Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

19 February 2008

Fyrirtakan í dag

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:59

Fyrr í dag var fyrirtaka fyrir aðalmeðferð í máli fjögurra rétthafasamtaka gegn Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni sem rekið er fyrir Héraðsdóm Reykjaness. Málið var hafið í kjölfar lögbanns sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði setti á starfrækslu vefsins torrent.is þann 19. nóvember síðastliðinn. Þeir stefndu óskuðu eftir skiptingu málsins þannig að lögbannið yrði tekið fyrir á undan en dómari samþykkti það ekki. Málið verður því tekið fyrir í heild sinni.

Aðilar málsins voru sammála um að hafa svokallað milliþinghald fyrir aðalmeðferð til að koma sér saman um framkvæmd aðalmeðferðar, leysa úr ýmsum ágreiningi og til gagnaöflunar. Í sama þinghaldi munu aðilar málsins afhenda lista yfir þá sem þeir óska að verði leiddir fyrir dóm í skýrslutöku.

Skv. því sem liggur fyrir verður milliþinghaldið þriðjudaginn 4. mars nk. og aðalmeðferð málsins viku síðar. Um er að ræða opið þinghald og eru allir áhugamenn um málið hvattir til þess að fylgjast með aðalmeðferðinni 11. mars inni í dómsal til að sýna málstaðnum stuðning og upp á forvitnissakir.

Eftir aðalmeðferð er áætlað að úrskurður í málinu fyrir héraðsdómi muni vera kveðinn upp 2-4 vikum síðar. Talsverðar líkur eru á að hvernig sem málið fer fyrir héraðsdómi að það endi fyrir Hæstarétti.

Séu einhverjir sem vilji aðstoða með málið eða búi yfir upplýsingum sem gætu skipt sköpum fyrir dómsmálið. Endilega hafið samband við Istorrent á netfanginu torrent@torrent.is eða Svavar í síma 863-9900. Einnig er auglýst eftir styrkjum sem munu fara í rekstur málsins.

11 February 2008

Frávísunarkröfu hafnað

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 05:05

Þorgeir Ingi Njálsson, héraðsdómari, kvað upp úrskurð um frávísunarkröfu stefndu í Istorrent-málinu fyrr í dag. Þar var kveðið á að henni skuli hafna og aðalmeðferð málsins heldur því áfram 19. febrúar nk. kl. 9:15. Hróbjartur Jónatansson, lögmaður stefnenda, var erlendis og mætti því fulltrúi hans í staðinn. Lögmaður stefndu, Tómas Jónsson, var upptekinn í Héraðsdómi Reykjavíkur við aðalmeðferð DC-málsins og mætti fulltrúi hans í staðinn.

Þeir stefndu telja þennan úrskurð ekki merki um ósigur. Þó að dómskerfið samþykki ekki allar kröfur sem lagðar eru á borð, þá er varla hægt að telja það ósigur. Í grunni séð hefur aðild málsins verið breytt (eða ekki breytt – eftir hvernig litið er á það) þannig að SMÁÍS er aðili að málinu og litið svo á að aðrar kröfur sem stefndu töldu til frávísunar ættu frekar heima í aðalmeðferð. Því á enn eftir að úrskurða um þau atriði hjá dómstólum og því seint hægt að kalla þennan úrskurð ósigur fyrir Istorrent.

Væntanlegir meðdómendur eru Björn Jónsson, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs Landspítala Háskólasjúkrahúss og Róbert R. Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Komi engar athugasemdir fram sem réttlæta útskiptingu meðdómenda, þá má búast við því að þeir gegni því hlutverki í málinu. Séu einhverjir sem búa yfir slíkum upplýsingum, vinsamlegast hafið beint samband við torrent@torrent.is eða ritið athugasemd við þessa færslu.

Bókað var fyrir rétti að stefndi Svavar skoraði á stefnendur að varpa ljósi á það að hvaða marki séu gerðar athugasemdir við lýsingu stefnda á BitTorrent-staðlinum í greinargerð. Eins og kom fram í fyrri færslu, þá hélt lögmaður stefndu því fram að fyrrgreind lýsing hafi verið röng. Með bókuninni er verið að reyna að koma í veg fyrir mögulegar tafir vegna ágreinings um sannleika lýsingarinnar.

Viðbrögð vegna þessa úrskurðar hafa ekki verið að fullu ákveðin. Á þessari stundu má búast við því að aðalmeðferð hefjist eins og áætlað er. Ekki er vitað af hálfu Istorrents hvenær úrskurðar eftir aðalmeðferð sé að vænta. Hver sem niðurstaðan verður, þá er líklegt að málið fari fyrir Hæstarétt.

Úrskurðurinn verður líklegast opinberaður á vef Héraðsdóms hvort sem er svo það er ekki talið taka því að skanna hann inn. Slóð á hann verður bætt við hér neðst þegar við höfum séð að hann er kominn inn á netið. Ef hann verður ekki kominn fyrir kvöldmat á morgun, þá reddum við því á eigin vegum.

Slóð á úrskurð geymdum á vef Héraðsdóms Reykjaness:
http://domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E200702836&Domur=3&type=2&Serial=1&

Úrskurður um frávísunarkröfu síðar í dag

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 01:22

Var að frétta af þessu fyrir fáeinum mínútum. Úrskurðurinn mun vera opinberaður á eftir kl. 15:30 í Héraðsdómi Reykjaness. Búast má við annarri færslu á bloggið síðar í dag með úrskurðinum sjálfum.

28 January 2008

Munnlegur málflutningur – umfjöllun

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 10:37

Seinasta föstudag var frávísunarhlutinn fluttur fyrir dómara. Eins og við mátti búast, þá var ekki mikil mæting og voru því nokkrir lausir stólar. Þeir sem ekki mættu misstu því af fjörinu sem átti sér stað. Í stuttu máli fór þetta þannig að við fluttum okkar rök fyrir frávísun og síðan stefnendur. Eftir það tóku aðilarnir til máls í sömu röð tvisvar sinnum í viðbót til að gera athugasemdir við rök hins aðilans. Um 15 mínútum gengnum í 12 ákvað dómari að slíta þinghaldinu og mun boða síðar til þinghalds, væntanlega til þess að tilkynna úrskurð sinn hvað varðar frávísun málsins.

Fyrir þá sem hafa áhuga á nánari atburðalýsingu, þá fylgir hún hér með. Þess ber að geta að jafnvel þótt rituð voru niður minnisatriði á blað, þá get ég ekki borið ábyrgð á því að allt sé rétt munað eða skrifað niður. Auk þess er það sem kemur hér fram birt með þeim fyrirvara að þetta er frá aðila sem er sá ákærði í málinu svo að frásögnin er ekki hlutlaus.


Þing hefst um kl. 10:30.

Mættir voru:
Þorgeir Ingi Njálsson, héraðsdómari.
Svavar Lúthersson, einn stefndu.
Tómas Jónsson hrl, lögmaður stefndu.
Hróbjartur Jónatansson hrl, lögmaður stefnenda.
Áhorfendur á bekk.
(Nöfn eru skammstöfuð til að auðvelda lestur)

HJ afhendir skjal sem á að bóka sem fjallar um þeirra rök fyrir núverandi aðild, skráð sem dómskjal 29. Dómari fær eintak ásamt lögmanni stefndu.

HJ nefnir síðan að lýsing stefndu um BitTorrent tæknina sé röng. Ekki er farið út í ástæðu þess að þeim þyki hún röng. Dómari nefnir að slíkur ágreiningur sé best geymdur þar til búið er að afgreiða frávísunarhluta málsins.

TJ hefur málflutning (1. umferð):
Frávísun byggist aðallega á þáttum er varða samaðild stefnenda og vanreifun á málinu sjálfu.
Nefnir að hann hafi í höndum tölvupóst frá stefnendum þar sem þeir óska eftir breytingum á aðild að málinu þar sem skipta á 365 miðla hf. fyrir SMÁÍS. Bréfið var sent 22. janúar síðastliðinn. Þar sem engin mótmæli komu vegna skráningu 365 miðla sem aðila í málinu, þá á að telja þá aðila að málinu en ekki SMÁÍS.
Óheimilt er og ósanngjarnt að tilgreina tiltekna félagsmenn og vísað í dómsfordæmi (náði ekki númeri málsins). Hvað um þá meðlimi sem eru ekki nefndir?
Umboð rétthafa gagnrýnd. Umboðin nefna ekki í orðanna hljómi að stefnendur megi hefja mál í eigin nafni. Einnig veita umboðin ekki heimild til þess að sækja mál með öðrum aðilum. Dómskjal 29 er ekki talið laga málið.

Vanreifun byggist á:
* Orðalaginu “sambærileg vefsíða”. Stefnendur gera ekki tilraun til þess að útskýra merkingu þessa orðalags í stefnunni.
* Vafa um hverra hagsmuni er verið að gæta. Gagnkvæmisskilyrði höfundalaga ekki uppfyllt hvað varðar bandaríska höfunda og því gilda íslensk höfundalög ekki um verk sem eiga uppruna í Bandaríkjunum.
* Skaðabótakröfunni. Vantar algerlega rökstuðning fyrir bótagrundvöll. Vísað í Myndstefsmál.

TJ lýkur máli sínu.

HJ hefur málflutning (1. umferð):
Vilja ekki frávísun og krefjast málskostnaðar. Sakar stefndu um að tefja málið vegna kröfu þeirra um frávísun.
Telur að málflutningur stefndu byggist á mótsögnum og illa grunduðum sjónarmiðum.
Telur SMÁÍS aðila að málinu þar sem aðilaskráningin “f.h.” geri ekki 365 miðla að aðila í málinu.
Sakar stefndu um að gera ekki greinarmun á málflutningsumboðum og málsóknarumboðum.
Skráning 365 miðla voru mistök við skráningu málsins.
Má sleppa tilvísun í félagsmenn eða hluta þeirra og vísar í Myndstefsmál. Vísar einnig í mál 575/2007 rekið fyrir Hæstarétti en málið var skráð sem SMÁÍS gegn Pétri Péturssyni þrátt fyrir að SMÁÍS hafi verið fyrir hönd 365 miðla.
Nefnir að engin breyting hafa átt sér stað á aðild og telur kröfu stefndu fráleita.
Telur ósanngjarnt að vísa frá öllu málinu vegna lögbannsgerðarinnar sjálfrar.
Engin samaðild í málinu því málið byggir ekki á óskiptum réttindum. Málið byggist heldur á samlagsaðild.
Sakar stefndu um að gera ekki grein á dómkröfu og lögbannskröfu.
“Sambærilega vefsíðu”-orðalagið er að finna í dómkröfu og ætti því frekar að takast á við það í efnismeðferð frekar en í frávísunarhluta málsins. Telur að augljóst sé hvað er átt við með orðalaginu og sé meiningin sú að koma í veg fyrir að stefndu stofni aðra síðu á öðru léni og haldi áfram brotastarfseminni.
Gagnrýni stefnenda á gagnkvæmisskilyrði höfundalaga óskiljanleg og ætti frekar heima í efnismeðferð.
Telur skaðabótakröfuna í fínu lagi.
Lýkur máli sínu á kröfu um að stefndu skuli greiða málskostnað.

TJ hefur málflutning (2. umferð):
Gagnrýnir HJ fyrir að reyna að gera lítið úr þekkingu hans á lögfræði.
Vísar í tölvupóstinn sem minnst var á áður og telur upp þau skipti sem að stefnendur höfðu tækifæri til þess að lagfæra “misskráninguna” en gerðu það ekki. Gerðarbeiðendur eiga allir að fara í mál skv. lögum um lögbönn.
Vísar í Myndstefsmál um kröfur.
Lýkur máli sínu.

HJ hefur málflutning (2. umferð):
Nefnir að það hafi ekki verið ætlan hans að móðga TJ.
Tölvupósturinn sem hann sendi 22. janúar hafi verið sendur í þeim tilgangi að koma í veg fyrir deilur um aðild með því að fara fram á formlega breytingu.
HJ lýkur máli.

Báðir aðilar fluttu stuttar athugasemdir í 3. umferð en ekki talið taka því að skrifa það sem fór fram niður sérstaklega.

Dómari slítur þingihaldinu og segist ætla að boða til þings síðar.

Samaðild eða samlagsaðild?
Ágreiningur er milli beggja hliða um hvort að samaðild eða samlagsaðild eigi við um aðild stefnenda í málinu. Fyrrnefnda aðildin er sótt í 18. gr. laga um meðferð einkamála en sú seinni í 19. gr. laganna. Stefnendur vilja meina að samlagsaðild eigi við þar sem þeir vilja meina að hver og einn gerðarbeiðenda lögbannsgerðarinnar hefði þess vegna getað sótt málið einn og sér. Stefndu vilja meina að allir gerðarbeiðendur séu skyldugir til þess að sækja málið saman og því eigi 18. gr. laganna við. Þar sem SMÁÍS sé ekki aðili að málinu, þá eigi að vísa málinu frá af þeim ástæðum.

“Sambærilega vefsíðu”.
Stefnendur telja að merking orðalagsins sé augljós og nefndi HJ að tilgangurinn sé að koma í veg fyrir að stefndu komi vefnum aftur upp undir öðru léni. Stefndu mótmæla því að það sé augljóst. Skv. orðalaginu í kröfunni er t.d. hægt að koma í veg fyrir að stefndu sjái um hvers kyns vefi sem sjá um að flytja höfundaréttarvarið efni eins. Í orðsins fyllstu merkingu myndi slík krafa skerða atvinnufrelsi stefndu talsvert sé hún samþykkt óbreytt.

Skaðabótakrafa réttmæt?
Þá er það stóra spurningin. Af hverju ættu rétthafasamtök að hafa rétt á að fá skaðabætur vegna þessa máls? Það er ekkert sem bendir til þess að samtökin sjálf hafi beðið skaða vegna gerningsins sem málið snýst um. Er það annars hlutverk samtaka/félaga að fá skaðabætur fyrir hönd meðlima sinna? Nei og af sömu ástæðum geta þau ekki krafist lögbanns. Annars væri hægt að stofna félag og krefjast lögbanns yfir einhverju. Síðan væri hægt að reka málið fyrir dómi og ef félagið myndi tapa málinu, þá væri hægt að leysa það upp áður í stað þess að greiða skaðabætur til þess sem lögbannið náði yfir. Auk þess eru auðvitað áhyggjur af því að þeir aðilar sem voru á móti lögbanninu þurfi einnig að greiða fyrir rekstur málsins og/eða skaðabæturnar ef málið tapast. Rosalega er það sanngjarnt gagnvart þeim aðilum.

Hvað ef samtökin myndu vinna málið og fá skaðabæturnar? Það væri þá lítið sem kæmi í veg fyrir að meðlimir samtakanna myndu allir fara í sjálfstæð mál til að fá skaðabætur. Ef þeir myndu vinna málið, þá væri verið að margborga skaðabæturnar fyrir sama meinta brotið. Því er það sanngjarnast að eingöngu höfundarnir sjálfir geti heimtað skaðabætur. Félögin geta þó hafið mál til að leita að viðurkenningu á rétti meðlima þess til skaðabóta en ekki til að fá skaðabæturnar sjálfar.

Yfirlýsingar um óleyfilega dreifingu.
Samtökin nefna oft að dreifingin hafi verið óleyfileg og eru merki um það í fjölmiðlum og einnig stefnunni sem var gefin út í þeirra nafni. Það er oftast gefið mál að samtökin hafa ekki spurt hlutaðeigandi höfunda hvort að þeir hafi leyft hana eða ekki. M.v. stefnuna sjálfa, þá myndi slík athugun fela í sér gríðarlega vinnu fyrir samtökin og því freistandi að taka þá leiðarstyttingu að gera bara ráð fyrir því að hún hafi verið með öllu óleyfileg.

Gefum dæmi um að ég sé lagahöfundur og að ég sé meðlimur að STEF. Síðan er hægt að komast yfir plötuna mína, sem ég framleiddi án hjálpar annarra höfunda, með milligöngu torrent.is og það væri jafnvel ég sem setti hana í dreifingu þar. Síðan kæmi STEF með þá yfirlýsingu um að hún væri þarna án leyfis höfundar. Væri það sanngjarnt að samtök – sem ég væri aðili að – gætu komið með slíkar yfirlýsingar að mér óforspurðum? Hvað ef ég væri ekki aðili að STEF? Myndi STEF eiga sama rétt á að koma með slíka yfirlýsingu fyrir hönd höfunda sem eru ekki einu sinni í samtökunum?

Mér finnst það undarlegt að rétthafasamtökin eru almennt svona yfirlýsingarglöð og hika varla við það að nefna álit höfunda sem hafa ekki einu sinni verið spurðir álits. Því miður hef ég ekki einstök dæmi en það má leiða þetta af eðli umræðunnar sem hefur átt sér stað í kringum málið. Get þó nefnt að samtökin gefa oft heimild fyrir notkun laga án samþykkis höfundanna sjálfra, sbr. samninga STEF vegna notkun laga í dagskrárauglýsingum.

19 January 2008

Munnlegur málflutningur varðandi frávísun

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 04:47

Sumir hafa verið að spyrja mig um gengið á fyrirtöku málsins sem var fyrr í vikunni. Því miður gat ég ekki mætt sjálfur persónulega svo ég get ekki lýst atburðarásinni í smáatriðum. Eins og getið var í færslunni á undan, þá var ekki áætlað að ræða um neitt sem að skiptir rosalegu máli sem þýðir að ógerlegt er að nefna að ákveðnir aðilar hafi staðið sig betur en aðrir.

Þann 25. janúar n.k. kl. 10:30 í sal 1 mun fara fram munnlegur málflutningur í opnu þinghaldi. Tekin verður fyrir frávísun málsins og er áætlað að málflutningurinn standi til kl. 12:00. Nánar til tekið verður rætt um atriðin sem voru nefnd í fyrri bloggfærslunni ásamt því að sjónarmið stefnenda munu koma fram. Þeir sem hafa áhuga á umræðunni um frávísun málsins mega mæta á staðinn. Salur 1 er ágætlega rúmgóður svo að það má búast við því að allir sem mæta geti fengið sæti. Þeir sem mæta á staðinn geta rætt við mig um málið almennt eftir málflutninginn.

Reynt verður að lýsa atburðarás þinghaldsins á þessu bloggi eftir bestu getu. Þó ber að geta þess að hljóðritun og myndataka er bönnuð í salnum svo ekki er hægt að bjóða upp á hljóðupptöku eða nákvæma lýsingu á því sem fer fram.

14 January 2008

Fyrirtaka málsins

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:25

Þann 17. janúar nk. kl. 9:00 verður fyrirtaka málsins í Héraðsdómi Reykjaness, sal 2.  Þar verður tekin fyrir afstaða kæruaðila til frávísunar á málinu.

Um er að ræða opið þinghald svo almenningur er velkominn. Mig grunar að einhverjir vilji mæta til að veita málstaðnum stuðning en ég mæli með því að fólk geri það ekki fyrr en málið fær efnislega umfjöllun. Búist er við að umræðan verði nokkuð lögfræðileg og að kæruefni verði ekki tekin fyrir nema að litlu magni í þetta skiptið.

Ástæður fyrir frávísun eru nokkrar:
1. Gerðarbeiðendur í lögbannskröfunni og stefnendur eru ekki þeir sömu. Samtökin SMÁÍS eru ekki stefnendur í staðfestingarmálinu, heldur eru þeir eingöngu fyrir hönd 365 miðla ehf., en slík aðilaskipti er ekki að finna í lögum. Einnig eru samtökin SMÁÍS ekki að uppfylla lagalega skyldu sína vegna vanþátttöku sinnar sem kæruaðila í málinu.

2. Engar útskýringar fylgja samlagsaðild að lögbannsgerðinni og staðfestingarmálinu. Aðilarnir gæta hagsmuna ýmissa rétthafa sem hafa ólíkra hagsmuna að gæta. Ekki er séð að hvaða leyti þessi samlagsaðild sé studd í lögum.

3. Gerðarbeiðendur og stefnendur hafa lagt fram umboð frá ýmsum rétthöfum, bæði við lögbannsgerðina og í dómsmálinu. Ekkert umboðanna veitir gerðarbeiðendum eða stefnendum umboð til þess að höfða mál í eigin nafni. Einnig veita umboðin ekki heimild fyrir samlagsaðild.

4. Stefnendur segjast koma fram fyrir hönd rétthafa í málinu. Því er hafnað þar sem stefnan ber þess ekki merki að öðru leyti fyrir utan það að SMÁÍS kemur fram fyrir hönd 365 miðla ehf.

5. Krafa stefnenda er verulega vanreifuð. Í dómkröfu krefjast stefnendur að stefndu sé óheimilt að starfrækja vefsíðuna www.torrent.is eða aðra “sambærilega vefsíðu”. Með skeytingu orðsins “sambærilega vefsíðu” eru stefnendur að fara út fyrir lögbannskröfur sínar. Slíkt orðalag er of ónákvæmt og of víðtækt þar sem túlkun þess er of teygjanleg auk þess sem stefnendur gera ekki tilraun til þess að skilgreina hvað sé átt við með því.

6. Stefnendur gera ekki tilraun til þess að sýna fram á að hið meintu höfundaréttarbrot stefndu eigi við um verk sem vernduð eru af höfundalögum. Höfundalög vernda eingöngu íslenska höfunda eða höfunda innan EES-sambandsins. Einnig vernda þau verk höfunda frá þeim löndum þar sem gagnkvæmni er tryggð. Heimild er í höfundalögum fyrir því að víkka gildissvið laganna í samræmi við alþjóðasáttmála. Ekkert í málatilbúnaði stefnenda gefur til kynna hvort að höfundar, sem þeir telja sig vera að vernda, séu frá löndum sem eru aðilar að þeim sáttmálum eða hafa fullgilt þá.

7. Dómkrafa kærenda um skaðabætur er vanreifuð. Skortur er á rökstuðningi fyrir bótaupphæðinni og jafnvel bótagrundvöllinn sjálfan. Hvergi má finna sundurliðun á raunverulegu tjóni stefnenda, tilraun til þess að rökstyðja það tjón sem sennilega afleiðingu tiltekinna athafna eða athafnaleysis stefndu. Veruleg vöntun er á gögnum svo hægt sé að taka ígrundaða afstöðu til fjárkröfu stefnenda sem skaðabótakröfu. Stefnendur lögðu fram fylgiskjal sem sýnir afar hæpna útreikninga um meint verðmæti þeirra skráa sem finna mátti á www.torrent.is. Að mati stefndu telst það ekki sem bótagrundvöllur enda er öllum upplýsingum á skjalinu mótmælt sem röngum ásamt því að skjalið virtist ekki hafa verið lagt fram við lögbannsgerðina sjálfa.

Orðskýringar:
Bótagrundvöllur: Undirstaða þess að hægt sé að krefjast bóta. Sanna þarf eða gera mjög sennilegt að atburður hafi átt sér stað sem réttlætir greiðslu bóta.
Dómkrafa: Þær kröfur sem aðilar gera í tengslum við málaferli.
Gerðarbeiðendur: Þeir aðilar sem leggja fram lögbannskröfu (í þessu tilviki).
Samlagsaðild: Þegar tveir eða fleiri aðilar sameinast um aðild að kæru.
Stefndi: Sá sem er stefnt í dómsmáli.
Stefnendur: Þeir aðilar sem leggja fram kæru fyrir dóm.
Vanreifun: Þegar kæra er vanreifuð, þá er kæran sjálf ekki í samræmi við lög og/eða hún tekur ekki á atriðum sem af eðli sínu ætti að hafa verið gert skil í kærunni.

7 January 2008

Hugmyndabankinn

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 06:23

Þessi þráður er tileinkaður þeim breytingum sem notendur vilja sjá á torrent.is þegar vefurinn kemur aftur upp. Fyrst að vefurinn verður niðri í einhvern tíma, þá er hægt að grípa tækifærið og framkvæma miklar breytingar. Sumar þeirra hafa verið einstaklega erfiðar og ekki mikil hvatning til þess að framkvæma þær áður þar sem fyrrnefndar breytingar myndi orsaka of langan niðritíma á meðan. Fyrst að sá niðritími er hvort sem er í gangi gegn vilja okkar, þá væri eigi svo vitlaust að framkvæma eitthvað af því sem hefur beðið lengi vegna þessa. Ykkur er því frjálst að benda á hluti sem þið viljið að verði lagaðir á meðan lögbanninu stendur.

Því miður er ekki hægt að lofa því að allt verði framkvæmt eða að hve miklu leyti en allar tillögur verða þó íhugaðar. Hafi einhver tillögur sem myndu leiða til stórvægilegra stefnubreytinga eða sem inniheldur mikla hugmyndafræði er hægt að mæla mót við fulltrúa Istorrents með því að senda tölvupóst á torrent@torrent.is. Vinsamlegast nefnið í hverju tillagan felst í meginatriðum.

2 January 2008

Bloggið komið upp

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 01:32

Eftir of langan tíma án þess að veita fréttir beint til notenda, þá var ákveðið að stíga það skref til fulls með því að stofna þetta blogg. Notendur geta því leitað hingað til þess að fá upplýsingarnar beint frá aðstandendum torrent.is á meðan lögbanninu stendur.

Er verið að óhlýðnast lögbanninu með stofnun bloggsins?
Gætt var þess að stofnun þessa bloggs myndi ekki brjóta gegn lögbanninu sem var sett 19. nóvember síðastliðinn. Í fyrsta lagi er notað lénið istorrent.is og í öðru lagi er notendum ekki gert kleift að deila skrám sín á milli. Sé farið á torrent.is núna er framkvæmt skipun sem færir viðkomandi beint yfir á istorrent.is án þess að vefsíða eigi í hlut.

Af hverju var lögbannið sett á?
Fjögur íslensk rétthafasamtök með SMÁÍS í fararbroddi kröfðust lögbanns á starfsemi vefsins torrent.is ásamt upptöku á öllum tækjabúnaðnum sem notaður er við starfrækslu vefsins. Lögbannið var sett á en því síðarnefnda var hafnað.

Hvenær verður lögbannið afnumið?
Rétthafasamtökin þurfa að hefja staðfestingarmál sem þau hafa gert og er áframhald lögbannsins háð úrslitum þess. Við erum bjartsýnir á að Istorrent vinni málið en því miður er ekki hægt að halda áfram að starfrækja vefinn eins og áður fyrr en úrslit málsins eru ljós og með því skilyrði að Istorrent vinni það. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær búið verður að afgreiða lögbannsmálið fyrir rétti en það mun að öllum líkindum taka fleiri vikur í viðbót.

Er búið að dæma í málinu?
Nei, málið er enn í kerfinu. Þann 12. desember þurftum við að biðja um vikufrest til að skila greinargerðinni og var henni síðan skilað inn til Héraðsdóms Reykjaness þann 19. desember. Nú þurfa lögfræðingar beggja hliða að vera í sambandi við hvorn annan varðandi heppilegan tíma til að flytja málið. Lögfræðingar okkar munu reyna að flýta málinu eins og hægt er. Þess ber að geta að málinu verður mögulega skipt í tvennt og yrði þá lögbannið tekið fyrst og síðan afgangurinn sem fjallar um meinta hlutdeild vegna brota á höfundalögum sem notendur eru sakaðir um að hafa framkvæmt.

Hvað um lögfræðikostnaðinn?
Okkur er ljóst að lögfræðikostnaðurinn verður mikill vegna málsins og viljum við hvetja til frjálsra framlaga frá almenningi til að greiða hann niður. Jafnvel þótt málið vinnist, þá mun hann vera mikill. Því miður eru dæmdar skaðabætur vegna málskostnaðs oftast lægri en sá raunverulegi kostnaður sem verður vegna málsins. Af þeim orsökum óskum við eftir frjálsum framlögum í tengslum við málið. Verði einhver afgangur, sem er nokkuð ólíklegt, mun hann vera notaður í framtíðarmálarekstur Istorrents verði þess þörf. Ekki er hægt að geta til um hversu mikið við þurfum á að halda fyrr en málinu er alveg lokið. Til þess að styrkja baráttuna, leggið inn einhverja fjárhæð á eftirfarandi bankareikning:
kt. 071183-2119
0327-13-003120

Hvað verður gert þegar/ef lögbanninu verður aflétt?
Vefurinn torrent.is verður opnaður á ný, ekkert flóknara en það. Við sjáum enga ástæðu á þessari stundu til þess að flytja hann til útlanda og verðum við því kyrrt á Íslandi. Nokkuð efasamt, jafnvel ólíklegt, er að þjónustan muni minnka að skapi við enduropnun vefsins en slíkt kemur í ljós eftir afgreiðslu málsins. Einhver þróun mun eiga sér stað á meðan lögbannsmálinu stendur og má því búast við einhverjum breytingum í millitíðinni.

« Newer Posts

Powered by WordPress