur fyrir skoðanir þeirra. Því miður tóku stjórnendur rTorrent Ómar ekki til fyrirmyndar í þessum efnum og ákváðu að eyða spjallþræðinum um greinina, banna greinarhöfund og banna alla áframhaldandi umræðu um málið.

Til að koma aftur að grein Egils (eth), þá eru sanngjarnar pælingar í henni. Einhverra hluta vegna virðist það vera að kosta rosalega mikið að reka BitTorrent vef nú til dags og virtist upphæðin vera síhækkandi miðað við tölur þekktustu vefjanna. Deiling virðist hafa gert þau mistök að gera sér ekki grein fyrir kostnaði sem hækkaði alltof hratt. Mánuðinn áður en tilkynnt var um 160 þúsund króna reikning Deilingar átti hann að hafa verið 120 þúsund. Það er greinilegt að báðar þessar fjárhæðir eru undarlega háar miðað við það sem reksturinn hefði átt að kosta og vekur upp spurningar sem Egill síðan varpaði fram í greininni.

Egill varpar fram þeirri spurningu af hverju enginn hafi tekið eftir slíkri upphæð sérstaklega þar sem stjórnendur hafi átt í vandræðum með að greiða fyrir vélina í hverjum mánuði. Margar tilgátur eru til um það af hverju en í stað þess að svara greininni með því að koma með sína hlið á málinu kemur tilkynning frá Ómari, samin í æðiskasti, um að vefurinn sé að loka og að það sé „hálfvitanum eth“ að kenna. Það voru mistök sem seint er hægt að bæta fyrir.

Í spjallþræði á Deilingu.is, opnuðum „í tilefni“ þessarar tilkynningar, má finna viðbrögð notenda við tilkynningunni. Skiptar skoðanir eru um málið og er fræðandi að lesa hlið notenda á málinu. Eftir langan lestur rakst ég á spjallpóst frá Ómari þar sem hann viðurkennir mistök sín sem er einmitt fyrsta skrefið í átt að því að læra af þeim.

Gangi þér vel, Ómar, og vonandi muntu læra mikið af þeim mistökum sem þú hefur gert.

Með kveðju,
Svavar Kjarrval

4 Comments »

  1. ,,Það var mjög vel gert hjá Ómari að eyða ekki út þeim notendur sem voru með andstæðar skoðanir. Það sýnir mikinn þroska og virðingu að reka ekki andstæðingana í burtu þegar þeir koma með skoðanir sem eru gegn manns eigin”
    það er ekki rétt hann bannaði mig fyrir að pósta link á eitthvað irc samtal með honum einu sinni og hann eyddi þræðinum

    Comment by fimman — 22 April 2009 @ 09:35

  2. Þetta var um það tilvik sem um er að ræða núna en ekki önnur. En annars er réttlætanlegt að eyða IRC samtölum ef um var að ræða private message. Einkasamtöl eru *einka*. Ef samtalið fór fram á opinni rás, þá er það annað mál.

    Comment by Svavar Kjarrval — 23 April 2009 @ 02:43

  3. Komdu sæll Svavar og takk fyrir þennan póst! Hann veitir mér styrk.

    Að sjálfsögðu gerir maður mistök í lífinu án þeirra væri maður ekki heilbrigður, en mistökin sem ég hef gert eru mörg og of mörg til þess að vera satt, en burt sé frá því, jú ég kenni ETH um allt þarna og það eru mistökin sem ég geri aðallega í þessum pósti sem ég skrifa í brjálæðiskasti og birti það á forsíðu ásamt því að hafa sent það í pósti til allra einstaklinga. Eins og Fimman segir hér fyrir ofan að ég hafi bannað þann notanda á vefnum þá er það ekki rétt þann dag sem þetta atvik átti sér stað bannaði ég engan því ég lét mig hafa það að lesa alla þá pósta sem sem allir höfðu á móti mér “Faceaþað” sem ég gerði ég held ég hafi bannað einn notanda sem sendi mér í einkaskilaboðum einhverja drullu en hann fékk að lokum “unban” af vefsíðunni þegar hann sendi mér email með afsökunarbréfi, ég get ekki talið það á báðum höndum hvað ég hef fengið mörg email með hrósum og þakklætisvottum frá notendum en það er bara viss prósenta af vefnum sem er á móti mér, hinir standa með mér, og afgangurinn skilur hvorki upp né niður hvað er í gangi og er þannig séð hlutlaust, mest af þessu fólki sem særir blíðgrunarkennd mína er fólk sem dæmir mig áður en það kynnist mér en ég er ekki að segja að það séu allir, þetta er fólk sem trúir öllu sem því er sagt og gætir alveg eins sagt að Jólasveinninn væri til(Afsakið ef þú vissir það ekki :]).

    En ég get ekki sagt að ég sé breyttur maður í dag en ég get sagt það að ég er að rífa mig upp úr þessu kjaftæði sem ég hef undafarin ár verið í.

    Róm var ekki byggð á einni nóttu. 🙂

    En megin ástæða mín af hverju TheVikingBay.org lokar vegna vantraustar notenda að geta ekki trúað því sem við segjum, þó svo að ég persónulega ég sjálfur segi stundum vitlaust frá hlutunum eða skýri þá ekki nógu vel og þá kemur svona pirringur í fólk eins og þetta væri alger lygasaga sem í rauninni er ekki, þó ég mistjái mig um það 🙂 en allt í góðu, ég er ekki að reyna að skapa eitthver leiðindi því ég er ekki svoleiðis þó það sé ávalt í kringum mig.

    En það sem ég á ósagt er að ég ætla hér með að biðja alla þá afsökunar sem eiga það inni hjá mér og ég veit innst inni að það eru margir.

    Og Eth afsakaðu að ég lét þetta allt bitna á þér.

    Takk fyrir þennan frábæra póst Svavar hann lætur mann hugsa sig vel um.

    Comment by Thorvaldsen — 30 April 2009 @ 05:05

  4. “Því miður tóku stjórnendur rTorrent Ómar ekki til fyrirmyndar í þessum efnum og ákváðu að eyða spjallþræðinum um greinina, banna greinarhöfund og banna alla áframhaldandi umræðu um málið.”

    Þetta var að ósk TVB manna. 🙂

    Comment by IceFox — 4 May 2009 @ 10:43

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

You must be logged in to post a comment.

Powered by WordPress