Istorrent bloggið Fréttir og ýmsar tilkynningar

17 April 2008

Greinargerð Istorrents til Hæstaréttar

Filed under: Almennt — Svavar Kjarrval @ 11:55

Þann 15. apríl var lokið við greinargerð varnaraðila, Svavars Lútherssonar og Istorrents ehf., vegna áfrýjunar rétthafasamtakanna fjögurra í Istorrent-málinu. Í stuttu máli er farið fram á að frávísunardómurinn verði staðfestur. Ásamt þeirri ástæðu sem héraðsdómur taldi fram vegna frávísunar málsins lögðum við fram fleiri atriði sem ættu að varða frávísun. Tómas Jónsson hæstaréttarlögmaður flytur málið fyrir okkar hönd og fær hann kærar þakkir fyrir það.

Eftirfarandi aðalástæður ættu að vera nægjanlegar til að staðfesta frávísun málsins:
I. Aðild sóknaraðila uppfyllir ekki reglur um samaðild.
II. Sóknaraðilar hafa farið út fyrir málsóknarumboð sitt.
III. Málið er vanreifað af hálfu sóknaraðila m.t.t. laga 30/2002.
Fyrri tvær ástæðurnar eru að mati varnaraðila nærtækari fyrir frávísun málsins og ættu því að ganga framar þeirri þriðju við úrlausn málsins.

I. Aðild sóknaraðila uppfyllir ekki reglur um samaðild.
Samaðild skv. lögum er þegar 2 eða fleiri aðilar eru skv. lögum skyldugir til að fara saman í mál vegna sama löggernings (sama atviks) eða af öðrum ástæðum þar sem þeir eru knúnir til að fara saman í mál. Þegar lögbannið var sett á af sýslumanni komst á slík skylda af þeirra hálfu. Í lögbannsmálum verða því allir sem krefjast lögbannsins að hefja mál til staðfestingar á því.

Í greinargerð varnarðila fyrir héraðsdómi er því haldið fram að reglur um samaðild séu ekki uppfylltar þar sem aðildin að lögbannsgerðinni sé önnur en í staðfestingarmálinu. SMÁÍS var aðili að lögbannsgerðinni en í stefnunni voru ekki gerðar dómkröfur fyrir hönd SMÁÍS heldur gerir SMÁÍS kröfur fyrir hönd 365 hf. sem þá var orðinn aðili að dómsmálinu ef stefnan er lesin skv. orðanna hljóðan. Það var skilningur dómara og lögmanna allt þar til 25. janúar að 365. hf. væri aðili að málinu en ekki SMÁÍS. Af þeim ástæðum er ekki hægt að telja SMÁÍS sem aðila að stefnunni.

II. Sóknaraðilar hafa farið út fyrir málsóknarumboð sitt.
Málsóknarumboð byggja á því, gróflega séð, að aðilar geti veitt öðrum aðila heimild til þess að sækja mál fyrir sína hönd. Engin almenn lög eru til um þau þannig að gildi þeirra byggist á lögum eða vegna dómvenju.

Í úrskurði héraðsdóms 11. febrúar virðist réttlætingin á aðild SMÁÍS koma frá svonefndum Myndstefsdómi (hrd. 390/1996) en það er misskilningur. Dómvenjan snýst einvörðungu um svokallað innheimtuumboð rétthafasamtaka sem gengur út á að innheimta höfundarréttargjöld í eigin nafni í þágu félagsmanna. Málsóknarumboð samtakanna var takmarkað við kröfur í eigin nafni um þóknun fyrir notkun mynda og náði ekki til miskabóta.

Þar sem engin heimild er veitt í lögum til handa rétthafasamtakanna til að beita málsóknarumboðum vegna brota á höfundarrétti og í þessu máli er ekki um að ræða innheimtu gjalda fyrir birtingu verka og felst því heimild samtakanna við almennu málsóknarumboðsheimildina (3. mgr. 25. gr. eml.). Í þeirri heimild er félögum og samtökum leyfilegt að höfða mál í eigin nafni vegna viðurkenningar á réttindum félagsmanna sinna eða lausn þeirra undan skyldum ásamt því skilyrði að slík hagsmunagæsla samrýmist tilgangi þeirra.

Þann 13. nóvember 2007 féll dómur í Hæstarétti í máli SMÁÍS gegn Pétri Péturssyni (sk. Sky Digital mál – hrd. 575/2007) þar sem synjun sýslumanns um lögbann var staðfest þar sem með lögbanni var hvorki sóst eftir viðurkenningu á réttindum félagsmanna né lausn undan skyldu. Einnig er vísað í sk. ASÍ-dóm (hrd. 277/2001) þar sem krafa má ekki lúta berum orðum að réttindum og skyldum nafngreindra félagsmanna og síðan í hrd. 185/1993 þar sem kveðið var á að sakarefni málsins verði að skipta alla félagsmenn máli en ekki varða bara hagsmuni sumra.

Í Istorrent-málinu eru gerðar kröfur sem ganga þvert á fyrrnefnda dóma. Sóknaraðilar gera kröfur um viðurkenningu réttinda og þar að auki kröfur um staðfestingu lögbanns og um skaðabætur en síðarnefndu kröfurnar falla ekki undir viðkenningu á réttindum. Einnig eru nefndir tilteknir félagsmenn í tengslum við kröfugerðina og þá sérstaklega fyrirtækið 365 hf. og vísað til annarra sem umbjóðenda stefnenda án frekari skýringa. Orðalagið getur ekki átt við um alla félagsmenn sóknaraðila heldur einungis þá sem hafa gefið til þess málsóknarumboð eða áttu efni sem notendur torrent.is eru sakaðir um að hafa sent sín á milli.

Ekki allir félagsmenn rétthafasamtakanna hafa hagsmuni af kröfugerð sóknaraðila enda er því ekki haldið fram. Mismunurinn stafar aðallega af því að sumir meðlimir samtakanna áttu efni sem notendur vefsins eru sakaðir um að hafa dreift og aðrir ekki. Verður því að skoða réttarstöðu hvers og eins og þarf að skoða rétt hvers og eins þeirra til skaðabóta sbr. dóm Hæstaréttar nr. 377/2005.

Einnig liggur ekki fyrir að kröfur sóknaraðila séu í samræmi við tilgang þeirra sbr. samþykktir þeirra. Ekki er hægt að sjá að tilgangur þeirra sé að gæta hagsmuna erlendra rétthafasamtaka sinna þar sem hann nær einungis til félagsmanna þeirra. Í málinu er ekki skýrt frá því hvort skaðabótakrafan sé sett í þeirra eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sinna. Þá er því ekki haldið fram að rétthafasamtökin hafi sjálf orðið fyrir tjóni en samt sem áður töldu forsvarsmenn þeirra sig hafa fullan ráðstöfunarrétt og jafnvel eignarrétt yfir skaðabótunum ef þær skyldu vera dæmdar. Ekki er hægt að sjá að slíkt sé stutt af málsóknarumboðunum og talið að verið sé að fara langt út fyrir umboð þeirra.

III. Málið er vanreifað af hálfu sóknaraðila m.t.t. laga 30/2002.
Í greinargerð og í málflutningi voru rakin sjónarmið Istorrents ehf. og var starfseminni lýst sem þjónustu við notendur Internetsins og borið saman við þjónustu nafngreindra þjónustufyrirtækja. Þá var tekið fram að varnaraðilar teljist ábyrgðarlausir af meintum lögbrotum notenda og geti ekki verið í hlutverki löggæslu og hafi sinnt öllum tilkynningum um meint lögbrot. Var því verið að lýsa þeim sjónarmiðum sem liggja að baki ákvæðum laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu (lög 30/2002) sem héraðsdómi fannst ekki vera rætt nóg um. Því er hins vegar ekki mótmælt að í greinargerðinni var ekki nefnt berum orðum að fyrrnefnd lög ættu við um starfsemina en það var síðan nánar rökstutt við flutning málsins. Af fyrrgreindum ástæðum fæst það varla skilið að dómurinn hafi kveðið á um að varnaraðilar hafi átt sök á að hafa ekki fjallað nægilega um þýðingu laga 30/2002. Þó er því ekki mótmælt að umfjöllunin hefði mátt vera ítarlegri en þó ekki að því leiti að orsaka vanreifun af hálfu varnaraðila. Sóknaraðilar mótmæltu ekki þessum svokallaða skort á umfjöllun og er því sá þáttur málsins vanreifaður af þeirra hálfu.

Sóknaraðilar gera þá kröfu að frávísun héraðsdóms skuli ógilduð og vísað aftur til héraðsdóms vegna þess að varnaraðilar nefndu ekki gildi laga 30/2002 í greinargerð sinni og beri því að hunsa þau lög við úrlausn málsins. Ofangreindar ástæður eru ítrekaðar og minnst á að umfjöllunin um gildi fyrrnefndra laga hafi ekki verið mótmælt sem of seint fram kominni. Í lögum er kveðið á að dómendum sé rétt að túlka þýðingu á þögn aðila í málum og hafi verið rétt farið að þegar skortur á andsvari við tilvísun varnaraðila til laga 30/2002 hafi verið túlkaður sem samþykki. Af þeim ástæðum væri það rangt að undanskilja þýðingu þessara laga við úrlausn málsins af þeim ástæðum að sóknaraðili hafi ákveðið að gera ekki tilraun til að hrekja þann hluta varnanna.

2 Comments »

  1. Snilld. Gangi ykkur bara sem best. Og við notendur ísles
    nskra torrent síðna skulum vera nógu fúsir til að gefa smá pening frá okkur því að ef við töpum þessu máli, þá verður sennilega flestum öðrum íslenskum torrent síðum lokað í framhaldinu.

    Comment by HlynurH — 17 April 2008 @ 02:58

  2. Sweet.

    Hvað gerirðu svo ráð fyrir að sé langt í einhvern úrskurð í þetta mál?

    Comment by Daudinn — 18 April 2008 @ 02:41

RSS feed for comments on this post.

Leave a comment

You must be logged in to post a comment.

Powered by WordPress