Í gær var aðalmeðferð í 2. umferð Istorrent-málsins fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Þrátt fyrir yfirlýsingu Snæbjarnar í Fréttablaðinu daginn áður, þá var þetta ekki í fyrsta sinn sem tekið er á höfundarréttarlegum þætti málsins því það var einnig gert í aðalmeðferð 1. umferðar málsins. Sumir hafa ranga mynd af íslensku réttarfari og halda að skorið sé úr málinu á staðnum strax eftir málflutning en þannig virkar það ekki.
Dagskráin var þannig að réttarhöldin ættu að byrja kl. 10:30 og vera til 15:30 en því miður lauk þeim ekki fyrr en kl. fjögur. Einhverra hluta vegna ákvað Hróbjartur að hafa aðstoðarmann með sér en einhver þarf að bera öll þessi skjöl. Ef þau voru eitthvað í líkindum við þau sem við höfðum, þá hefðu þau eiginlega fyllt heila skjalatösku.
Ekki er hægt að tryggja að allt sem hér fer fram sé rétt munað eða í réttri röð þótt leitast er til þess að hafa allt rétt. Þrátt fyrir að glósur séu skrifaðar niður á meðan atburðir gerast er sömuleiðis ekki hægt að tryggja að allt sem skiptir máli hafi verið skráð niður. Einnig ber að geta að þær eru ritaðar af einum stefndu í málinu og ber að taka þeim með þeim fyrirvara að ekki sé um hlutlaus skrif að ræða.
Hróbjartur Jónatansson (HJ) flytur málið fyrir hönd STEF.
Fróði Steingrímsson (FS) flytur málið fyrir hönd Istorrents og Svavars.
Styttingar:
Lög 30/2002 = Lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.
Stefndu = Svavar Lúthersson og Istorrent ehf.
Gróflega var dagurinn svona
Lögmenn gera stutta grein fyrir málinu.
Tekin skýrsla af Svavari.
Páll Óskar ber vitni.
Hlé
Lögmaður stefnenda (HJ) flytur mál þeirra munnlega.
Lögmaður stefndu (FS) flytur vörn.
HJ flytur andsvör.
FS flytur andsvör.
Málið er dómtekið og dómþingi slitið.
Nákvæmari útlistun
Þing var sett kl. 10:30.
Hróbjartur Jónatansson (HJ) gerir stutta grein fyrir málinu.
– Afhendir bókun um breyttar dómkröfur. Hún fól í sér niðurfellingu á aðalviðurkenningarkröfunni í málinu.
Fróði Steingrímsson (FS) gerir stutta grein fyrir málinu.
Stefndi Svavar ber vitni.
– FS spyr hann hver tilgangur vefsins var, hverjir höfðu aðgang, um skilmála, leiðir höfunda til að fá fjarlægt efni og bréf rétthafasamtakanna.
– HJ spyr hann um hlutverk sitt í starfsemi torrent.is, hýsingarstað efnisins, vitneskju hans um það sem gerðist á vefnum, bréf rétthafasamtakanna og hvað hann gerði í kjölfar þess.
Páll Óskar ber vitni.
– Segist vera meðlimur í STEF.
– Fer út í bréfið sem hann sendi til Svavars og samskiptin þar á eftir.
Hlé frá um 11:48 til 12:30.
HJ flytur málið munnlega:
– Búið að tálga af óvissu á ýmsum þáttum málsins.
– Umboð STEF frá menntamálaráðuneytinu og málsóknarumboð.
– Höfundur einn getur ráðstafað rétti sínum.
– Hafa menn rétt á að dreifa verkum í gegnum netið?
– Eintakagerð skilgreind.
– Ferli STEF við samningagerð. Samið upp á eintakagerð og flutningsrétt.
– Þáttur Istorrents í milligöngu í skráarskiptum.
– Umfang skráardeilinga með efni rétthafa í STEF.
– Hvernig „music cuesheet“ virka. STEF fær eintak frá erlendum aðilum.
– Umfang brota svo mikið að ekki tók því að senda tilkynningar um einstök verk.
– Ósamræmi í gögnum stefndu.
– Sönnunarkrafa um meint brot.
– Öfug sönnunarbyrði sbr. 8. gr. höfundalaga.
– Sýknukrafa gengur ekki upp.
– Vefurinn forsenda fyrir því að innbyrðis dreifing sé möguleg.
– Háttsemi stefndu leiddi til tjóns.
– Eðli verknaðarins leiðir líkur að tjóni.
– Svavari átti að vera ljóst að það yrði tjón.
– Skilmálar frýja ekki undan ábyrgð.
– Tjónþoli geti krafið hvaða þátttakanda sem er um bætur.
– Lög 30/2002. Skilyrði að greitt sé fyrir viðk. þjónustu. Telur að ábyrgðarleysi eigi ekki við.
– Gott og gilt að efni Páls Óskars var tekið út.
– Danskur dómur um bann við aðgengi að The Pirate Bay.
– Mótmæla bótakröfu efnislega og tölulega.
– Þáttur Svavars í málinu.
– Leggur málið fyrir dóm.
FS flytur vörn munnlega:
– Krefst sýknu af öllum kröfum. Einnig er krafist bóta og málskostnaðar.
– Notendur ekki valdir af stefnendum.
– Eðli skráarskipta – fara á milli tveggja notenda.
– Ábyrgð notenda að afla nauðsynlegra leyfa.
– Leyfðu notendum að nota vefsvæðið.
– Mikið af efni á netinu sem höfundar hafa dreift með þeim tilgangi að því sé dreift frítt.
– Vísar í vitnisburð Páls Óskars um að farið var eftir beiðni hans um að fjarlægja efni.
– Stefndu ekki sakaðir um beina þátttöku.
– Dómskjal 203, whois uppfletting frá ISNIC sem sýnir að rétthafi lénsins er Istorrent ehf.
– Lög eigi ekki að hafa fælingaráhrif.
– Af hverju stefna rétthafar ekki stefndu sjálfir?
– Gögn sýna ekki að dreifing fór fram.
– Gildissvið höfundalaga.
– Bandaríkin hafa ekki staðfest (innskot – Hann meinti fullgilt) Bernarsáttmálann eða aðra alþjóðlega sáttmála um höfundarrétt sem Ísland hefur samþykkt.
– Napster.no dómur. Tekist á við það að vísa í gegnum hlekk á efni á öðrum stað. Fallist á sekt vegna meðvirkni. Sérstök ákvæði eru um meðvirkni/hlutdeild í norsku höfundalögunum.
– Danski dómurinn um The Pirate Bay. Einnig ákvæði í dönsku höfundalögunum um hlutdeild.
– Finreactor dómurinn.
– Lög 30/2002 og að hvaða leiti þau gildi. Rán Tryggvadóttir er sammála um að torrent síður teljist sem þjónustuveitandi.
– Fer í 15. gr. sömu laga og lagaskýringagögn.
– Fer í lagaskýringagögn fyrir 5. kafla laganna.
– Í bréfi rétthafasamtakanna frá október 2006 var eingöngu beðið um að loka vefnum en ekki beiðni um að fjarlægja efni.
– Hlutdeild er eingöngu í refsirétti og ekki notað í einkamálum. Væri hægt að stefna fyrir hlutdeild vegna brota á lögum um grunnskóla?
– Almenn sakaregla skaðabótaréttar – Ekki nefnt í stefnu.
– Niðurfelling aðalviðurkenningarkröfunnar og lögbannið.
– Stefnendur þurfa að sýna fram á tjón.
– Hvert niðurhal þarf ekki að þýða töpuð sala.
– Til hverra renna skaðabæturnar?
– Útreikningum samtakanna á meintu tjóni þeirra mótmælt.
– Breyttar dómkröfur – lögbannskröfur.
– 24. gr. lögbannslaga.
– Krafa um skaðabætur.
– Leggur málið fyrir dóm með fyrirvara.
HJ flytur andsvar:
– Krafa gegn Svavari. Starfræktu vefsvæðið saman. Athafnir Svavars brot á hagsmunum STEF.
– Mótmæla aðildarskorti vegna notenda sem óframkomnum.
– Gildissvið höfundalaga og Bandaríkin. Fordæmi liggi fyrir.
– Skaðabótaábyrgð.
– Þegjandi hlutdeild átti sér stað.
– Líkir við að stela úr búð og kæra eigandann um að geta ekki selt hlutinn.
– Höfundalög hafi forgang yfir lög 30/2002 í svona tilfellum.
– – Rétthafasamtök eigi ekki að standa í stórfelldu eftirliti.
– Lögbannskrafan snýst eingöngu um bann á rekstri vegna meintra brota notenda. Lénið megi áfram nota til annarra verka.
– Hvernig löglegt skráarskiptafélag á að virka.
– Ábyrgðarleysisávkæði laga 30/2002 gilda ekki ef það eru afskipti af samfélaginu.
– Öfug sönnunarbyrði.
FS flytur andsvar:
– Vefsvæðið er í eigu Istorrents ehf.
– Er ljósritunarstofa sek um möguleg brot starfsmanns?
– Hægt að fá dómsúrskurð til að fá IP tölurnar afhentar.
– Ítrekar að hlutdeild er hugtak í refsirétti.
– Þetta væri ekki eins og að stela úr búð. Afritun felur ekki í sér eyðingu frumeintaks.
– Var ekki haldið fram að höfundalögin eigi ekki við.
– 14. gr. laga 30/2002 og töluliður um lögbann.
– Framkvæmt lögbanns. Verður að vera möguleiki að verða við lögbanninu. Ekki hægt að búast við því að stefndu yrðu að fara yfir allt efnið sjálfir og meta hvort það brjóti í bága við lögbannið eða ekki.
– Öfugri sönnunarbyrði er mótmælt.
– Leggur málið fyrir dóm.
Málið er dómtekið, kallað yrði til dómþings þegar úrskurður liggur fyrir.
Dómþingi slitið um kl. 16:00.
Vonum það besta! 🙂
Comment by almostemo — 8 January 2009 @ 08:00
Lítur ágætlega út. Djöfullegt að maður hafi ekki getað mætt og kannski tekið þetta allt upp. Ég gleymi details svo hratt.
Comment by BizNiz — 8 January 2009 @ 11:42
Er það rétt skilið hjá mér að nú er bara beðið eftir úrskurði dómara?
Ef svo er, sirka hvenær er þá von á honum?
Comment by Arni — 9 January 2009 @ 10:20
Lítið annað hægt að gera en að bíða eftir úrskurði dómara. Það getur verið hvenær sem er en ég myndi giska að það séu 1-3 vikur í það.
Comment by Svavar Kjarrval — 12 January 2009 @ 12:51
Djöfull verður fróðlegt að sjá niðurstöðuna!
Vona að sjálfsögðu það allra besta!
Comment by copyright — 23 January 2009 @ 08:57