Þann 19. nóvember fyrir heilu ári síðan var sett lögbann á rekstur skráaskiptavefsins torrent.is og er það enn í gildi. Dómsmál um staðfestingu á réttmæti þess er í gangi eins og rakið hefur verið hér á Istorrent blogginu.
Af gefnu tilefni vil ég nefna að ég hef séð ýmsar umræður eiga sér stað um form og efni lögbannsins en mest af því er ekki satt eða ranglega túlkað. Það væri betra ef þeir aðilar myndu kynna sér málin áður en þeir þykjast vita allt um það. Einhverjir aðilar koma einnig með stórtækar yfirlýsingar um löglegheit vefanna sem eingöngu rétthafasamtökin myndu koma með. Þrátt fyrir að einhver stefni einhverjum öðrum þýðir ekki að hann hafi rétt fyrir sér og öll töp sé vegna vanhæfni dómstóla. Tilgangur bloggsins er meðal annars að flytja fréttir um málið og ætti fólk að skoða bloggið áður en það tjáir sem um lögfræðileg málefni tengd því eða vísi í það.
Yfir árið hefur náðst einhver árangur í málinu. Þrjú samtakanna eru dottin út úr málinu og er STEF eitt eftir og endanlegur sigur hefur náðst í hluta einnar dómkröfunnar. Sigurinn kostar sitt og hefur málareksturinn kostað mikið fé. Í stað þess að komi ræða um slæm fjármál mín þá ætla ég að láta nægja að koma með þessa ábendingu. Ég skil að margir eru að lenda illa í efnahagsástandinu og geta ekki látið fé í málstaðinn en það væri frábært ef þeir sem ekki geta gefið fé geta í staðinn veitt málstaðnum gott orð á almannavettvangi.
Þegar rætt er um dómstóla má nefna að í fyrirtökunni sem var seinasta föstudag var nefnt að það sé vilji hjá dómara að reyna að keyra málið í gegn hjá héraðsdómi fyrir áramót. Ég vona að það verði úr því. Næsta föstudag verður önnur fyrirtaka og vonandi sú seinasta en í því tilfelli verður málflutningstíminn ákveðinn.
Staðgengilsvefir, reknir af öðrum aðilum, hafa risið og fallið síðastliðið ár. Uppsetning þeirra er mismunandi en flestar byggðu á gamla Istorrent kóðanum sem gefinn var út október 2006. Eingöngu tveir vefir (sem vitað er af) hafa lifað af tímabilið en það eru rTorrent og The Viking Bay. Báðir vefirnir hafa samt lent í niðritíma og sumir þeirra lengri en samanlagður niðritíma Istorrent frá upphafi ef lögbannstímabilið er ekki talið með.
Að reka skráaskiptavef er enginn barnaleikur og ekki felst ekki einvörðungu í því að afrita skrár á vefsvæði og setja upp nokkur forrit. Ef það væri svo auðvelt myndum við sjá talsvert fleiri skráaskiptavefi í gangi en nú. Einnig þurfa stjórnendur hans að hafa vítt kunnáttusvið eins og t.d. kerfisstjórnun, vefforritun og gagnagrunnaumsjón. Það er samt ekki nóg að kunna tæknilega hlutann því það þarf einnig að stjórna samfélaginu og í framhaldi af því tengja þessa hluti saman.
Það eina sem notandanum er annt um er að hann geti notað vefinn og að hann sjái persónulegan tilgang í að nota hann – hver sem hann er. Flestum notendum er nákvæmlega sama hvaða tækjabúnaður liggur að baki vefnum á meðan hann virkar og er ekki óheyrilega hægur. Vefur sem er oft niðri eða lengur en eðlilegt mætti telja geta seint talist traustir nú til dags. Fólk myndi ekki taka því illa ef að vefur myndi detta út í nokkra klukkutíma ef hann er annars traustur. Vefir sem eru oft niðri njóta ekki mikils traust og þar af leiðandi nennir fólk ekki að „fjárfesta“ tíma sínum þar.
Stjórnendur þurfa einnig að reka samfélag og þá skiptir máli að keyra það áfram. Þá skiptir máli að hafa samband við notendur þegar þess er þörf. Það má ekki fara á það stig að tilkynna um smávægilega hluti því á endanum munu notendur hunsa þá stóru. Ef stjórnendur senda tilkynningu um að allt klabbið sé komið á X GHz vél með Y GB vinnsluminni eða fari í aðrar tæknilegar lýsingar má búast við því að flestir notendur hunsi skilaboðin. Eingöngu senda einkaskilaboð um hluti sem skipta máli fyrir sem flesta og takmarka við þann hluta sem skiptir máli. Ef það þarfnast frekari skýringa eða gæti vakið forvitni er gott að tengja við þráð á spjallborðinu sem hefur nánari upplýsingar svo umræðan eigi sér stað á einni staðsetningu.
Þeir vefir sem eru starfandi þurfa greinilega á smá fræðslu að halda í þessum efnum en slíkar leiðbeiningar verða að bíða betri tíma. Með þessu er ekki ætlunin að gefa til kynna að Istorrent skráaskiptavefurinn hafi verið fullkomlega rekinn eða án galla. Skjalið verður opinberað þegar það er tilbúið.
Á betri nótunum er ég ánægður með þær hvatningar sem komu vegna athugasemda minna varðandi sýnilegt athafnaleysi notenda þótt þær hefðu að sjálfsögðu mátt að vera fleiri. Ég vil koma þökkum mínum á framfæri til þeirra notenda og óska þeim alls hins besta.
Venjulega þegar flutt er ræða í tilefni árlegra viðburða er nefnt að maður voni að atburðurinn gerist aftur að ári en ég tel það ekki við hæfi í þetta sinn. Lögbanninu verður líklegast lokið þá og rétthafasamtökin vonandi búin að greiða réttmætar skaðabætur sem þau ættu með réttu að greiða.
– Svavar Kjarrval, 19. nóvember 2008.
Skemmtileg lesning, gaman að heyra að það séu framfarir í gangi.
Gangi þér vel með þetta og eigðu ánægjulegan afmælisdag. 🙂
Comment by Blomakrans — 20 November 2008 @ 04:05
Skemtileg lesting, ég vil líka þakka fyrir alla þá hjálp sem þú hefur gefið mér í sambandi við tæknileg mál og hugleiðingar í gegnum síðast liðið ár í sambandi við rTorrent.net
en ég held að TVB hafi ekki notað istorrent kóðan né ég með rTorrent en það eru hlutir samt úr honum á vefunum og vil ég þakka líka fyrir að hafa fengið þennan kóða í okt 2006. hann hefur hjálpað með mikið hjá okkur..
En annars vona ég að þér gangi sem best með málið og að þetta fari nú að ljúka sem fyrst með fallegann sigur á bakvið 🙂
Kær Kveðja Mr.IceFox
Comment by IceFox — 5 December 2008 @ 03:23