Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

13 August 2008

Frávísunarkrafa tekin fyrir

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 01:09

Föstudaginn 22. ágúst kl. 13:15 í sal 2 í Héraðsdómi Reykjaness mun vera munnlegur málflutningur vegna frávísunarkröfu okkar í 2. umferð Istorrent-málsins. Ef frávísunarkrafan verður samþykkt má búast við því að þetta verði seinasti málflutningurinn í málinu. Það verður opið þinghald svo þeir sem vilja geta komið við og orðið vitni að því sem kemur fram – skemmtun ekki tryggð.

Málið á sér rætur að rekja til lögbanns sem sett var á aðstandendur vefsins torrent.is þann 19. nóvember síðastliðinn og hefur verið í gildi síðan þá. Hæstiréttur lauk fyrri umferð málsins 8. maí sl. með úrskurð í okkar hag. Lagaheimild var fyrir því að hefja nýtt staðfestingarmál sem var síðan gert. Lögbannið er því enn í gildi á meðan leyst verður úr þessum hluta málsins.

Alveg eins og spáð var með fyrri umferðina, þá er nær gulltryggt að sá sem tapar málinu fyrir héraðsdómi mun áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar. Tómas Jónsson hrl. mun flytja málið af okkar hálfu en Hróbjartur Jónatansson hrl. fyrir hönd STEF. Nánari upplýsingar um greinargerð okkar fyrir 2. umferð munu vera gefnar út þegar líður á næstu viku.

10 July 2008

Er SMÁÍS að fara í kringum lögin?

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:17

Nú er drykklöng stund liðin frá því að fréttir komu á yfirborðið um að Unnar Geir, talsmaður TheVikingBay.org (TVB), hafi komist yfir upplýsingar frá SMÁÍS með klækjum. Ákveðið var að bíða aðeins með að blogga um atburðinn til að sjá hvernig málin myndu þróast eftir að það var fyrst gert opinbert. Einhverra hluta vegna hafa frekari tíðindi ekki borist af samskiptum þeirra, hvorki af hálfu SMÁÍS né Unnari. TVB-fólkið gaf til kynna að það ætlaði að leggja fram opinbera kæru en ekki hefur verið staðfest að hún hafi í raun verið lögð fram eða samin þegar farið er út í þá sálma.

Að sögn Unnars komst hann yfir upplýsingarnar með því að fara til SMÁÍS þykjast ætla að gerast uppljóstrari fyrir samtökin og bauðst meira að segja til þess að bera vitni fyrir þeirra hönd. Yfir nokkurra mánaða tímabil fór hann nokkrum sinnum á fund til Snæbjarnar Steingrímssonar og gaf upp hluti sem voru augljósir eða hreinlega bjó til upplýsingar. Þá greip hann tækifærið og fræddist meira um SMÁÍS og það sem þeir vissu um TVB.

Seinasti fundurinn með SMÁÍS átti víst að vera sá merkilegasti og ákvað hann í kjölfarið á honum að svipta af sér hulunni og opinbera blekkingar sínar gagnvart SMÁÍS. Fjórir aðilar eiga að hafa verið á fundinum: Unnar sjálfur, Snæbjörn Steingrímsson, Ásgeir Stefán Ásgeirsson og einn óþekktur aðili. Unnari á að hafa verið sýnd mappa sem geymdi þúsundir klipptra skjáskota af TVB og þar á meðal upplýsingar sem eingöngu stjórnendur vefsins áttu að hafa aðgengi að. Unnar spurði þá hvaðan þeir fengu þessar upplýsingar og sagði óþekkti aðilinn að maður getur gert allt á netinu en bætti við að þeir ættu ekkert að spá í það hvaðan upplýsingarnar komu. Unnar heldur því fram að rannsóknarteymið hafi notfært sér kerfisgalla eða brotist inn í kerfið til að koma höndum yfir þessar upplýsingar.

Miðað við hvað hefur komið fram á að vera fyrirhafnarmikil rannsókn í framkvæmd af hálfu SMÁÍS gagnvart TVB og stjórnendum þess. Ásgeir á að hafa sagt að hann hafi 15 manns í vinnu við að safna upplýsingum um vefinn og stjórnendur hans þó það sé efasamt að þessir einstaklingar séu í fullri vinnu við það. Aðspurður segist Unnar ekki hafa vitneskju um að álíka rannsókn hafi farið fram vegna Istorrent. Afrakstur rannsóknarinnar á TVB á að fara í opinbera kæru gegn TVB og virðist því ekki vera á áætlun að hefja einkamál eins og þeir gerðu gegn Istorrent. Ekki hefur verið staðfest að SMÁÍS hafi lagt fram opinbera kæru gegn TVB á þessari stundu.

Eitt það áhugaverðasta í frásögn Unnars var tilvitnun hans í Snæbjörn á seinasta fundinum. Snæbjörn á þá að hafa sagt að það skipti engu máli hvort þeir hafi rétt fyrir sér eða ekki þar sem þeir geta gert fólk gjaldþrota. Slíkur hugsanaháttur er mjög hættulegur og minnkar traust á réttarkerfinu og sérstaklega á þeim sem beita slíkum bellibrögðum.

Ásgeir
Ég ákvað að sjá hvað Ásgeir var að bralla á torrent.is og sá innan nokkurra mínútna undir hvaða notendanöfnum hann gekk. Hann er greinilega ekki sá besti í heiminum að fela það hver hann er á netinu. Þá var ákveðið að skoða hvað hann hefur verið að skrifa á spjallborðinu og var rekist á áhugaverðan hlut. Yfir feril sinn hefur hann verið að reyna að hvetja stjórnendur til að halda vefinum lengur uppi, meðal annars með yfirlýsingum um að það sé ekkert ólöglegt við hann (sem er rétt). Hins vegar mátti finna í framlögðum skýrslum SMÁÍS sömdum af „þriðja aðila“, sem var í raun og veru Ásgeir sjálfur, þar sem komu fram yfirlýsingar um að vefurinn sé ólöglegur. Þetta er sérstaklega áhugavert miðað við að hann sýnist hafa deilt terabætum af gögnum með tilstilli torrent.is og átti sér því stað í topp 50 listanum yfir þá sem höfðu deilt mesta magninu. Voru þessar hvatningar og yfirlýsingar á spjallborðinu í samráði við SMÁÍS eða liggur eitthvað annað að baki? Til að fá svar við þessari spurningu þarf að spyrja Ásgeir eða SMÁÍS.

Þegar kafað er dýpra í þær upplýsingar sem liggja um lögfræðikunnáttu hans, þá er hún ekkert sérstaklega góð sem dregur í efa hæfi hans til að koma með lögfræðilegar yfirlýsingar sem byggja á sterkum grunni. Þegar hann og Ómar Daði þekktust var síðarnefndi að stofna vefhýsingarþjónustuna Góða hugmynd ehf. og nefndi við mig að þeir sem rækju svona þjónustu yrðu að hafa fjarskiptaleyfi til að mega reka hana. Ég spurði hann hver nefndi þetta við hann og var það hinn eini sanni Ásgeir. Eftir að hafa rannsakað þetta sjálfur og með einu símtali við Póst- og Fjarskiptastofnun staðfesti ég að það var bull. Vanþekking Ásgeirs á fjarskiptalögum olli því að Ómar Daði sótti um og fékk sér fjarskiptaleyfi í erindisleysu.

Annað dæmi sem hægt er að taka er klausan neðst á vef Umbra Systems, fyrirtæki sem hann setti á fót. Á vef fyrirtækisins, u.is, stendur neðst „All material on this website is owned by Umbra systems – All copying or quoting is forbidden without written permisson of behalf of the owners.“ Þeir sem þekkja anda höfundalaganna og hafa lesið viðeigandi greinar laganna ættu að vita að það er ekki hægt að banna tilvitnanir alveg. Ástæðan fyrir því að þessi tilvitnun er hér í greininni, fullkomlega löglega, er vegna hugtaks sem kallast ‘sanngjörn notkun’ (e. fair use/fair dealings) en sá sem skrifaði klausuna var greinilega ekki með það í huga á sínum tíma. Ætli skilmálar smais.is vefsins hafi verið fyrirmyndin? Þótt að slík fyrirmæli megi finna á vefsíðum þarf ekki að þýða sjálfkrafa að það sé brot á lögum að fara ekki eftir þeim.

Þrátt fyrir þessi augljósu vanþekkingu var hann að ýja að því á spjallborði torrent.is að lesa ekki eina línu af lögunum eingöngu heldur túlka lögin í heild. Svo virðist vera að Ásgeir sé sekari um það en ég og hefur hann sjálfur útvegað þær sannanir sem þarf til að staðfesta það. Af lagalegum ástæðum get ég ekki farið nánar út í skrif hans á spjallborðinu.

Þetta minnti mig á málþingið í Háskólanum í Reykjavík sem var 26. apríl 2007. Þar var Snæbjörn með það mikla lagaþvælu (réttnefni) í erindi sínu að mér blöskraði. Því miður fékk ég ekki færi á að leiðrétta hann þar sem hann flutti sitt erindi á eftir mér og eftir á var varpað mörgum spurningum til okkar frá salnum. Í erindinu nefndi hann að fyrst að torrent.is beiti fyrir sér lögum um rafræn viðskipti og rafræna þjónustu (lög 30/2002) um tilkynningar um óleyfilega dreyfingu, þá sé starfsemi hans bundin fjarskiptalögum og þurfi því þar af leiðandi að skrá alla umferð notenda og geyma þær upplýsingar í 6 mánuði. Hefði hann vitað meira um hvernig BitTorrent virkar eða skilið fjarskiptalögin betur á þeim tíma hefði hann aldrei nefnt þetta. Ætli Ásgeir hafi komið með nokkra lagalega punkta fyrir Snæbjörn?

Samkvæmt því sem ég hef frétt er Ásgeir núna launamaður hjá SMÁÍS og skv. ofangreindu felst starf hans í því að safna upplýsingum um jafningjanet á Íslandi en ekki liggur fyrir hvaða aðferðum hann beitir við þá upplýsingaöflun. Fyrstu samskipti hans við SMÁÍS (sem ég veit um) hófust árið 2003 þegar hann leitaði til þeirra vegna DC-tengipunkta á Íslandi og meint brot þeirra á höfundalögum. Ástæðan er ekki á hreinu en heimildir herma að fyrirtæki hans, Ljóshraði, hýsti DC-tengipunkt um tíma og sumir eru að spá hvort hann hafi leitað til SMÁÍS vegna afbrýðissemi út í hina tengipunktana og/eða til að reyna að afla meiri tekna. Hvort SMÁÍS hafi vitað af þessum tengipunkti eða ekki er ágætis ráðgáta sem ég efast um að verði svarað opinberlega. Eftir „verktakavinnuna“ hefur hann haft tekjur af því að vinna beint og óbeint fyrir SMÁÍS. Sérsvið hans í nánustu framtíð verður líklegast að inna af hendi vinnu fyrir rétthafasamtök því ég efast um að hann fái vinnu annars staðar.

20 June 2008

Auglýsing frá Bónusvídeó

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 04:02

Ábendingar hafa borist um útvarpsauglýsingar frá Bónusvídeó sem hafa a.m.k. verið á FM 957 og Gullbylgjunni. Það tilkynnist hér með að notkun nafns Svavars Lútherssonar í auglýsingunni fór fram án þess að haft hafi verið samband við hann áður. Notkunin er því í leyfisleysi.

Ekki hefur verið ákveðið hver viðbrögð við auglýsingunni verða á þessu stigi málsins.

Nánar um málið á kjarrval.is.

—-

Viðbót 24. júní 2008
Færslan á kjarrval.is hefur verið uppfærð með tíðindum úr málinu. Í stuttu máli greinir hún frá því að auglýsingin er ekki lengur í birtingu og engin ástæða er til að aðhafast neitt frekar í málinu.

25 May 2008

Stefnan komin í okkar hendur

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 08:58

Eftir að hafa skoðað stefnuna í hinu nýja staðfestingarmáli er greinilegt að einhverjar breytingar hafa orðið á málinu frá því seinast. Þrátt fyrir að þessi færsla er rituð um viku eftir að lögbannið var framlengt, þá barst stefnan stuttu eftir það. Það hefur hins vegar verið meira að gerast undanfarið svo að enginn komst í að skrifa færsluna fyrr en núna.

Fyrst þarf að leiðrétta einn misskilning sem hefur verið á vappi. Lögbannið hefur verið framlengt þar til búið er að afgreiða þessa stefnu fyrir rétti með tilheyrandi afgreiðslu fyrir héraðsdómi og líklegast Hæstarétti. Það mun engin úrskurður vera kveðinn upp 28. maí og lögbannið mun ekkert enda sjálfkrafa þann dag. Því hefur ekki verið haldið fram af þeim sem tengjast málinu með beinum hætti svo það hefur ekki komið héðan. Fólk er beðið um að kynna ekki ágiskanir sínar sem staðreyndir þegar það ræðir um lögbannið.

Eins og áður var nefnt urðu einhverjar breytingar á stefnunni:

Önnur aðild
Í þessu máli er eingöngu um að ræða STEF sem stefnanda. SMÁÍS, Félag hljómplötuframleiðenda og Framleiðendafélagið – SÍK eru ekki aðilar í þessari umferð. Breytingin var líklegast vegna þess að í þessum hópi hefur eingöngu STEF viðurkenningu menntamálaráðuneytisins til að fara í mál fyrir hönd meðlima sinna. Þessi breyting er þó vandkvæðum bundin þar sem öll fjögur rétthafasamtökin eru skyldug til að fara saman í staðfestingarmálið. Málinu verður því líklegast vísað frá af þeirri ástæðu nema rétthafasamtökin lifi í voninni að heppnin geti bjargað þeim úr þeirri klemmu eða að ég gefist upp vegna málskostnaðar áður en því líkur.

Breyttar dómkröfur
Þar sem Hæstiréttur gat ekki séð að STEF hafi haft heimild til þess að fara með einstaklingskröfur sem voru í málinu var því sleppt í þetta skiptið að fara fram á dæmdar skaðabætur. Varakrafan um viðurkenningu á bótaskyldu stendur þó áfram frá fyrra málinu. Einnig var sett varakrafa sem hljóðar þannig að ef ekki er samþykkt að dæma að starfræksla torrent.is væri alfarið bönnuð að íhuguð yrði krafa um að óheimilt yrði að gera notendum kleift að deila innbyrðis efni í óþökk rétthafa.

‘Skaði’ STEF er tjáður vera umfangsmeiri
Nú á skaði STEF einnig að felast í dreifingu myndefnis eins og kvikmynda og sjónvarpsþátta vegna þess að tónlistin sem á að vera í þessum eintökum sé ekki dreift með leyfi rétthafa. Sé það samþykkt af dómurum gæti þetta skapað afar slæmt dómsfordæmi. Mætti bera fáránleikann þess við að kæra sjónvarpsstöð fyrir ólöglega útsendingu á tónlist ef kvikmyndaframleiðandinn hafði ekki fengið leyfi fyrir því að hafa tónlistina í kvikmyndinni. Þriðji aðili á sem sagt að bera bótaskyldu vegna einhvers sem að annar þriðji aðili gerði eða gerði ekki. Þessi krafa er fáránleg og var líklegast sullað inn á seinustu stundu til að réttlæta aðild STEF að lögbanninu hvað varðar meintar kvikmyndir og sjónvarpsþætti svo að það sýnist ekki vera eins auðtapað og það er.

Útskýra hvað “sambærilega vefsíðu” á við
Stefnan í fyrra málinu minnist ekki orði hvað þetta hugtak á við. Í þetta skiptið er það gert og er vísað til þess að þeir stefndu geti ekki komið upp eins síðu á öðru léni og viðhaldið þessu ‘ólögmæta ástandi’ áfram. Þetta var eingöngu útskýrt munnlega fyrir héraðsdómi og þar sem spurningar komu upp um réttlæti þessa orðalags var bætt úr því núna með því að skilgreina hvað það á við í stefnunni sjálfri. Einnig kemur fram að þeir stefndu komi þegar nálægt rekstri sambærilegra síða en þetta er ekki eitthvað sem var útskýrt nánar. Þessi skilgreining þarf satt að segja andlitslyftingu þar sem hún er of víðtæk svo hægt sé að fara að dæma einn eða annan til að fara eftir henni.

Smá útskýring á lögum 30/2002
Þessi lög heita fullu nafni “Lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu”. Með því að koma með stutta greiningu (um 1/4 af bls.) er verið að koma í veg fyrir að hægt sé að nefna að engin umræða hafi farið þeirra megin um þessi lög. Skortur á umræðu um þessi lög urðu til þess að fyrra málinu var vísað frá héraðsdómi. Auðvitað er það ætlun okkar að ræða nánar um þessi lög og hvernig þau eiga við um starfsemi Istorrents.

Nánari upplýsingar um svör okkar og um stefnuna munu líklegast koma fram eftir að greinargerð hefur verið lögð inn fyrir héraðsdómi.

16 May 2008

Lögbann framlengt

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 07:30

Istorrent ehf. hefur gefið út fréttatilkynningi í tilefni nýrra upplýsinga um að lögbannið hafi verið framlengt. Svo virðist vera að stefnendur málsins hafi ákveðið að fara út í nýtt mál til staðfestingar lögbannsins sem lagt var á Istorrent ehf. og Svavar Lúthersson þann 19. nóvember síðastliðinn. Fresta þarf því opnun vefsins í samræmi við það.

Ekki er talið óhætt að áætla á þessu stigi hversu lengi þessi framlenging mun standa en þó er hægt að nefna að skaðabæturnar sem rétthafasamtökin fjögur hafa bakað sér hækka með hverjum deginum sem þetta lögbann stendur yfir.

Stefnan er ekki komin í hús svo ekki er hægt að sjá hvaða breytingar hafa orðið frá því seinast. Þingfesting fer fram 28. maí næstkomandi skv. upplýsingum frá Héraðsdómi Reykjaness.

Istorrent – fréttatilkynning 16. maí 2008.

9 May 2008

Úrskurður Hæstaréttar kveðinn upp

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 03:31

Hæstiréttur kvað upp úrskurð 8. maí í Istorrent-málinu svokallaða (hrd. 194/2008) um að málinu skuli vísað frá. Af því leiðir að Istorrent hefur unnið málið og rétthafasamtökin fjögur skulu því greiða samtals 900 þúsund í málskostnað fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Málið hefur kostað Istorrent yfir 3,5 milljónir fyrir héraðsdómi en ekki liggja fyrir kostnaðartölur vegna rekstur þess fyrir Hæstarétt. Samkvæmt lögbannslögum fellur lögbannið sjálfkrafa úr gildi um miðnætti aðfaranætur föstudagsins 16. maí. Áætlað er að reisa aftur skráardeilihlutann síðar sama dag ef ekkert stendur því að vegi.

Fyrri grein dagsins var send inn í nótt en fréttir um úrskurðinn bárust nú í morgun og er það afar skemmtileg tilviljun að svo hafi hitt á. Fréttatilkynning verður send út síðar til fréttamiðla og einnig birt hér. Þeir fréttamiðlar sem vilja tryggja sér eintak þurfa að hafa samband við media@torrent.is eða bíða eftir birtingu hér.

Niðurstöðu að vænta fljótlega?

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 03:35

Dagarnir líða og ekkert heyrist frá Hæstarétti varðandi Istorrent-málið. Mun Hæstiréttur staðfesta frávísun héraðsdóms eða mun hann leggja fyrir að héraðsdómur haldi áfram með það? Mestu líkurnar eru á því fyrrnefnda en það er sjaldan hægt að vera of gætinn þegar kemur að svona málum. Sambærilegt mál var kannað og athugað hvað það tók langan tíma fyrir Hæstarétt að dæma í því en það gaf til kynna að niðurstöðu Hæstaréttar er að vænta í þessari viku eða næstu en þó er ekki hægt að treysta á slíka grófa útreikninga. Lítill fyrirvari verður á niðurstöðunni svo það er mjög erfitt að koma með nákvæmar tímasetningar fyrr en sama dag og þær liggja fyrir.

Þann 11. apríl síðastliðinn var kveðinn upp dómur í Hæstarétti sem, einhverra hluta vegna, fékk ekki umfjöllun fréttamiðla þrátt fyrir að dómurinn gæfi mikilvægt fordæmi vegna Istorrent-málsins. Þetta var nefnilega dómur Hæstaréttar í Eico-málinu svokallaða. Dómurinn staðfestir það sem við höfum haldið fram frá upphafi málsins en það er að rétthafasamtökin hafi ekki lagaheimild til þess að sækja lögbannsmál eins og Istorrent-málið. Munurinn á þessu máli og ‘Sky Digital’-málinu er sá að það síðarnefnda var ekki byggt á svokölluðu málsóknarumboði. Sé texti dómsins túlkaður er hægt að sjá að SMÁÍS hefur ekki lagaheimild fyrir svo sértækri hagsmunagæslu (sbr. Istorrent-málið) og því óheimilt að sækja málið. Það er sanngjörn og eðlileg krafa að allir aðilar í lögbannsmáli hafi lagaheimild til að sækja það og gengi það ekki upp að sumir aðilar þess hafa hana en aðrir ekki.

Í niðurstöðu Hæstaréttar má finna eftirfarandi textabrot:
“Ekki liggur fyrir að sóknaraðili fullnægi framangreindum skilyrðum höfundalaga eða hafi fengið formlega viðurkenningu menntamálaráðherra til gæslu höfundaréttarhagsmuna. Verður heimild hans til að höfða mál þetta á grundvelli málsóknarumboðs frá 365 miðlum ehf. því hvorki reist á ákvæðum settra laga né dómvenju.”

Að auki má finna þetta sem er í raun tilvísun í hæstaréttardóm 575/2007:
“Heimild sóknaraðila til að hafa uppi kröfur um staðfestingu lögbanns eða skaðabætur verður ekki reist á 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 13. nóvember 2007 í máli nr. 575/2007. Þá verður heimild þeirrar málsgreinar til að hafa uppi viðurkenningarkröfu ekki beitt til að ná fram afmörkuðum hagsmunum eins félagsmanns. Þar sem sóknaraðili getur samkvæmt framansögðu ekki átt aðild að máli þessu fyrir hönd 365 miðla ehf. verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

En hver er tilgangur þessarar margnefndu lagagreinar (3. mgr. 25. gr. 91/1991)? Það sem líklegast vakti fyrir lagahöfundum var að félög og samtök gætu notfært þessa lagagrein til að stefnt viðeigandi aðila ef málið varðaði réttindi eða skyldur meðlima þeirra almennt eða s.s. prófmál. Það var aldrei tilgangur lagagreinarinnar að félög og samtök myndu hefja mál fyrir hönd sérvaldra meðlima þess þar sem það er andstætt tilgangi hennar. Í ‘Sky Digital’-málinu byggðist mál SMÁÍS á þessari lagagrein en málsóknarumboð 365 miðla hf. hafi verið bætt við Eico-málið þann 3. desember síðastliðinn eftir að SMÁÍS tapaði Sky Digital málinu mánuðinn áður.

Var þetta samt ekki eitthvað sem SMÁÍS hefði mátt vita fyrr? Svarið er játandi þar sem fyrrnefnd lagagrein er afar skýr og þar að auki lágu fyrir dómsfordæmi um rétt félaga og samtaka til að hefja mál fyrir hönd meðlima sinna. Þá rís auðvitað hin stóra spurning: “Af hverju stefndu 365 miðlar hf. ekki sjálfir forsvarsmönnum Sky Digital og Eico í stað þess að hefja þetta mál í nafni SMÁÍS?”. Það fyrsta sem kemur upp er ‘ímynd’ en tvöföld ástæða liggur að baki því. Sú fyrri er ímynd SMÁÍS og sú seinni ímynd 365 þar sem SMÁÍS fær illa orðsporið fyrir að vera ‘leiðinlegi aðilinn’ á meðan fæstir munu tengja 365 við þau leiðu málaferli. Þegar hugsað er lengra kemur auðvitað upp sá möguleiki að málareksturinn er ódýrari. Með því að gera tilraun til að fá lögbann í nafni SMÁÍS er það talsvert ódýrara fyrir 365 að fá sitt fram en að gera það á eigin vegum. Það sama er upp á teningnum í Istorrent-málinu þegar þetta liggur fyrir. 365 hafa aldrei verið nefndir á nafn í fréttum tengdum Istorrent-málinu – svo best ég man- og með því að hafa 4 rétthafasamtök á bakvið stefnuna dreifist áhættan ef/þegar málið tapast. Ef ég væri í þeirra sporum væri sá möguleiki mjög freistandi.

Hver borgar brúsann á endanum? Það eru auðvitað höfundarnir og hinn almenni neytandi. Það er ósannað að óleyfilegt niðurhal valdi því að rétthafar verði af tekjum vegna þess en þó má finna óháðar rannsóknir sem benda á hið gagnstæða. Engar rannsóknir voru lagðar fram af hálfu rétthafasamtakanna sem reyndu að sýna fram á slíkt og það eina sem lá fyrir var reikningsaðferð sem hagfræðingar myndu skammast sín fyrir og óstaðfestanlegar yfirlýsingar um að óleyfilegt niðurhal sé skaðlegt. Hvernig er hægt að taka mark á slíku? Málið er ekki eins augljóst og rétthafasamtökin vilja halda fram. Þó er það augljóst að málaferlin valda því að rétthafasamtökin fjögur verða fyrir miklum fjárútlátum sem síðan dreifast á meðlimi þeirra. Höfundar munu því fá lægri greiðslur en þeir hefðu fengið annars og þeir meðlimir sem selja eintök af hugverkum munu flytja þeirra hluta kostnaðarins yfir á hinn almenna neytanda. Ég vona að rétthafasamtökin læri af þessari vitleysu og einbeiti sér að því að leysa alvöru vandamálin í stað þess að benda annað.

27 April 2008

Algengur misskilningur

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 05:26

Undanfarið hef ég verið að rekast á umfjallanir um BitTorrent vefi og stöðu þeirra gagnvart höfundalögum en því miður hef ég rekist á það að margir misskilja hana ásamt ýmsum atriðum varðandi Istorrent-málið. Verð ég því að grípa tækifærið og lista nokkur atriði sem of margir misskilja.

  • Það er bannað að dreifa verkum sem hafa höfundarrétt.
    – Já og nei. Þessi skilgreining er víðtækari en íslensku lögin. Það sem skiptir máli er hvort að leyfi rétthafa liggur fyrir eða ekki á meðan verkið er háð höfundarrétti. Ef leyfi rétthafa liggur fyrir er ekki ólöglegt að dreifa verkinu hvað höfundarrétt varðar. Síðan eru til undanþágur frá því í höfundalögum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
  • Deiliskrár eru ekki varðar höfundarrétti.
    – Rangt. Deiliskrár njóta þeirrar verndar sem höfundalögin veita. Höfundur ‘verksins’ er sá aðili sem bjó skrána til. Það má deila hvort raunveruleg sköpun hafi átt sér stað en þar sem hægt er, samkvæmt BitTorrent staðlinum, að stilla hvernig skráin er gerð þá er ekki hægt að sjá betur en að deiliskrár njóti verndar höfundalaga. Þar til annað er ákveðið af dómstólum er eðlilegt að líta þannig á málið.
  • Ólöglegt er að dreifa höfundarréttarvörðu efni.
    – Eins og áður nefnir fer það eftir því hvort leyfi rétthafa liggur fyrir eða ekki. Margir halda að hugtakið ‘höfundarréttarvarið’ geri dreifinguna ólöglega án tafar. Þetta hugtak skilgreinir ekkert annað en að dreifing og notkun efnisins sé háð vilja rétthafa eftir því sem lög leyfa.
  • Löglegt er að niðurhala höfundarréttarvörðu efni af Internetinu.
    – Því miður þarf svarið að vera óljóst en það fer eftir aðstæðum hverju sinni. Jafnvel lögfræðingar rétthafasamtakanna virðast ekki vera algerlega sammála um þetta atriði. Sé niðurhalið með leyfi rétthafa er þó hægt að nefna með fullri vissu að það sé ekki brot á höfundalögum. Um leið og leyfi rétthafa liggur ekki fyrir er óvissa komin í spilið og byggist á því hvort ‘brotið’ sé framkvæmt af ásetningi eða stórfelldu gáleysi en það síðarnefnda er háð mati dómstóla eftir atvikum. Alveg eins og Istorrent er sakað um svokallaða meðábyrgð vegna meintra lögbrota meðlima þess má einnig setja niðurhalarana undir sama hatt því án þeirra hefði dreifingin ekki átt sér stað (sömu ummæli áttu sér stað um þátt Istorrents í dreifingunni). Ef einhver fer á vef eins og mbl.is eða visir.is og hleður inn skrám sem innihalda fréttamyndir en síðan kemur það í ljós að vera einhverra þeirra er án leyfis höfundar. Í því tilviki var hlaðið niður höfundarréttarvörðu efni án leyfis rétthafa en eingöngu örvæntingafullur aðili myndi höfða mál gegn hverjum og einum sem fletti síðunni en persónulega efast ég um að einhver yrði dæmdur til að greiða skaðabætur vegna svona tilvika.
  • Að dreifa höfundarréttarvörðu verki án leyfis rétthafa jafngildir stuldi úr búð.
    – Slíkur samanburður er ekki eingöngu ósamanburðarhæfur, heldur einnig rangur. Það eru mjög fáar rannsóknir sem gefa til kynna tapaða sölu sem afleiðingu óleyfilegs niðurhals og þær rannsóknir eiga það sameiginlegt að hafa verið ræstar af ýmsum rétthafasamtökum og að vera óljósar. Þær rannsóknir sem ræstar hafa verið af óháðari aðilum eru ekki að styðja þá yrðingu að eitt niðurhal jafngildi tapaðri sölu. Samanburður á heildarsölutölum milli ársfjórðunga eða milli ára er sömuleiðis rangur þar sem hann getur ekki sannað með áreiðanlegum hætti neitt orsakasamhengi milli óleyfilegs niðurhals og mögulegum sveiflum í sölu. Þrátt fyrir að heildarsölutölur geti ekki myndað áreiðanlegt orsakasamhengi er þó hægt að bera slíkt saman við sölutölur einstakra verka að ákveðnu marki. Slík rannsókn hefur verið framkvæmd og niðurstaðan var sú að óleyfilegt niðurhal á höfundarréttarvörðum verkum hefur engin áhrif á sölu. Einnig eru til rannsóknir sem benda til þess að slíkt niðurhal hafi jákvæð áhrif á sölu.
  • Deiliskrár innihalda upplýsingar um þá aðila sem á að tengjast við til að fá efnið.
    – Deiliskrárnar sjálfar hafa ekki þessar upplýsingar. Þær innihalda upplýsingar um hvernig á að tengjast gagnabeininum sem í framhaldi af því útvegar þær upplýsingar sem forritið notar til að tengjast öðrum.
  • Það þurfa alltaf að liggja sérstakir skriflegir samningar að baki hverri dreifingu á höfundarréttarvörðu verki.
    – Kolrangt. Þetta er í raun það sem rétthafasamtökin á Íslandi hafa lengi haldið fram. Sem dæmi um hið andstæða má benda á dreifingarleyfi Creative Commons og GNU til að nefna þau vinsælustu. Í raun eru til tugi leyfa sem veita aðilum mismunandi réttindi til að dreifa og nota efnið án þess að efna til sérstakra samninga við rétthafa í hvert skipti. Höfundur verksins getur ákveðið að verkið sitt sé háð ákveðnu dreifingarleyfi og þá er engin skylda að gera sérstaka samninga við rétthafa verksins á meðan farið er eftir dreifingarleyfinu. Undanþágur frá ákveðnum atriðum dreifingarleyfanna er hægt að sækja um hjá höfundi ef þörf er á.
  • Það voru mistök að stofna Istorrent ehf.
    – Nei, svo er ekki hægt að segja með réttu. Helstu forsendurnar fyrir frávísun málsins voru þeir fjárhagslegu hagsmunir sem Istorrent ehf. hafði á starfsemi vefsvæðisins þar sem þeir spiluðu sterkt inn í túlkun dómenda á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu (lög 30/2002) þótt slíkt sé ekki getið með beinum orðum. Dómendur töldu nógu sterka ástæðu til að halda að fyrrnefnd lög gætu mögulega átt við um starfsemina og vísuðu málinu frá þann 27. mars síðastliðinn. Efasamt er að tengingin við fyrrnefnd lög hefðu verið eins sterk ef vefurinn hefði að nafninu til verið rekinn lagalega séð af einstaklingi en ekki fyrirtæki.
  • SMÁÍS eru þeir einu sem kröfðust lögbannsins.
     -Nei, það eru fjórir aðilar að baki lögbanninu. Ásamt SMÁÍS eru það STEF, Framleiðendafélagið SÍK og Félag Hljómplötuframleiðenda. Því má ekki gleyma að SMÁÍS eru ekki einu samtökin í þessari baráttu þótt opinber umræða í málinu beinist alltaf að SMÁÍS en ekki hinum samtökunum. Hafa ber í huga að SMÁÍS er eingöngu með beint umboð 365 hf. í málinu sem þýðir að allir aðrir meðlimir samtakanna deila kostnaðnum með 365, hvort sem þeim líkar betur eða verr og óháð því hvort þeir hafi einhverra hagsmuna að gæta eða ekki. Einnig sýnist þörf á að nefna að SMÁÍS hefur lítið sem ekkert að gera með réttindamál vegna tónlistar eða íslenskra kvikmynda.
  • Istorrent fær allan lögfræðikostnað greiddan þegar/ef það vinnur málið.
    – Nei, það er ekki satt. Þegar frávísunin var dæmd þann 27. mars sl. var dæmdur málskostnaður eingöngu 500 þúsund og málið var þegar búið að kosta okkur þrjár og hálfa milljón og allur kostnaður fyrir Hæstarétti á enn eftir að vera settur í innheimtu. Ef hlutfallið gefur til kynna dæmdan málskostnað fyrir Hæstarétti er alveg ljóst að Istorrent þarf að bera um 6/7 málskostnaðarins þrátt fyrir sigur í málinu.

Birt með þeim áskildum rétti að bæta við fleiri atriðum síðar og breyta eftir þörfum.

17 April 2008

Greinargerð Istorrents til Hæstaréttar

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:55

Þann 15. apríl var lokið við greinargerð varnaraðila, Svavars Lútherssonar og Istorrents ehf., vegna áfrýjunar rétthafasamtakanna fjögurra í Istorrent-málinu. Í stuttu máli er farið fram á að frávísunardómurinn verði staðfestur. Ásamt þeirri ástæðu sem héraðsdómur taldi fram vegna frávísunar málsins lögðum við fram fleiri atriði sem ættu að varða frávísun. Tómas Jónsson hæstaréttarlögmaður flytur málið fyrir okkar hönd og fær hann kærar þakkir fyrir það.

Eftirfarandi aðalástæður ættu að vera nægjanlegar til að staðfesta frávísun málsins:
I. Aðild sóknaraðila uppfyllir ekki reglur um samaðild.
II. Sóknaraðilar hafa farið út fyrir málsóknarumboð sitt.
III. Málið er vanreifað af hálfu sóknaraðila m.t.t. laga 30/2002.
Fyrri tvær ástæðurnar eru að mati varnaraðila nærtækari fyrir frávísun málsins og ættu því að ganga framar þeirri þriðju við úrlausn málsins.

I. Aðild sóknaraðila uppfyllir ekki reglur um samaðild.
Samaðild skv. lögum er þegar 2 eða fleiri aðilar eru skv. lögum skyldugir til að fara saman í mál vegna sama löggernings (sama atviks) eða af öðrum ástæðum þar sem þeir eru knúnir til að fara saman í mál. Þegar lögbannið var sett á af sýslumanni komst á slík skylda af þeirra hálfu. Í lögbannsmálum verða því allir sem krefjast lögbannsins að hefja mál til staðfestingar á því.

Í greinargerð varnarðila fyrir héraðsdómi er því haldið fram að reglur um samaðild séu ekki uppfylltar þar sem aðildin að lögbannsgerðinni sé önnur en í staðfestingarmálinu. SMÁÍS var aðili að lögbannsgerðinni en í stefnunni voru ekki gerðar dómkröfur fyrir hönd SMÁÍS heldur gerir SMÁÍS kröfur fyrir hönd 365 hf. sem þá var orðinn aðili að dómsmálinu ef stefnan er lesin skv. orðanna hljóðan. Það var skilningur dómara og lögmanna allt þar til 25. janúar að 365. hf. væri aðili að málinu en ekki SMÁÍS. Af þeim ástæðum er ekki hægt að telja SMÁÍS sem aðila að stefnunni.

II. Sóknaraðilar hafa farið út fyrir málsóknarumboð sitt.
Málsóknarumboð byggja á því, gróflega séð, að aðilar geti veitt öðrum aðila heimild til þess að sækja mál fyrir sína hönd. Engin almenn lög eru til um þau þannig að gildi þeirra byggist á lögum eða vegna dómvenju.

Í úrskurði héraðsdóms 11. febrúar virðist réttlætingin á aðild SMÁÍS koma frá svonefndum Myndstefsdómi (hrd. 390/1996) en það er misskilningur. Dómvenjan snýst einvörðungu um svokallað innheimtuumboð rétthafasamtaka sem gengur út á að innheimta höfundarréttargjöld í eigin nafni í þágu félagsmanna. Málsóknarumboð samtakanna var takmarkað við kröfur í eigin nafni um þóknun fyrir notkun mynda og náði ekki til miskabóta.

Þar sem engin heimild er veitt í lögum til handa rétthafasamtakanna til að beita málsóknarumboðum vegna brota á höfundarrétti og í þessu máli er ekki um að ræða innheimtu gjalda fyrir birtingu verka og felst því heimild samtakanna við almennu málsóknarumboðsheimildina (3. mgr. 25. gr. eml.). Í þeirri heimild er félögum og samtökum leyfilegt að höfða mál í eigin nafni vegna viðurkenningar á réttindum félagsmanna sinna eða lausn þeirra undan skyldum ásamt því skilyrði að slík hagsmunagæsla samrýmist tilgangi þeirra.

Þann 13. nóvember 2007 féll dómur í Hæstarétti í máli SMÁÍS gegn Pétri Péturssyni (sk. Sky Digital mál – hrd. 575/2007) þar sem synjun sýslumanns um lögbann var staðfest þar sem með lögbanni var hvorki sóst eftir viðurkenningu á réttindum félagsmanna né lausn undan skyldu. Einnig er vísað í sk. ASÍ-dóm (hrd. 277/2001) þar sem krafa má ekki lúta berum orðum að réttindum og skyldum nafngreindra félagsmanna og síðan í hrd. 185/1993 þar sem kveðið var á að sakarefni málsins verði að skipta alla félagsmenn máli en ekki varða bara hagsmuni sumra.

Í Istorrent-málinu eru gerðar kröfur sem ganga þvert á fyrrnefnda dóma. Sóknaraðilar gera kröfur um viðurkenningu réttinda og þar að auki kröfur um staðfestingu lögbanns og um skaðabætur en síðarnefndu kröfurnar falla ekki undir viðkenningu á réttindum. Einnig eru nefndir tilteknir félagsmenn í tengslum við kröfugerðina og þá sérstaklega fyrirtækið 365 hf. og vísað til annarra sem umbjóðenda stefnenda án frekari skýringa. Orðalagið getur ekki átt við um alla félagsmenn sóknaraðila heldur einungis þá sem hafa gefið til þess málsóknarumboð eða áttu efni sem notendur torrent.is eru sakaðir um að hafa sent sín á milli.

Ekki allir félagsmenn rétthafasamtakanna hafa hagsmuni af kröfugerð sóknaraðila enda er því ekki haldið fram. Mismunurinn stafar aðallega af því að sumir meðlimir samtakanna áttu efni sem notendur vefsins eru sakaðir um að hafa dreift og aðrir ekki. Verður því að skoða réttarstöðu hvers og eins og þarf að skoða rétt hvers og eins þeirra til skaðabóta sbr. dóm Hæstaréttar nr. 377/2005.

Einnig liggur ekki fyrir að kröfur sóknaraðila séu í samræmi við tilgang þeirra sbr. samþykktir þeirra. Ekki er hægt að sjá að tilgangur þeirra sé að gæta hagsmuna erlendra rétthafasamtaka sinna þar sem hann nær einungis til félagsmanna þeirra. Í málinu er ekki skýrt frá því hvort skaðabótakrafan sé sett í þeirra eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sinna. Þá er því ekki haldið fram að rétthafasamtökin hafi sjálf orðið fyrir tjóni en samt sem áður töldu forsvarsmenn þeirra sig hafa fullan ráðstöfunarrétt og jafnvel eignarrétt yfir skaðabótunum ef þær skyldu vera dæmdar. Ekki er hægt að sjá að slíkt sé stutt af málsóknarumboðunum og talið að verið sé að fara langt út fyrir umboð þeirra.

III. Málið er vanreifað af hálfu sóknaraðila m.t.t. laga 30/2002.
Í greinargerð og í málflutningi voru rakin sjónarmið Istorrents ehf. og var starfseminni lýst sem þjónustu við notendur Internetsins og borið saman við þjónustu nafngreindra þjónustufyrirtækja. Þá var tekið fram að varnaraðilar teljist ábyrgðarlausir af meintum lögbrotum notenda og geti ekki verið í hlutverki löggæslu og hafi sinnt öllum tilkynningum um meint lögbrot. Var því verið að lýsa þeim sjónarmiðum sem liggja að baki ákvæðum laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu (lög 30/2002) sem héraðsdómi fannst ekki vera rætt nóg um. Því er hins vegar ekki mótmælt að í greinargerðinni var ekki nefnt berum orðum að fyrrnefnd lög ættu við um starfsemina en það var síðan nánar rökstutt við flutning málsins. Af fyrrgreindum ástæðum fæst það varla skilið að dómurinn hafi kveðið á um að varnaraðilar hafi átt sök á að hafa ekki fjallað nægilega um þýðingu laga 30/2002. Þó er því ekki mótmælt að umfjöllunin hefði mátt vera ítarlegri en þó ekki að því leiti að orsaka vanreifun af hálfu varnaraðila. Sóknaraðilar mótmæltu ekki þessum svokallaða skort á umfjöllun og er því sá þáttur málsins vanreifaður af þeirra hálfu.

Sóknaraðilar gera þá kröfu að frávísun héraðsdóms skuli ógilduð og vísað aftur til héraðsdóms vegna þess að varnaraðilar nefndu ekki gildi laga 30/2002 í greinargerð sinni og beri því að hunsa þau lög við úrlausn málsins. Ofangreindar ástæður eru ítrekaðar og minnst á að umfjöllunin um gildi fyrrnefndra laga hafi ekki verið mótmælt sem of seint fram kominni. Í lögum er kveðið á að dómendum sé rétt að túlka þýðingu á þögn aðila í málum og hafi verið rétt farið að þegar skortur á andsvari við tilvísun varnaraðila til laga 30/2002 hafi verið túlkaður sem samþykki. Af þeim ástæðum væri það rangt að undanskilja þýðingu þessara laga við úrlausn málsins af þeim ástæðum að sóknaraðili hafi ákveðið að gera ekki tilraun til að hrekja þann hluta varnanna.

11 April 2008

Ekki mikill peningur hér

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 02:37

Ég verð því miður að nefna að ég er frekar vonbrugðinn með skort á gjafmildi almennings í þágu málstaðar Istorrents. Held ég að þetta megi rekja til hins íslenska gens þar sem ein manneskja er látin leiða baráttuna en síðan hverfa allir hinir þegar reynir á og fórnin er skilin eftir svo hrægammarnir geti étið hana. Margir eru sammála því hversu fáránlegt þetta lögbann er en því miður er lítið gert til að hjálpa til í baráttunni. Sem betur fer eru þó ekki allir svoleiðis þar sem nokkrar hetjur hafa verið að leggja inn á styrktarreikninginn en því miður eru ekki nógu margir sem eru að styrkja. Sumir hefðu líklegast viljað styrkja málstaðinn en gátu það ekki vegna efnahagslegra vandamála en þær ástæður eru skiljanlegar.

Án þess að vilja hljóma eins og monthani, þá hef ég verið að gera helling fyrir þetta samfélag áhugamanna um frjáls skráarskipti. Nú er staðan þannig að lögfræðikostnaðurinn, bara fyrir vörnina, er kominn upp í um þrjár milljónir króna. Ef málið tapast þarf ég þar að auki að greiða stefnendum málskostnaðinn þeirra og mögulega greiða skaðabætur. Þetta er ekki eitthvað sem ég hef efni á að greiða einn, tveir og þrír og gæti ég jafnvel lent í gjaldþroti ef illa horfir. Nú vona ég að lesendur skilji að þetta er gríðarleg fjárhagsleg áhætta sem ég er að fara út í… fyrir ykkur! Ef ég hefði eingöngu hugsað um sjálfan mig væri ég löngu búinn að fara út í aðgerðir til að losna úr þessu máli á annan hátt eða gera það ódýrara í flutningi. Hins vegar gerði ég það ekki þar sem mér er nógu annt um jafningjanetasamfélagið til að halda áfram á þessari braut og af þeirri staðfestu sem ég hef sýnt. Þetta er ekki eingöngu fyrir mig, heldur samfélagið í heild sinni. Ef málið tapast gætu komið nokkuð slæm fordæmi í dómskerfinu.

Sumir virðast halda að ég sé þegar kominn með þessa hálfu milljón til að bæta upp tapið en svo er ekki. Hvort hún er greidd eða ekki fer eftir því hvernig áfrýjunin fer fyrir Hæstarétti. Sú fjárhæð er felld niður ef úrskurðirinn um frávísun er dæmdur ógildur og þá missi ég af þessari niðurgreiðslu á hinum raunverulega málskostnaði. Í sanni séð hafa eingöngu safnast rétt yfir 100 þúsund krónur frá almenningi. Þessi upphæð er auðvitað há fyrir venjulegan launamann en eingöngu um 1/30 af þeim kostnaði sem þegar hefur farið í vörn málsins. Þetta mál er ekkert grín fyrir aðila sem hafa ekki mikið milli handanna. Ótalinn er kostnaður málsins fyrir Hæstarétti.

Þrátt fyrir ofangreint, þá veit ég að starfsemi vefsins er ekki ólögleg. Þó er auðvitað einhver óvissa þar sem það er mikið af lagalegum atriðum sem hefur ekki reynt á áður fyrir rétti og það er ekki hægt að segja án efa að Istorrent vinni málið þar sem það er betra að vera varkár frekar en að neita því alfarið að önnur niðurstaða sé möguleg. Ég hef þó mikla trú á því að réttlátt dómskerfi sýkni mig af öllum kröfum rétthafasamtakanna ef við fáum nógu gott tækifæri til að kynna okkar mál fyrir dómstólum.

Einnig er ég leiður yfir því að sumir aðilar segjast vera alveg sama hvernig málið fer því þeir eru komnir á önnur jafningjanet. Eina ástæðan fyrir því að rétthafasamtökin hafa ekki enn kært önnur jafningjanet er einmitt vegna Istorrent-málsins þar sem samtökin vilja fyrst sjá hvernig það mál fer. Síðan munu þau meta stöðuna og sjá hvort það borgi sig að ráðast á önnur jafningjanet. Feluleikur með nafnleysi mun seint verja stjórnendur og eigendur jafningjaneta sem nýta sér þá aðferð til að komast hjá málsókn. Persónulega myndi ég telja það betra ef að allir notendur jafningjaneta sameinist í þessu máli og hindri helförina áður en hún byrjar frekar en eftir á. Hvernig munu þessir sömu aðilar bregðast við þegar þeir gera sér grein fyrir þessu? Ekki vel, myndi ég halda.

Það er ekki skemmtilegt að koma með svona ræðu en ég taldi hana nauðsynlega svo að almenningur geri sér grein fyrir þeim fórnum sem eru í gangi. Ég er ekki sá eini sem stendur í fórnum vegna þessa máls og vil ég þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóginn. Þeir aðilar eru þó af skornum skammti og lítill hluti þess fjölda sem notfærði sér torrent.is áður. Hvert hafa þeir notendur flúið?

Þeir sem vilja hjálpa til geta lagt það sem þeir mega missa inn á styrktarreikninginn (auglýstur efst á síðunni) og hvatt aðra til að gera slíkt hið sama. Ef einhver veit um aðrar góðar aðferðir til að styrkja málstaðinn, endilega hafa samband við mig í síma 863-9900. Sameinuð stöndum vér og sundruð föllum vér.

« Newer PostsOlder Posts »

Powered by WordPress