Nú er drykklöng stund liðin frá því að fréttir komu á yfirborðið um að Unnar Geir, talsmaður TheVikingBay.org (TVB), hafi komist yfir upplýsingar frá SMÁÍS með klækjum. Ákveðið var að bíða aðeins með að blogga um atburðinn til að sjá hvernig málin myndu þróast eftir að það var fyrst gert opinbert. Einhverra hluta vegna hafa frekari tíðindi ekki borist af samskiptum þeirra, hvorki af hálfu SMÁÍS né Unnari. TVB-fólkið gaf til kynna að það ætlaði að leggja fram opinbera kæru en ekki hefur verið staðfest að hún hafi í raun verið lögð fram eða samin þegar farið er út í þá sálma.
Að sögn Unnars komst hann yfir upplýsingarnar með því að fara til SMÁÍS þykjast ætla að gerast uppljóstrari fyrir samtökin og bauðst meira að segja til þess að bera vitni fyrir þeirra hönd. Yfir nokkurra mánaða tímabil fór hann nokkrum sinnum á fund til Snæbjarnar Steingrímssonar og gaf upp hluti sem voru augljósir eða hreinlega bjó til upplýsingar. Þá greip hann tækifærið og fræddist meira um SMÁÍS og það sem þeir vissu um TVB.
Seinasti fundurinn með SMÁÍS átti víst að vera sá merkilegasti og ákvað hann í kjölfarið á honum að svipta af sér hulunni og opinbera blekkingar sínar gagnvart SMÁÍS. Fjórir aðilar eiga að hafa verið á fundinum: Unnar sjálfur, Snæbjörn Steingrímsson, Ásgeir Stefán Ásgeirsson og einn óþekktur aðili. Unnari á að hafa verið sýnd mappa sem geymdi þúsundir klipptra skjáskota af TVB og þar á meðal upplýsingar sem eingöngu stjórnendur vefsins áttu að hafa aðgengi að. Unnar spurði þá hvaðan þeir fengu þessar upplýsingar og sagði óþekkti aðilinn að maður getur gert allt á netinu en bætti við að þeir ættu ekkert að spá í það hvaðan upplýsingarnar komu. Unnar heldur því fram að rannsóknarteymið hafi notfært sér kerfisgalla eða brotist inn í kerfið til að koma höndum yfir þessar upplýsingar.
Miðað við hvað hefur komið fram á að vera fyrirhafnarmikil rannsókn í framkvæmd af hálfu SMÁÍS gagnvart TVB og stjórnendum þess. Ásgeir á að hafa sagt að hann hafi 15 manns í vinnu við að safna upplýsingum um vefinn og stjórnendur hans þó það sé efasamt að þessir einstaklingar séu í fullri vinnu við það. Aðspurður segist Unnar ekki hafa vitneskju um að álíka rannsókn hafi farið fram vegna Istorrent. Afrakstur rannsóknarinnar á TVB á að fara í opinbera kæru gegn TVB og virðist því ekki vera á áætlun að hefja einkamál eins og þeir gerðu gegn Istorrent. Ekki hefur verið staðfest að SMÁÍS hafi lagt fram opinbera kæru gegn TVB á þessari stundu.
Eitt það áhugaverðasta í frásögn Unnars var tilvitnun hans í Snæbjörn á seinasta fundinum. Snæbjörn á þá að hafa sagt að það skipti engu máli hvort þeir hafi rétt fyrir sér eða ekki þar sem þeir geta gert fólk gjaldþrota. Slíkur hugsanaháttur er mjög hættulegur og minnkar traust á réttarkerfinu og sérstaklega á þeim sem beita slíkum bellibrögðum.
Ásgeir
Ég ákvað að sjá hvað Ásgeir var að bralla á torrent.is og sá innan nokkurra mínútna undir hvaða notendanöfnum hann gekk. Hann er greinilega ekki sá besti í heiminum að fela það hver hann er á netinu. Þá var ákveðið að skoða hvað hann hefur verið að skrifa á spjallborðinu og var rekist á áhugaverðan hlut. Yfir feril sinn hefur hann verið að reyna að hvetja stjórnendur til að halda vefinum lengur uppi, meðal annars með yfirlýsingum um að það sé ekkert ólöglegt við hann (sem er rétt). Hins vegar mátti finna í framlögðum skýrslum SMÁÍS sömdum af „þriðja aðila“, sem var í raun og veru Ásgeir sjálfur, þar sem komu fram yfirlýsingar um að vefurinn sé ólöglegur. Þetta er sérstaklega áhugavert miðað við að hann sýnist hafa deilt terabætum af gögnum með tilstilli torrent.is og átti sér því stað í topp 50 listanum yfir þá sem höfðu deilt mesta magninu. Voru þessar hvatningar og yfirlýsingar á spjallborðinu í samráði við SMÁÍS eða liggur eitthvað annað að baki? Til að fá svar við þessari spurningu þarf að spyrja Ásgeir eða SMÁÍS.
Þegar kafað er dýpra í þær upplýsingar sem liggja um lögfræðikunnáttu hans, þá er hún ekkert sérstaklega góð sem dregur í efa hæfi hans til að koma með lögfræðilegar yfirlýsingar sem byggja á sterkum grunni. Þegar hann og Ómar Daði þekktust var síðarnefndi að stofna vefhýsingarþjónustuna Góða hugmynd ehf. og nefndi við mig að þeir sem rækju svona þjónustu yrðu að hafa fjarskiptaleyfi til að mega reka hana. Ég spurði hann hver nefndi þetta við hann og var það hinn eini sanni Ásgeir. Eftir að hafa rannsakað þetta sjálfur og með einu símtali við Póst- og Fjarskiptastofnun staðfesti ég að það var bull. Vanþekking Ásgeirs á fjarskiptalögum olli því að Ómar Daði sótti um og fékk sér fjarskiptaleyfi í erindisleysu.
Annað dæmi sem hægt er að taka er klausan neðst á vef Umbra Systems, fyrirtæki sem hann setti á fót. Á vef fyrirtækisins, u.is, stendur neðst „All material on this website is owned by Umbra systems – All copying or quoting is forbidden without written permisson of behalf of the owners.“ Þeir sem þekkja anda höfundalaganna og hafa lesið viðeigandi greinar laganna ættu að vita að það er ekki hægt að banna tilvitnanir alveg. Ástæðan fyrir því að þessi tilvitnun er hér í greininni, fullkomlega löglega, er vegna hugtaks sem kallast ‘sanngjörn notkun’ (e. fair use/fair dealings) en sá sem skrifaði klausuna var greinilega ekki með það í huga á sínum tíma. Ætli skilmálar smais.is vefsins hafi verið fyrirmyndin? Þótt að slík fyrirmæli megi finna á vefsíðum þarf ekki að þýða sjálfkrafa að það sé brot á lögum að fara ekki eftir þeim.
Þrátt fyrir þessi augljósu vanþekkingu var hann að ýja að því á spjallborði torrent.is að lesa ekki eina línu af lögunum eingöngu heldur túlka lögin í heild. Svo virðist vera að Ásgeir sé sekari um það en ég og hefur hann sjálfur útvegað þær sannanir sem þarf til að staðfesta það. Af lagalegum ástæðum get ég ekki farið nánar út í skrif hans á spjallborðinu.
Þetta minnti mig á málþingið í Háskólanum í Reykjavík sem var 26. apríl 2007. Þar var Snæbjörn með það mikla lagaþvælu (réttnefni) í erindi sínu að mér blöskraði. Því miður fékk ég ekki færi á að leiðrétta hann þar sem hann flutti sitt erindi á eftir mér og eftir á var varpað mörgum spurningum til okkar frá salnum. Í erindinu nefndi hann að fyrst að torrent.is beiti fyrir sér lögum um rafræn viðskipti og rafræna þjónustu (lög 30/2002) um tilkynningar um óleyfilega dreyfingu, þá sé starfsemi hans bundin fjarskiptalögum og þurfi því þar af leiðandi að skrá alla umferð notenda og geyma þær upplýsingar í 6 mánuði. Hefði hann vitað meira um hvernig BitTorrent virkar eða skilið fjarskiptalögin betur á þeim tíma hefði hann aldrei nefnt þetta. Ætli Ásgeir hafi komið með nokkra lagalega punkta fyrir Snæbjörn?
Samkvæmt því sem ég hef frétt er Ásgeir núna launamaður hjá SMÁÍS og skv. ofangreindu felst starf hans í því að safna upplýsingum um jafningjanet á Íslandi en ekki liggur fyrir hvaða aðferðum hann beitir við þá upplýsingaöflun. Fyrstu samskipti hans við SMÁÍS (sem ég veit um) hófust árið 2003 þegar hann leitaði til þeirra vegna DC-tengipunkta á Íslandi og meint brot þeirra á höfundalögum. Ástæðan er ekki á hreinu en heimildir herma að fyrirtæki hans, Ljóshraði, hýsti DC-tengipunkt um tíma og sumir eru að spá hvort hann hafi leitað til SMÁÍS vegna afbrýðissemi út í hina tengipunktana og/eða til að reyna að afla meiri tekna. Hvort SMÁÍS hafi vitað af þessum tengipunkti eða ekki er ágætis ráðgáta sem ég efast um að verði svarað opinberlega. Eftir „verktakavinnuna“ hefur hann haft tekjur af því að vinna beint og óbeint fyrir SMÁÍS. Sérsvið hans í nánustu framtíð verður líklegast að inna af hendi vinnu fyrir rétthafasamtök því ég efast um að hann fái vinnu annars staðar.
Góð grein og áhugaverður lestur!
Comment by Bjarni — 11 July 2008 @ 03:09
Þetta er algjör snilldar grein. Ég mun fylgjast grant með þessu máli hérna 🙂
Comment by Benony91 — 16 July 2008 @ 06:59
nunu bara atvinnuskapandi adgerdir hja Asgeiri hahaha 😉
Comment by PatriotX — 20 July 2008 @ 11:30
Það gengur ekki nógu vel hjá Ásgeiri þessa dagana. Kreppan hefur verið að banka á dyrnar hjá honum. Mér er svo sem sama hvað verður um þennan mann. Aftur á móti veit ég að Ásgeir er siðblindur maður (http://en.wikipedia.org/wiki/Psychopathy eða náskyld einkenni). Hann gerir allt fyrir peninga.
Kynni mín af Ásgeir eru ein af stærri misstökum mínum. En hann notaði dómsmál gegn mér til þess að fá fram betri mynd af sjálfum sér. Kemur mér ekki á óvart í dag, en ég sá þetta ekki á sínum tíma.
Mér hefur einnig borist það til eyrna að Ásgeir hafi verið að reyna við greiningardeild Ríkislögreglustjóra en ekki gengið hingað til. Mig grunar að sálfræðimatið hafi ekki verið honum í vil.
Hýsingarfyrirtækið hans (ljóshraði varð gjaldþrota 2006 eða 2007) er ekkert nema skeljarfyrirtæki (http://en.wikipedia.org/wiki/Front_organization) fyrir hans starfsemi (fyrirtækið er til en heldur aðeins uppi lámarksstarfsemi og öllu öðru lámarks).
Ég læt þetta duga að sinni.
Comment by jonfr — 3 August 2008 @ 06:37